Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 17:28:54 (5087)


[17:28]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
Hæstv. forseti. Ég vitnaði hér í tvö nefndarálit, 1. og 2. minni hluta, nefndarálit þriggja þingmanna Sjálfstfl. og fulltrúa Alþfl. í landbn. Þau ganga í gjörsamlega gagnstæðar áttir hvað varðar ekki minna en þrjú veigamikil grundvallaratriði þessa máls. Hæstv. forsrh. hefur sjálfur sagt að það sé nauðsynlegt að eyða allri réttaróvissu í þessu máli. Hvernig á að útskýra það fyrir okkur að afgreiðsla málsins á þessum grundvelli geri það? Það er ekki hægt. Það sér hvert mannsbarn að deilan var ekki sett niður. Stjórnarflokkarnir urðu eingöngu ásáttir um það að halda áfram að vera ósammála og það er skjalfest, þessi gagnstæði skilningur stjórnarflokkanna liggur nú hér fyrir á Alþingi skjalfestur. Og hvernig ætlar ríkisstjórnin í raun og veru að halda áfram með málin á þessum grundvelli? Þetta gengur ekki svona, hæstv. forsrh. Aldrei hefur ríkisstjórn hæstv. forsrh. lagst lægra en einmitt nú ef hún ætlar að bjóða Alþingi og sjálfri sér upp á það að ljúka málinu með þessum hætti. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hæstv. forsrh. hafi ekki betri svör en þetta fram að færa í málinu.