Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 17:30:17 (5088)


[17:30]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. forsrh. til hamingju. Hann flutti mál sitt með nokkuð nýjum hætti. Hann var yfirvegaður og tiltölulega málefnalegur og ekki með neina útúrsnúninga. Hann svaraði að vísu ekki því sem hann hafði verið spurður nema óbeint og lítið en batnandi mönnum er best að lifa.
    Hæstv. forsrh. reyndi að breiða yfir þann mikla ósigur sem Sjálfstfl. hefur beðið í þessu máli og lagði því mikið upp úr gildi samstöðunnar. Nú virðist ekki vera um samstöðu að ræða við Alþfl. en við stjórnarandstæðingar erum fúsir til samstöðu með honum um skynsamleg vinnubrögð. Hagsmuna Íslands var ekki gætt við gerð GATT-samninganna hvað landbúnaðarþáttinn varðar og við viljum samstöðu um skýran og afdráttarlausan texta í búvörulögum sem ekki er hægt að skapa um réttaróvissu. Það er það sem við erum að biðja um. Og ef hæstv. forsrh. vill fá samstöðu með okkur þá á hann að sjá sóma sinn í því að leggjast á sveif með og greiða atkvæði þeim brtt. sem 3. minni hluti flytur.