Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 18:12:19 (5093)


[18:12]
     Jón Helgason :
    Herra forseti. Ég vil fyrst spyrja hæstv. forseta hvort yfirlandbúnaðarráðherrarnir tveir, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., séu ekki viðstaddir þessa umræðu.
    ( Forseti (StB) : Forseti mun láta kanna hvort hæstv. ráðherrar eru í húsinu og mun fá upplýsingar um það innan tíðar.)
    Takk fyrir, herra forseti, það eru nokkrar spurningar sem ég vildi beina til þeirra líka.
    Nú eru að verða liðin þrjú ár síðan núv. hæstv. ríkisstjórn tók við völdum og samkvæmt verkaskiptingu hennar var það Sjálfstfl. sem tók að sér að annast landbúnaðarmál. Þessi 2. umr. um frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sýnir í hnotskurn hvernig Sjálfstfl. hefur því miður farið með það vandaverk sem hann tók þar að sér. Af hálfu stjórnarflokkanna hefur umræðan einkennst af illindum og ásökunum um svik og aðrar vondar hvatir. Málflutningurinn hefur snúist um eitthvert pólitískt samkomulag þeirra á milli þó aðrir geti ekki fundið að það sé um að ræða samkomulag um neitt annað en að halda áfram að rífast. En málefni landbúnaðarins, atvinnuvegarins sjálfs, virðist vera aukaatriði. Þau vinnubrögð hafa einkennt meðferð landbúnaðarmála hjá hæstv. ríkisstjórn og staðfestir þessi málsmeðferð nú að það á að halda áfram með sama hætti.
    Í þessari orrahríð er gengið svo langt að ekki er hikað við að beita þar aðferðum sem augljóslega geta valdið landbúnaðinum óbætanlegu tjóni. Það er slæmt að gera landbúnaðinn að bitbeini stjórnarliðsins, hitt er enn þá verra að beita slíkum hættulegum vinnubrögðum. Skýrt dæmi um það kemur m.a. fram á bls. 7 í nál. hv. 2. minni hluta landbn., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þetta þýðir að núgildandi GATT-samningur setur ströng skilyrði fyrir því að beita megi innflutningstakmörkunum á landbúnaðarvörur. Ísland var undanþegið þessari samningsskuldbindingu með ákvæði í bókun um aðild sína að GATT (svokölluðu ,,afaákvæði`` eða ,,grandfather clause``). Þar segir að Ísland skuli beita II. hluta samningsins (þar á meðal framangreindri 11. gr.) að svo miklu leyti sem hann er ekki í ósamræmi við lagaákvæði í gildi við dagsetningu bókunarinnar (þ.e. 30. júní 1967). Á þeim tíma var innflutningur á flestum landbúnaðarvörum bannaður með reglugerð nr. 3/1967, sbr. lög nr. 30/1960, um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála.
    Framangreind undanþága féll niður 23. nóv. 1992 með gildistöku laga um gjaldeyrismál, nr.

87/1992. Þau felldu úr gildi lög um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, nr. 63/1979, sem komu í stað fyrrnefndra laga nr. 30/1960, um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála. Ekki er heimilt samkvæmt GATT að endurvekja innflutningstakmarkanir sem hafa verið felldar niður.
    Samkvæmt þessu er eingöngu heimilt samkvæmt núgildandi GATT-samningi að takmarka innflutning á landbúnaðarvörum sem eru háðar framleiðslustýringu, þ.e. hrárri mjólk og kindakjöti. Ekki er heimilt að takmarka innflutning á öðrum mjólkurvörum en mjólk eða öðru kjöti en kindakjöti. Fjölmargir GATT-úrskurðir hafa fallið sem skýra þetta nánar. Nægir að nefna deilu Bandaríkjanna við Kanada varðandi innflutningstakmarkanir á ís og jógúrt. GATT-panelúrskurður féll í málinu í október 1989.``
    Það hefur verið minnt á það í umræðum að undanförnu að þegar hæstv. fyrrv. viðskrh. lagði fram frv. um gjaldeyrismál 1992 þá fullyrti hann að gildistaka þess breytti í engu skipan innflutningsmála á landbúnaðarvörum og var það rakið í umræðu áðan. Það var furðulegt að heyra hæstv. forsrh. halda því fram að það væri vegna þess að lögin um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum frá 1985 hefðu ekki verið nægilega skýr. Þau voru að sjálfsögðu fullnægjandi miðað við þau önnur lög sem þá voru í gildi hér á landi um innflutning enda kemur það fram í nál. hv. 2. minni hluta landbn. þar sem segir skýrt það sem ég las áðan, með leyfi forseta: ,,Framangreind undanþága féll niður 23. nóv. 1992 með gildistöku laga um gjaldeyrismál.``
    Það er a.m.k. enginn vafi hjá Alþfl. að fram að þeim tíma héldu ákvæði búvörulaganna en gildistaka þessara laga sem hæstv. þáv. viðskrh. lagði fram og, eins og hæstv. forsrh. sagði, smeygði í gegnum þingið á þeirri röngu forsendu að þau breyttu ekkert skipan á innflutningi landbúnaðarvara. Þau breyttu þessu. Það var reyndar hæstv. utanrrh. ljóst áður en hæstaréttardómurinn féll því á sl. sumri reyndi hann að koma inn í landið landbúnaðvarvörum vegna þessa. Það var sem sagt utanrrn. ljóst löngu áður að málið hafði breyst við lagasetninguna 1992 þó hæstv. viðskrh. héldi þá öðru fram.
    Í nál. hv. 2. minni hluta landbn. gengur fulltrúi Alþfl. enn þá lengra. Hann reynir að rökstyðja að ekki megi taka aftur upp í íslensk lög ákveðnari ákvæði um bann við innflutningi úr því að fyrrv. hæstv. viðskrh. tókst að læða fyrrnefndum lögum í gegnum þingið og reynir í þeirri tilvitnun sem ég las hér upp að rökstyðja það að með því að taka það upp aftur þá værum við að brjóta núverandi GATT-samning. Með öðrum orðum er í nál. 2. minni hluta landbn. --- sem enginn mun vera í vafa um hvaðan er ættað eins og fram hefur komið í fréttum --- verið að koma því á framfæri við aðrar aðildarþjóðir að GATT-samningnum að það frv. sem hér liggur fyrir og önnur lög sem Alþingi kynni að setja til að herða á innflutningstakmörkunum brjóti í bága við GATT-samninginn og þannig, a.m.k. óbeint, verið að hvetja aðrar þjóðir til að kæra það.
    Ég býst við að flest okkar séu sammála um hvaða orð á við um slík vinnubrögð og alveg ótrúlegt að þingmaður á Alþingi skuli leggast svo lágt í málflutningi.
    Það er ekki síður alvarlegt að Sjálfstfl. skuli taka þessu með auðmýkt og lotningu því hæstv. landbrh. andmælti ekki því sem sagt er í nál. hv. 2. minni hluta. Hann andmælti því ekki einu orði í ræðu sinni sem hann flutti fyrr við þessa umræðu. Ég vil því spyrja hæstv. landbrh. að því hvort hann ætlar með þögninni að taka fulla ábyrgð á þessum vinnubrögðum samstarfsflokksins þar sem ekki hefur farið fram hjá neinum að hæstv. utanrrh. hefur ráðið stefnunni. Ef svo er staðfestir það enn einu sinni sem, eins og ég sagði áður, kom í ljós eftir myndun ríkisstjórnarinnar að í verki er utanrrn. orðið að yfirlandbúnaðarráðuneyti. Það er að sjálfsögðu algjörlega öfugt við það sem áður hefur verið og er í öllum öðrum löndum þar sem utanrrn. er þjónusturáðuneyti atvinnuveganna. Þessi skipan er líka rækilega staðfest hjá núv. hæstv. ríkisstjórn með þessu frv. sem hér liggur fyrir til umræðu og allri málsmeðferðinni í kringum það.
    Hæstv. forsrh. sagði áðan í ræðu sinni að það væri eðlilegt að þjóðir reyndu að vernda sinn landbúnað í þeim alþjóðasamningum sem verið er að gera en það vakti furðu annarra þjóða, t.d. Norðmanna, hvernig afstaða íslensku sendinefndarinnar í þessari samningagerð var stundum, að þeir álitu, gagnvart hagsmunum íslensks landbúnaðar.
    Hæstv. utanrrh. sagði í ræðu sinni sl. fimmtudag að þetta frv. hefði verið byggt á pólitísku samkomulagi flokkanna og margítrekaði að út frá því sjónarmiði einu ætti Alþingi að fjalla um málið en ekki að sníða það að þörfum atvinnuvegarins. Það kom líka fram í ræðu hæstv. landbrh. við 1. umr. málsins að ekki hefði verið unnið að undirbúningi frv. á réttum forsendum því hann ítrekaði að á því kynnu að vera ýmsir vankantar og óskaði sérstaklega eftir að hv. landbn. tæki það til rækilegrar skoðunar og lagfæringar. En svo gerist það þegar hv. formaður landbn. hafði látið vinna það verk mjög vel út frá hagsmunum atvinnuvegarins og með tilliti til viðunandi lögfræðilegrar framsetningar að þá kemur hæstv. utanrrh. og segir að það standist ekki þetta pólitíska samkomulag og gerir kröfur um að því sé breytt í tíu atriðum sem tíunduð eru í nál. hv. 2. minni hluta og bæði framsögumaður þess, hv. 4. þm. Vesturl., og hæstv. utanrrh. ítrekuðu í ræðum sínum sl. fimmtudag.
    Það hefur þegar verið rakið hvernig þessar breytingar hafa augljóslega alvarlegar afleiðingar fyrir landbúnaðinn. Með því að fella niður orðin ,,eða tilsvarandi vörur`` úr 72. gr. frv. má búast við að upp komi endalausar deilur um það hvaða vörur eru framleiddar hér á landi, enda virtist hæstv. utanrrh. reikna með því í ræðu sinni að slíkar deilur mundu koma upp því hann sagði eitthvað á þá leið að ,,ef tilefni gefast til málshöfðunar út af þessu á þeim tíma sem líður fram að áramótum``. Lengur taldi hann að þessi lög mundu ekki standa virðist vera miðað við það orðalag. En reynslan hefur sýnt að innflytjendur reyna að

finna vörutegundir sem hægt er að koma fram hjá ákvæðum um há gjöld og falla ekki undir takmarkanir og á þá leið er hv. frsm. 2. minni hluta landbn. líka að benda á í nál. sínu þegar hann segir á bls. 7 í framhaldi af því sem ég las áðan, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Málið snerist um það að Kanada beitti innflutningstakmörkunum á jógúrt og ís. Kanada bar m.a. fyrir sig að takmarkanirnar réttlættust af 2. mgr. 11. gr. GATT vegna þess að framleiðslustýring væri á mjólk. Kanada hélt því fram að innflutningur á ís og jógúrt dragi úr neyslu á innlendum ís og jógúrt. Þar með skapaðist hætta á offramleiðslu á mjólk sem torveldaði framleiðslustýringu hennar. Kanada taldi að jógúrt og ís væri í raun mjólk í öðru formi. Framleiðslustýring á mjólk feli þar með í sér einnig framleiðslustýringu á jógúrt og ís.
    Þessu hafnaði GATT-panellinn sem taldi að jógúrt og ís væru hvorki tilsvarandi vörur né vörur sem geti beint komið í staðinn fyrir kanadíska mjólk í skilningi 11. gr. GATT. Innflutningstakmarkanir Kanada á ís og jógúrt voru því taldar samningsbrot.
    Framangreindur úrskurður hefur beina þýðingu fyrir aðstæður hér á landi. Hann staðfestir það að landbúnaðarráðherra væri óheimilt að takmarka innflutning á öðrum landbúnaðarvörum en mjólk og kindakjöti. Annað væri brot á núverandi skuldbindingum GATT.``
    Með þessu er hv. frsm. 2. minni hluta að setja fram fullyrðingu um að ef hægt er að finna einhverja sérstaka vinnsluvöru sem ekki er framleidd hér á landi, enda þótt hún sé að miklu leyti unnin úr landbúnaðarhráefni, þá sé landbrh. ekki heimilt samkvæmt skilgreiningu GATT að leggja verðjöfnunargjald á slíkar vörur og þar með að ómerkja lista sem búið er að fá samþykktan í GATT-samningunum og staðfesti þar með rétt okkar. Þennan lista virðist hv. frsm. 2. minni hluta landbn. vera að reyna að gera tortryggilegan og hvetja til að sé gagnrýndur af öðrum þjóðum. ( Gripið fram í: Það er misskilningur.)
    Ég vil spyrja hæstv. landbrh. hvort það sé líka landbúnaðarstefna Sjálfstfl. að með því að fella niður orðin í 72. gr. um þetta atriði, hvort það sé í samræmi við stefnu Sjálfstfl. að gera þær breytingar sem gætu haft þessar afleiðingar. ( Landbrh.: Ég náði ekki alveg spurningunni.) Það er það að fella niður orðin ,,enda séu þær framleiddar hér á landi`` með tilliti til þess rökstuðnings sem fram kemur í nál. hv. 2. minni hluta landbn. um að það brjóti í bága við GATT-samninginn nú þegar á að leggja á vinnsluvörur.
    En það atriði sem mest hefur verið rætt um í sambandi við þetta mál er að Sjálfstfl. styður það að í frv. og brtt. við það er ekkert fjallað um framkvæmd íslenskra stjórnvalda á hinum nýju GATT-samningum sem eftir orðum hæstv. utanrrh. eins og ég las áðan eiga að hans mati að ganga í gildi um næstu áramót.
    Bændur hafa lagt mikla áherslu á að fá nú þegar vitneskju um hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að halda á þeim málum. En með þeim tíu atriðum sem breytingar voru gerðar á upphaflegum tillögum hv. formanns landbn. að kröfu Alþfl. voru felld niður öll ákvæði um að þetta næði einnig til GATT-samninganna væntanlegu. Það er að vísu í samræmi við margítrekaðar yfirlýsingar hæstv. landbrh. sem lesnar hafa verið upp í þessari umræðu, bæði af hv. frsm. 2. minni hluta landbn. og hæstv. utanrrh. og einnig hér í dag. Samkvæmt því er það vilji hæstv. landbrh. að sérstök fimm manna nefnd taki þessi mál til skoðunar. Þá yfirlýsingu gaf hann þegar hann mælti fyrir frv. um breytingar á búvörulögunum í desember og ítrekaði það svo aftur í framsöguræðu sinni með þessu frv. En í því sambandi er það athyglisvert að sú nefnd var fyrst skipuð nú í síðustu viku, enda þótt ákvörðun um að hún ætti að fara með þessi mál hafi verið tekin á síðasta ári og þau vinnubrögð sýna að það virðist ekki vera mikill áhugi á því að hraða undirbúningi að því máli.
    Það kom fram í máli hæstv. utanrrh. og einnig frsm. 2. minni hluta landbn. að sú athugun sem á að fara fram í sambandi við GATT-samninginn mundi fyrst og fremst snerta breytingu á búvörulögunum. Ég þori að fullyrða að það er algjörlega ný stefna að landbrh. skuli fela öðrum ráðherrum forustu um breytingar á svo afdrifaríkum ákvæðum landbúnaðarlöggjafarinnar sem þetta atriði er og yfirlýsingar hæstv. landbrh. um að hann telji sig ekki vera að afsala sér neinu með þeirri ákvörðun getur aðeins táknað að hann sé fyrir löngu búinn að sætta sig við að aðrir ráðherra hafi mikilvægt ákvörðunarvald í málefnum landbúnaðarins innan hæstv. ríkisstjórnar.
    Fullyrðingar hæstv. utanrrh. og hæstv. landbrh. stangast reyndar algjörlega á við þá skoðun hv. 3. þm. Reykv. Björns Bjarnasonar, formanns utanrn., sem fram kom í sjónvarpi fyrir hálfum mánuði síðan þegar Sjálfstfl. hafði tekið þá ákvörðun að taka þetta atriði ekki inn í brtt. Í því viðtali sagði hv. 3. þm. Reykv. að hann teldi mjög mikilvægt að ákvörðun um þessa framkvæmd yrði tekin nú áður en GATT-samningurinn yrði lagður fyrir Alþingi. Það væri mjög óheppilegt að deilur um framkvæmdina stæðu yfir á meðan verið væri að fjalla um það hvort ætti að samþykkja samninginn eða ekki. Jafnframt kemur það fram í þessum orðum hans að hann telur að ekki sé eftir neinu að bíða fyrir Alþingi að taka slíka ákvörðun.
    Hitt er þó að mínu mati enn þá alvarlegra að hæstv. utanrrh. skuli halda því fram að ekki sé hægt að taka ákvörðun um það nú vegna þess að það séu svo mörg atriði í sambandi við samninginn sem hann hafi ekki hugmynd um hvernig séu. Hann viti svo lítið um það hvað í þessum samningi felst fyrir íslenskan landbúnað að ekki sé hægt að taka neina ákvörðun um þetta málefni eða móta stefnu ríkisstjórnarinnar og lagasetningu á Alþingi. Mér finnst það alveg furðuleg yfirlýsing af hæstv. utanrrh. að hafa staðið fyrir og staðið að slíkri samningsgjörð án þess að gera sér til hlítar grein fyrir því hvaða áhrif samningurinn komi til með að hafa fyrir íslenska atvinnuvegi.

    Nágrannaþjóðir okkar eru nú í óðaönn að búa sig undir þá breytingu sem samningurinn mun hafa í för með sér fyrir þær en hér virðist ekkert vera aðhafst enn þá og hæstv. ráðherrar segja að þeir viti ekki hvað þarna er um að ræða.
    Í nágrannalöndunum er málefnið í höndum landbúnaðarráðuneytanna og það viðurkenndi hæstv. utanrrh. í ræðu sinni og reyndar hæstv. forsrh. líka hér áðan. Hæstv. utanrrh. gaf hins vegar enga skýringu á því af hverju þetta grundvallaratriði í starfsskilyrðum íslensks landbúnaðar eigi ekki að vera í verkahring landbrh. eins og í nágrannalöndum okkar. Eina svarið var að það gegndi allt öðru máli hér. Er skýringin þá sú að í núv. ríkisstjórn sé það samkomulag að hæstv. landbrh. fari ekki með þessi mál?
    Hæstv. utanrrh. sagði að það yrði að taka pólitíska ákvörðun um það hversu langt hvert ríki, í þessu tilfelli okkar ríki, vill ganga til að nýta þær tollaheimildir sem felast í GATT-tilboðinu. Það sama sagði hæstv. forsrh. hér áðan, það séu hámarksheimildir en spurningin sé eftir um það að hve miklu leyti menn ætla að nýta þær heimildir. Það er einmitt spurningin sem fyrst og fremst er beint til hæstv. ríkisstjórnar og bændur gera kröfu til að fá svar við þeirri spurningu.
    Hv. 18. þm. Reykv. spurði áðan hvernig verið sé að breyta landbúnaðinum í samræmi við gerða samninga. Á meðan enginn veit eða bændur vita ekki hvaða áhrif þeir munu hafa þá er að sjálfsögðu ákaflega erfitt að búa sig undir þá breytingu sem samningarnir kunna að hafa í för með sér.
    Ég vil því beina því til hinna þriggja ráðherra og bið þá að svara því hver fyrir sig. Hvenær ætlar hæstv. landbrh. að taka þá pólitísku ákvörðun hvernig á að beita samningum? Ég vil einnig spyrja hæstv. forsrh.: Hvenær vill hann og ætlar að taka ákvörðun um það hvernig á að beita ákvæðum samninganna? Hvenær eiga bændur að fá að vita það? Ég ætla einnig að spyrja hæstv. utanrrh. að því hvenær hann telur að bændur eigi að fá að vita það hvernig þeir eigi að búa við GATT-samningana. Jafnframt vil ég biðja hæstv. ráðherra að svara því hvernig þeir ætli að beita þeim ákvæðum, að gefa yfirlýsingu um það hvernig þeir hyggist gera það þó ekki sé hægt að setja á blað öll einstök smáatriði. Það er allt, allt annað atriði.
    Það hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir fimm manna nefndina, fimm ráðuneyta nefndina, þessa yfirnefnd yfir hæstv. landbrh. að vita eftir hvaða meginlínum hún á að vinna þegar hún fer að gera tillögur um framkvæmdaratriði. Að öðrum kosti hlýtur það að vera marklaust starf og fálm. Því er nauðsynlegt fyrir nefndina að fá svör við þessum spurningum sem ég var að bera fram. Ég vil sérstaklega spyrja hæstv. landbrh. að því hvort hann geti ekki lýst því yfir afdráttarlaust. Eða er því eins varið með hæstv. landbrh. og hæstv. utanrrh. að hann viti ekki hvað þessi samningur felur í sér sem ég býst við að við flest öll teljum að útilokað sé fyrir okkur annað en gerast aðilar að? Eða er hann sammála hæstv. utanrrh. sem sagði í ræðu sinni á fimmtudaginn að allt sé gott sem endar vel eftir að hafa lýst því yfir að það væri mikið fagnaðarefni að öllum efnisbreytingum sem komið höfðu fram í fyrstu brtt. hv. formanns landbn. hafði verið hnekkt.
    Ég hef hér nefnt örfá atriði sem sýna þann algjöra glundroða sem er því miður á stjórn landbúnaðarmála hjá hæstv. ríkisstjórn en mörg fleiri hafa verið rakin af öðrum hv. þm. í umræðunni á undan.
    Hér er verið að fjalla um rekstrarskilyrði íslensks landbúnaðar á næstu árum. Það er því algjörlega útilokað að láta framtíð landbúnaðarins halda áfram að reka á reiðanum. Það getur ekki verið að nokkur þingmaður, sem hugsar eitthvað um hagsmuni íslensks landbúnaðar, ætli sér að bera ábyrgð á þessum vinnubrögðum. Það getur ekki verið að þeir hv. þm. sem það ætla að gera viti hvað þeir eru að gera en sú afsökun gagnar landbúnaðinum lítið. Ég vil því eindregið taka undir áskorun hv. 4. þm. Norðurl. e. um að þessari umræðu verði frestað og landbn. fjalli aftur um málið og þá út frá þörfum atvinnuvegarins en ekki út frá einhverju pólitísku samkomulagi eða réttara sagt pólitísku ósamkomulagi stjórnarflokkanna.