Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 19:39:09 (5097)


[19:39]
     Frsm. 3. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að standa í löngum andsvörum hérna en ég hlýt samt að spyrja samkvæmt hvaða grein þingskapanna þetta er ákveðið því að þar er sagt að þingskapaumræða megi standa allt að 15 mínútum en sjálfsagt hefur forseti allt úrskurðunarvald um það.
    ( Forseti (VS): Forseti ætlar þá að gera kunnugt að samkvæmt þingskapalögum er forseta heimilt að leyfa þingmönnum að veita andsvar og getur því ákveðið sjálf hversu langan tíma hún veitir til andsvara.)
    Þá hlýt ég, virðulegi forseti, að spyrja hvaða rök eru fyrir því að núna --- ég hef ekki orðið fyrir þessu áður --- að stytta andsvaratímann þegar svo stendur á að einungis tveir hafa beðið um andsvar því að þetta hlýtur að hafa fordæmisgildi varðandi störf forseta.
    ( Forseti (VS): Forseti ætlar að gera kunnugt að hún hafi þegar tilkynnt að hér yrði gefið kvöldverðarhlé um klukkan hálfátta til hálfníu og þar sem klukkuna vantar núna 20 mínútur í 8, þá er orðið þröngt um tíma og þess vegna var þetta ákvörðun forseta.)
    Virðulegi forseti. Ég skal taka þessa skýringu gilda en fara fram á að tíminn verði stilltur upp á nýtt.
    Virðulegi forseti. Það er fyrst til að taka að eftir að hv. formaður landbn. hafði haldið sína löngu varnarræðu fyrir sínu nál, þá dró hann niðurstöðu málsins saman í eina setningu og sagði: Síðan er framhaldið þar, og þar á ég við GATT-málið, að framkvæmdarvaldið er að taka málið úr höndum þingsins og setja það í fimm ráðuneyta nefnd sem hv. þm. gat ekki orða bundist um að hann bæri ekki mikið traust til. Þarna kom hv. þm. að kjarna málsins, sem við stjórnarandstæðingar höfum verið að segja, að stjórnarflokkarnir eru búnir að semja um þessa málsmeðferð og hv. þm., formaður landbn., er að átta sig á því núna að það er ekki líklegt að út úr því starfi komi niðurstaða sem getur orðið hv. þm. að skapi. Þetta er samandregin niðurstaða formanns landbn.
    Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þm. Hann talaði um að vega saman verðjöfnunargjöld og tolla og sagði að að sjálfsögðu yrðu tollarnir í tollalögum. Þarna er verið að ræða um hvernig við förum með þau tæki sem við höfum til varnar íslenskum landbúnaði vegna GATT-samninganna. Þá hlýt ég að spyrja hv. þm.: Verði þessi háttur hafður á hver fer þá með tollaþáttinn? Er það landbrh. eða fjmrh.? Af því að hv. þm. telur þetta viðunandi niðurstöðu, þá hlýtur þingmaðurinn að hafa kannað hvert yrði hlutfall tolla og hvert hlutfall verðjöfnunargjalda í þessari meðferð.