Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 19:42:27 (5098)


[19:42]
     Frsm. 1. minni hluta landbn. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Það er nú fyrir það fyrsta, virðulegi forseti, að ég sagði það ekki að framkvæmdarvaldið væri að taka málið úr höndum þingsins. Ég sagði hins vegar að framkvæmdarvaldinu væri falið að undirbúa málið. Eins og menn vita gjörla, þá hefur ríkisstjórnin komið sér saman um að skipa fulltrúa fimm ráðuneyta til þess að gera breytingar um tillögur í þessum efnum. Niðurstöðurnar koma auðvitað til Alþingis eigi að síður.
    Að því er varðar hver mundi fara með forræði tollamála, þá er því til að svara að það er Alþingi Íslendinga. Alþingi Íslendinga afgreiðir. Tollar eru lögbundnir eins og menn vita, en innheimta þeirra fer auðvitað fram í gegnum fjmrn. eins og menn væntanlega vita.