Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 20:48:17 (5104)


[20:48]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er afar ánægð að heyra það að hv. þm. ræddi það sérstaklega að hann hefði viljað teygja sig langt til samstarfs á milli flokkanna, sérstaklega í landbúnaðarmálum. Þess vegna vil ég aðeins geta þess að mér finnst að þetta hafi í því ljósi verið vond ræða. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum málin hér helst nokkuð átakalaust. Það er alveg ljóst að það er eining á milli stjórnarflokkanna um lagatextann og það hefur komið hér fram. Hv. þm. sem eru hér hvor með sitt nál. hafa gert mjög vel grein fyrir sjónarmiðum sínum þar.
    Það er hins vegar alveg út í hött að gera Alþfl. upp skoðanir umfram það sem hér hefur komið fram og það fannst mér þingmaðurinn gera. Við höfum ekki verið að fjalla um innlenda úrvalsvöru. Ég tek undir það að íslensk landbúnaðarvara er úrvalsvara og ég trúi því að hún verði það áfram og það verði frekar tryggt að hér verði boðið upp á góða fyrsta flokks vöru og að menn verði hæfir í samkeppni. Við höfum ekki viljað veikja stöðu íslensks landbúnaðar varðandi sjúkdómahættu.
    Og annað, stjórnarflokkarnir eru báðir sammála um að taka þátt í samningum GATT. Þetta frv. snýr ekkert að því máli. Þetta frv. snýst um að halda óbreyttu ástandi eins og menn voru með fest í lög fyrir hæstaréttardóm. Um það var samkomulag á milli flokkanna, að því stöndum við. Það á að vera aðlögun fyrir íslenskan landbúnað varðandi viðskiptahætti alveg eins og í öðrum löndum og stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um með hvaða hætti þeir ætla að hafa þá aðlögun, hvernig þeir ætla að skipa málum sínum varðandi innflutning samkvæmt GATT. Þetta eru staðreyndir málsins, herra þingmaður.