Happdrætti Háskóla Íslands

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 21:43:18 (5122)


[21:43]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands. Frv. þetta er flutt samhliða frv. til laga um söfnunarkassa. Í frv. til laga um söfnunarkassa er gerð sú tillaga að dómsmrh. verði heimilt að veita Íslenskum söfnunarkössum, félagi í eigu Rauða kross Íslands, Landsbjargar, landssambands björgunarsveita, Samtaka áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann og Slysavarnafélagi Íslands, leyfi til að starfrækja söfnunarkassa með peningavinningum. Því er nauðsynlegt að afmarka þá starfsemi gagnvart happdrættisvélum Háskóla Íslands, en svo sem kunnugt er hefur Háskóli Íslands einkaleyfi til rekstrar happdrættis með peningavinningum og hefur nýlega hafið rekstur peningahappdrættis með vélum sem ekki er rekið sem flokkahappdrætti.
    Í 1. gr. þessa frv. er tekið fram að happdrættisvélar megi samtengja, einstakar vélar og á milli sölustaða. Slíka heimild er ekki að finna í frv. til laga um söfnunarkassa og er á því byggt að þetta atriði verði helsta greinimark á milli söfnunarkassa annars vegar og happdrættisvéla hins vegar. Er enda ljóst að samtenging milli véla og milli sölustaða skapar möguleika á að byggja upp happdrættisvinninga sem eru ólíkir þeim kostum sem fyrir hendi eru varðandi einstaka söfnunarkassa.
    Frv. er stutt, aðeins tvær greinar, og er efni þess í raun aðeins einvörðungu það að afmarka gagnvart söfnunarkössum hvað skuli vera happdrættisvélar.
    Ég legg svo til, frú forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.