Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 22:03:33 (5126)

[22:03]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það væri synd að segja að þessi framhaldsumræða hafi bætt einhverju sem máli skiptir við þá umræðu sem þegar hefur farið fram. Þó vil ég taka það fram að mér féll afar vel sá friðar- og sáttartónn sem einkenni ræðu hæstv. forsrh. hér áðan. Þegar ég segi friðar- og sáttatónn þá meina ég það og ég held að hann hafi alveg rétt fyrir sér þegar hann segir að ef menn eru reiðubúnir til þess að standa að þessum málum á þann veg sem pólitískar forsendur ríkisstjórnarinnar stóðu til, þ.e. eftir dóm Hæstaréttar að endurreisa bannheimildir landbrh., fallast á heimildir til verðjöfnunargjalda álagningar eins og forsendur stóðu til í desember en fara síðan að siðaðra manna hætti og vitiborinna, þ.e. að vísa umfjöllun um framtíðarskipan tollamála eftir GATT í nefnd eins og samkomulag stóð til, þá eru engar ástæður til og engin efni til neinna illdeilna.
    Ég tek sérstaklega undir það með hæstv. forsrh. að það var ástæða til að gera sér vonir um að sá mikli meiri hluti sem er á Alþingi Íslendinga og varðar stuðning við hina breyttu skipan sem felst í Úrúgvæ-lotu GATT-samninganna. Um hana er mikil samstaða. Rökin fyrir því eru eftirfarandi: Þessir samningar hafa verið í undirbúningi árum saman, reyndar meira en sjö ár. Í tíð fyrri ríkisstjórnar, en að þeirri ríkisstjórn stóðu sem kunngt er stjórnarandstöðuflokkarnir, Framsfl. og Albþ., auk núverandi stjórnarflokks Alþfl., var samstaða um það mál. Eins og fram kom í máli hæstv. fyrrv. landbrh. Steingríms Sigfússonar þá rifjaði hann upp að fyrsta raunverulega tilboð af hálfu íslenskra stjórnvalda í GATT-samningum var gert af hálfu þeirrar ríkisstjórnar og hæstv. fyrrv. landbrh., Steingrímur J. Sigfússon, áréttaði að hann hefði fylgt því eftir og það er rétt hjá honum með fullum áhuga og eindrægni og var sjálfur fulltrúi í sendinefnd Íslands þegar vonir stóðu til að það samkomulag næðist.
    Þegar hæstv. forsrh. flutti sinn friðarboðskap þá vísaði hann honum ekki bara til samstarfsflokksins heldur til Alþingis Íslendinga og á þessum forsendum. ( JGS: Aðallega til samstarfsflokksins.) Gott og vel, en einnig til Alþingis Íslendinga á þessum forsendum. Það er fullkomin ástæða til að ætla hvað svo sem líður deilum í fortíðinni um misheppnaða landbúnaðarstefnu og vanhugsað landbúnaðarkerfi sem bitnað hefur hvað þyngst á bændum sjálfum, að þá sé samstaða um þá nýskipan sem taka mun við, þ.e. að við föllum frá innilokunar-, bann- og leyfisveitingarstefnu, föllumst á þá nýskipan sem felst í grundvallarreglunni um frjáls viðskipti og föllumst á það að veita okkar landbúnaði, líkt og grannlönd okkar gera, vernd í upphafi þannig að hann mæti nýjum tímum og nýjum samkeppnisskilyrðum og nýjum starfsháttum í skrefum, þ.e. eins og allir góðir sósíaldemókratar vita að sígandi lukka er best og umbætur eiga að gerast í áföngum og um það er GATT. Ég tek undir það með hæstv. forsrh. að það var full ástæða til að ætla að um þetta gæti tekist bærileg samstaða og ég árétta það, ég hef enga ástæðu til að ætla að ekki geti náðst samstaða við stjórnarandstæðinga í röðum framsóknarmanna um þetta mál, þeir sýndu að þeir voru reiðubúnir og menn til þess að vinna að því af heilindum í fyrrverandi stjórnarsamstarfi. Ég hef heldur ekki ástæðu til þess að ætla að af hálfu Alþb. sé nein andstaða gegn því. Ég hygg því að hæstv. forsrh. hafi haft

lög að mæla þegar hann segir að við gerðum okkur vonir um það með því pólitíska samkomulagi sem gert var milli stjórnarflokkanna að við gætum leyst til bráðabirgða þessi ágreiningsmál þangað til hin nýja skipan tekur gildi, væntanlega um áramót. Ég vil undirstrika það eins og fram kom í mínu máli fyrr í þessum umræðum að af hálfu Alþfl. hefur í allri málsmeðferðinni verið gætt fullkominnar sanngirni. Það hvarflaði ekki að okkur alþýðuflokksmönnum eftir dóm Hæstaréttar sem að vísu staðfesti það að við hefðum haft rétt fyrir okkur í lagaþrætum við landbúnaðarkerfið að láta þar við sitja. Þvert á móti vorum við fúsir til þess frá fyrstu stundu að gera samkomulag við okkar samstarfsflokk um það að við skyldum engu að síður endurreisa óbreytt ástand eins og samkomulag hafði orðið um í desember. Það á ekki að þurfa að endurtaka það í hverju það samkomulag var fólgið. Það var fólgið í því að endurreisa bannheimildir landbrh. gagnvart innflutningi á landbúnaðarvörum slíkar sem hann hafði áður haft eins og þær voru tíundaðar í auglýsingum af hálfu viðskrh. á grundvelli laga um gjaldeyrismál.
    Í annan stað þá féllumst við á það að landbrh. skyldi hafa heimildir til þess að leggja á verðjöfnunargjöld að svo miklu leyti sem við vorum skuldbundnir til samkvæmt milliríkjasamningum að veita undanþágu frá bannreglunni. Það er mjög takmarkað vöruúrval sem það á við en sjálfsagt þótti af því að við erum ekki þeirrar skoðunar að heimila hömlulausan innflutning að landbrh. hefði þær verðjöfnunargjaldaálagningarheimildir. Enda var tryggilega frá því gengið að þær væru í samræmi við skuldbindingar okkar í milliríkjasamningum og skýrt skilgreindar, nánar tiltekið samkvæmt því kerfi sem gildir innan EES, bókun 3, þar sem ekkert fer á milli mála hver verðjöfnunargjöldin eru. Verðjöfnunargjöldin eru á hráefnisþáttinn í innfluttum vörum og eru til þess að vernda innlenda matvælaframleiðslu og þau eru ekki ofurhá. Engu að síður eru þau nauðsynleg og skynsamleg.
    Þriðji þáttur þess samkomulags sem við gerðum með okkur var um framtíðaskipan tollamála eftir GATT. Frá því var gengið svo tryggilega að það stóð í greinargerð með því frv., sem kom sem stjórnarfrv. á borð hv. form. landbn., að í ljósi þess að GATT-samningarnir tækju væntanlega gildi á næsta ári annaðhvort í upphafi árs eða um mitt árið hefðu stjórnarflokkarnir komið sér saman um það að vinna að endurskoðun innflutnings og tollalöggjafar eftir gildistöku GATT skyldi fara fram í nefnd sem forsrn. stýrði en öll ráðuneyti sem að þessum málum koma ættu fulltrúa í.
    Ef við þetta samkomulag hefði verið staðið hefði enginn ófriður skapast um málið, enginn. Þá hefði ekkert tilefni verið til deilna, ekkert, heldur málið verið leyst að siðaðra manna hætti. Með öðrum orðum, það var engin ástæða til þess að efna til ófriðar um málið. Það var jákvæð afstaða ríkjandi um málið, af hálfu míns flokks var fullkomin sanngirni. Og eins og ég undirstrika úr því að gengið var eftir því af hálfu hæstv. landbrh. og hans ráðuneytis að útvíkka þann vörulista sem um var að ræða þá féllumst við á það af sanngirnisástæðum. Það hefur að vísu aldrei verið svo að iðnaðarvörur með landbúnaðarhráefni féllu undir búvörulagaákvæði. Við samþykktum það af sanngirnisástæðum vegna þess að við vildum fallast á verðjöfnunargjaldaheimildir þótt það væri að vísu ofætlan að bæta vörum á bannlista sem aldrei höfðu verið á bannlista og höfðu verið á frílista. Það undirstrikar bara að við gengum til þessa máls af fullkominni sanngirni. Það er rétt sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh. að það var engin ástæða til að ætla frá þeim punkti að um þetta hefðu orðið einhverjar meiri háttar deilur. Það er líka rétt að úr því að búið var að fallast á það fyrir löngu síðan á vettvangi stjórnarflokkanna að GATT-málin yrðu sett í vandlega skoðun svo sem efni standa til.
    Ég minni á að það var snemma á sl. hausti sem ríkisstjórnin samþykkti að setja upp nefnd fulltrúa fjögurra ráðuneyta til að gefa okkur áfangaskýrslu til að svara spurningunni um það hverju þyrfti að breyta í innflutningslöggjöfinni til að standa við skuldbindingar GATT. Það nefndarálit liggur fyrir og er ekkert mjög flókið. Í einföldustu mynd sinni er það svo að núverandi skipan sem felst í banni eða leyfisveitingarvaldi verður aflögð og við tekur viðskiptafrelsi samkvæmt almennum grundvallarreglum GATT. Það er hins vegar mjög flókið að útfæra það í framkvæmd eins og öllum er ljóst sem að málinu koma og það er ekki hægt að gera það með því að framselja einfaldlega geðþóttavald í hendur einu ráðuneyti heldur hlýtur það að afgreiðast með þeim hætti að að því komi t.d. fjmrn., sem fer með tollamál, viðskrn., sem fer með innflutningsmálefni, og utanrrn. sem ber ábyrgð á þeim milliríkjaskuldbindingum sem um er að ræða. Þetta er það sem ég kalla vinnubrögð að siðaðra og vitiborinna manna hætti. Og ef málin hefðu verið í þessum farvegi hefðu engar deilur komið upp. Og meira að segja það hefðu ekki einungis komið deilur upp milli stjórnarflokkanna, það hefði ekki verið ástæða til að ætla að það hefðu orðið neinar deilur á Alþingi Íslendinga vegna þess sem ég sagði fyrr, nefnilega að það er engin ástæða til að ætla annað en að það sé meiri hluti a.m.k. fjögurra flokka svo ég fullyrði nú ekki meira en ég veit um það að standa að GATT-samkomulaginu. Á bak við það hljóta að standa samkvæmt því sem áður hefur gerst á Alþingi Íslendinga, stjórnarflokkarnir Sjálfstfl. og Alþfl., Framsfl. og Alþb. Mér er ekki kunnugt um persónulega afstöðu Kvennalistans og ætla ekkert að gera þeim upp skoðanir. En vegna þess að menn hafa verið að fara heldur geyst í ræðum sínum hér um það að hér sé einhver gríðarlegur meiri hluti allra flokka að því er mér skilst annarra en Alþfl. fyrir óbreyttu ástandi þá held ég að það sé á misskilningi byggt og hef enga ástæðu til að ætla að það sé rétt.
    Eitt undirstrika ég einu sinni og enn og aftur: Allir þeir sem halda því fram að af hálfu Alþfl. höfum við gengið fram í þessu máli á þann veg að synja um framgang þeirrar meirihlutaskoðunar að endurreisa til bráðabirgða fram að gildistöku GATT óbreytt ástand, það er er rangt. Á því stóð vissulega ekki.

Þvert á móti sýndum við fullkomna sanngirni í því máli. Þar á móti treystum við því náttúrlega að við þetta pólitíska samkomulag yrði staðið. Og eins og fram kom í máli hæstv. forsrh., þá sagði hann: Það eru aðeins tvö mál sem að lokum ollu ágreiningi og þau eru þessi: Annars vegar sú krafa sem sett var fram að blanda inn í lausn þessa máls einhverjum tillögum og lagatexta um framtíðarskipan tollamála eftir gildistöku GATT. Þrátt fyrir það að hæstv. landbrh., sem átti fullkomna aðild að stjfrv., hann átti auðvitað aðild að því sem stjfrv. í ríkisstjórn og var framsögumaður þess, hafði hann í ræðum sínum strax í desember margsinnis áréttað að það væri óskylt mál. Þá er spurningin þessi: Hvers vegna var verið að setja upp slíka kröfu af hálfu formanns landbn. gegn því pólitíska samkomulagi sem gilti milli stjórnarflokkanna og gegn því sem landbrh. sjálfur hafði skuldbundið sig af með stjórnarfrv.? Auðvitað er ekki hægt að afsaka það með því að menn hafi verið að finna einhverja lögfræðinga sem voru að finna einhverja tæknilega meinbugi á málinu eða styrkja gerð frv. þannig að það héldi lagalega. Það hefur aldrei staðið á neinum manni og allra síst okkur alþýðuflokksmönnum að fallast á slíka hluti. Það voru fimm slík minni háttar lagalega tæknileg atriði sem við féllumst á strax. Þetta mál er ekki um það. Þetta mál er um það hvort menn ætluðu að standa við það pólitíska samkomulag sem ríkisstjórnin, stjórnarflokkarnir, höfðu gert með sér eða ekki. Hitt málið er jafnvel, þegar menn líta til baka, enn þá furðulegra að skyldi vera gert að deiluefni. Í desemberfrv. stóð skýrum stöfum þegar verið var að fjalla um verðjöfnunargjaldaheimildir til landbrh. að það ætti við um hráefnisþáttinn í landbúnaðarafurðum sem inn væru fluttar enda væri um að ræða vörur sem framleiddar væru hér á landi. Og mig undrar satt að segja að þurfa að standa hér enn og útskýra það eða reyna að útskýra það að menn leggja ekki á verðjöfnunargjöld, menn jafna ekki gjöld á eitthvað sem flutt er inn ef það er ekki til innan lands. Jafna hvað? Verðjöfnunargjöld eru um það að jafna aðfangaþáttinn við innflutning þegar um er að ræða vörur sem framleiddar eru hér á landi. Það er samkvæmt skilgreiningu. Menn leggja ekki verðjöfnunargjöld á eitthvað sem ekki er framleitt í landinu, þá leggja menn á verndartolla, svo einfalt er það.
    En þessi tvö atriði, að halda til streitu af einhverjum ástæðum sem mér eru huldar kröfum sem gengu þvert á það samkomulag sem stjórnarflokkarnir höfðu gert með sér að því er varðar það að hlaupa fram fyrir sig með aukasetningu í búvörulögunum til að ráða til lykta tollamálum eftir GATT, þetta annars vegar og svo hitt, sú fádæma ósanngirni að neita að fallast á hlut sem búið var að gera samkomulag um í desember, að verðjöfnunargjaldaþátturinn sé að sjálfsögðu til að jafna mun, verðmun á innfluttum vörum og þeim sem framleiddar eru innan lands, olli deilum. Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. forsrh. að þetta voru þau tvö mál sem voru þess eðlis að ekki var unnt að una við. ( Gripið fram í: Forsrh. studdi þau.) Það hefur hvergi komið fram svo ég viti til að svo sé og ég hef enga ástæðu til að ætla það og það eru þín orð en ekki mín.
    Ég sagði í upphafi að ég harma það virkilega og meina það einlæglega að efnt skuli hafa verið til þessara deilna. Það var ekki efnt til þeirra deilna af okkur alþýðuflokksmönnum heldur voru okkur settir kostir sem verður að segja eins og er að eru vægast sagt óvenjulegir í samstarfi. Það er ekki við neinn að sakast í því efni annan en þann sem á því ber fulla ábyrgð, þ.e. formann landbn. sem flutti hér ræðu áðan þar sem hann reyndi að klóra í bakkann og ég ætla að sýna þá rausn og það veglyndi að fjalla ekki frekar um þá ræðu. En ég endurtek, það er ákaflega mikið miður að það skuli að ástæðulausu hafa verið efnt til þessa óvinafagnaðar, ég veit ekki í þágu hvers það er. Það er ekki í þágu íslensks landbúnaðar, það voru engin efni til þess, það voru engin rök að baki því. Það var einhver óbilgirni, einhver tortryggni kannski, ef við viljum reyna að skýra þetta en óþarft var það með öllu.
    Kjarni þessa máls að mínu viti er þessi: Þar sem það er svona víðtæk samstaða um þá grundvallarbreytingu sem fram undan er og felst í GATT-kerfinu þá er ástæða til að ætla að við hefðum getað litið fram til þess tíma með nokkrum létti. Það hafa verði alvarlegar deilur uppi um réttmæti gildandi landbúnaðarstefnu. Sú deila er ekkert einskorðuð við Alþfl. versus aðra flokka. Ég minni á að það eru jafnvel til skipulagðir hópar bænda sem hafa leitað sjálfir þjónustu hinna færustu lögfræðinga til að leita réttar síns frammi fyrir þessu kerfi sem þeir saka um valdníðslu, eignaupptöku og brot á mannréttindum varðandi atvinnufrelsi manna. Sá lögfræðingur sem tók þetta verk að sér hefur gefið út um það heila bók og heitir Sigurður Líndal. Um hann er hægt að segja með fullri vissu að hann er í hópi hinna virtari lögfræðinga. Hver sá hv. alþm. sem lesið hefur það rit hlýtur, hvað svo sem líður hugsanlegum álitamálum, að gera sér grein fyrir því að það er stór hluti íslenskrar bændastéttar sem hefur orðið fyrir barðinu á þessu kerfi. Og ég veit persónulega af samtölum mínum við hæstv. landbrh. að það er miklu, miklu minni ágreiningur milli mín sem formanns Alþfl. og hans en kannski einhverjir áhorfendur að þessu stríði myndu ætla vegna þess að ég er alveg sannfærður um að það er samstaða um það okkar í milli þegar við horfum til framtíðarkerfisins að það sé nauðsynlegt að setjast nú niður með hinum bestu mönnum og leggja fram ærlega vinnu við að skoða til rótar hvernig við getum losað bændur undan núverandi framleiðslustýringar- og kvótakerfi vegna þess að á sama tíma og við segjum og allir taka undir það að hið nýja kerfi er nánast óhjákvæmilegt en það felur í sér smám saman að opna fyrir samkeppni bæði gagnvart framleiðendum, bændum sjálfum, og úrvinnsluaðilum matvælaiðnaðinum, þá verðum við náttúrlega að mæta því á sama hátt með því að losa þessa aðila undan spennitreyju slíkra kvaða að þeir geti ekki mætt samkeppni með eðlilegum hætti með þeim sveigjanleika sem þarf.
    Um þetta væri, held ég, víðtæk samstaða á Alþingi Íslendinga. Það er tiltölulega fámennur hópur manna sem af misskilinni, ja ég mundi kalla það fundamentalisma, það er notað um múslima sem af einhverjum grundvallartrúabragðarástæðum þar sem menn eru að reyna að gerast kaþólskari en páfinn, meiri framsóknarmenn en framsóknarmenn, ( JGS: Það er ekki hægt.) jú, það er hægt --- beittu sér í þessu máli af þvílíkri óbilgirni að ekki var hægt við að una. Það bera að harma, það er mjög miður. Það var ástæðulaust og óþörf sú ganga.
    Nú er það svo að um þetta frv., sem við erum að afgreiða, hefur tekist samkomulag milli stjórnarflokkanna eftir að búið var að leiðrétta það aftur þannig að það væri í samræmi við það sanngjarna og eðlilega samkomulag sem gert hafði verið. Að endurreisa bannheimildirnar til landbrh., að veita honum verðjöfnunargjaldaheimildirnar en að setja GATT-málið eins og öll rök standa til í nefnd. Allt hitt sem vakið var upp voru óþarfa afturgöngur og draugar sem búið er að kveða niður, sem betur fer, enda voru þeir friðarspillar.
    Ég vil undirstrika það sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh., þegar hann sagði: Það voru einkum tvö mál sem stóðu upp úr um þetta sem þurfti að leysa til að fá um það friðsamlega og sanngjarna lausn. Það var í fyrsta lagi að menn ætluðu sér ekki meira en þeir gátu með það að ætla að setja inn í búvörulög ákvæði um framtíðartollaskipan GATT, það er einfaldlega tæknilega ekki hægt. Hitt var að fallast á þau eðlilegu málsrök að verðjöfnunargjöldum yrði ekki beitt á vörur sem ekki eru framleiddar í landinu. Að því leystu var málið leyst. Þá getum við svo sem sleppt að ræða aðra þætti vinnubragða úr því að málið er komið þó til farsællar niðurstöðu. ( Gripið fram í: Hvað með greinargerðirnar?)
    Um vinnubrögðin er síðan það að segja að það hlaust af þessum óþarfa belligerens, þ.e. af þessum óþörfu styrjaldartilefnum. Hv. þm. spyr: Hvað með greinargerðirnar? Auðvitað ber að harma það að þeir aðilar í hv. landbn., sem hafa náð saman niðurstöðu um lagatextann sjálfan, skuli ekki setjast niður að siðaðra og vitiborinna manna hætti, svo ég endurtaki það, og ganga frá sameiginlegri álitsgerð. Auðvitað ber að harma það. Auðvitað ber að harma að þegar búið er að gera leiðréttingar á lagatextanum sjálfum þá er sett fram greinargerð sem lætur eins og lagatextanum hafi ekkert verið breytt. Þetta er allt saman upplýst og það þarf ekkert að orðlengja um það annað en úr því að boðið er upp á það þá verður að taka því. Fyrir því er að vísu fordæmi en engu að síður af því að þetta er ekki bara leikaraskapur og menn hafa stundum verið að segja: Bændur á Íslandi eiga rétt á því að vita hver staða þeirra er, þá endurtek ég og það skiptir máli: Bændur á Íslandi vita núna samkvæmt þessum lagatexta að landbrh. hefur jafnmiklar heimildir og hann hafði áður til að banna innflutning og reyndar rýmri vegna þess að sanngirni okkar alþýðuflokksmanna var slík að veita honum meiri heimildir.
    Í öðru lagi. Ef innflutningur verður, og nú skulu menn ekki ýkja það fyrir sér, hann verður afar takmarkaður á þessu ári fram að GATT. Menn láta hér eins og EES-samningurinn hafi verið um innflutning á landbúnaðarvörum, hann er ekkert um landbúnaðarmál, ekki neitt. Menn minnast á bókun 3 en láta þess gjarnan ógetið að hún hefur ekki tekið gildi enn og mun kannski taka gildi um mitt ár og fjallar um vörur í einum fimm tollflokkum. Síðan tala menn reiðinnar ósköp og setja á langar ræður um tvíhliða samning við Evrópubandalagið um nokkra kálhausa og blómategundir og láta eins og allur landbúnaður á Íslandi sé í lífshættu út af þessu ósköpum. Við erum einfaldlega að tala um það að landbrh. hefur heimildir til þess, reyndar kvöð, til að efna milliríkjasamningana sem eru komnir í gildi og það varðar óskaplega litlu, óskaplega litlu. Stóra breytingin kemur þegar við tökum upp viðskiptafrelsi í staðinn fyrir bann varðandi GATT. Og allir sanngjarnir menn hljóta að fallast á að það er óbilgirni af verstu sort að ætla að keyra fram einhverjar vafasamar skoðanir og skilgreiningar um það mál með gjörsamlega ótímabærum hætti.
    Hv. formaður landbn., sem nú gekk í salinn, las eitthvað upp úr greinargerð lögfræðinga sinna um það að víst gæti vel verið að verðjöfnunargjöld yrðu leyfð í GATT. (Gripið fram í.) Já, já víst getur það vel verið. ( EgJ: Ég las ekki eitt bofs.) Hv. formaður landbn. reyndar gerði sig sekan um einn hlut sem ég ætla að minna hann á og það var það að hann reyndi að leggja það út á hinn versta veg að því er varðar varaformann landbn., samstarfsmann hans, að hann hefði látið semja fyrir sig, jafnvel ræðu og greinargerðir, en það varð að koma út af hans eigin vörum áður en lauk að sjálfur hafði hann ráðið sér sérfróða menn í sína þjónustu sem sömdu fyrir hann bæði frv. og greinargerðina. Að vísu eftir hans eigin forsögn. En menn líti í eigin barm þegar þeir eru að reyna að gera lítið úr samstarfsmönnum sínum með þessum hætti. Það var ekki drengilegt og ekki stórmannlegt.
    Um GATT er það eitt að segja að ég spyr --- forsh. hefur sagt: Það var sjálfsagður hlutur að taka það út úr frv. í ljósi þess samkomulags sem gert hafði verið. En á sínum tíma virtist það ekki vera mjög sjálfsagt mál fyrir formann landbn. sem sagði að það skyldi aldrei verða. Sem sagði á hverjum þriðjudegi að hann skyldi taka þetta mál út hvað svo sem liði samkomulagi við samstarfsaðila sem neitaði samstarfsflokknum um eðlilegt samstarf um samninga og greinargerð þrátt fyrir það að samkomulag hefði tekist milli forustu flokkanna um frv. sjálft. Hver efndi til þessa óvinafagnaðar? ( Landbrh.: Alþfl.) Nei. Reynið að vera sanngjarnir, það er ekki svo. ( Landbrh.: Það er víst svo.) Það er ekki svo. ( Landbrh.: Það er víst.) Það er rangt. Ég get vel skilið það þótt hæstv. landbrh. vilji bregða skildi fyrir samflokksmann sinn, formann landbn., ég get vel skilið það, það er vafalaust drengilega gert af honum enda veitir ekki af. En staðreynd málsins er samt sem áður sú, það hefur verið fullkominn friður um þetta mál ef vinnubrögðum af þessu tagi hefði ekki verið beitt. Mikið meira þarf ekki um það að segja annað en þetta og það skulu vera mín lokaorð: Það var samstaða, víðtæk samstaða á Alþingi Íslendinga um þetta GATT-mál. Að því máli hafa

komið auk stjórnarflokkanna bæði Framsfl. og Alþb. Það er enginn ágreiningur um það tilboð sem við gerðum af hálfu stjórnvalda um þá upphaflegu tollvernd sem landbúnaðurinn á að njóta. Ríkisstjórnarflokkarnir standa að því og það er ekki ástæða til þess að ætla að um það sé ágreiningur. Hvers vegna er það þá að menn haga vinnubrögðum sínum á þennan veg? Hljóta ekki allir menn að viðurkenna einföldustu staðreyndir málsins? Þær eru: Það liggur ekki endanlega fyrir á þessum tímapunkti hver verður túlkun á ýmsum grundvallarreglum eða hver verður endanleg niðurstaða um það hvernig þessum málum verður háttað. Það er grundvallarregla að því er varðar GATT að tollar verða að vera fastákveðnir samkvæmt íslenskum lögum, settir að lögum, skýrir með þeim hætti að það sé hægt að hafa eftirlit með þeim, og það liggur líka fyrir að breytileg verðjöfnunargjöld byggð á hráefnisþáttum og breytilegri afgreiðslu eftir vörsendingu til vörusendingar hafa hingað til í GATT-samkomulaginu verið skilgreind sem viðskiptahindrun. Menn tala eins og þeir viti alla hluti um þetta, fullyrða að hlutirnir séu svona í Noregi og Svíþjóð og hjá Evrópubandalaginu en segja þar venjulega hálfan sannleikann. Þessi mál þurfa nákvæma rannsókn. Í íslenskri stjórnsýslu er það eðlilegt að að þeim komi fulltrúar allra ráðuneyta, að það sé lögð fram vinna við að gera þetta, binda um þessa hnúta tryggilega og réttilega en ekki fara fram með offorsi, óbilgirni og ósanngirni. Þeir einir sem það gera eru að efna til stríðs. Það er ástæðulaust og það er sérstaklega illt vegna þess að með þeirri nýju skipan sem nú er að koma gerði ég mér vonir um og ég veit að margir sjálfstæðismenn og ég vona að margir framsóknarmenn og stjórnarandstæðingar geri sér líka vonir um það og þá getum við lagt af deilur sem hafa verið of harðvítugar í fortíðinni, að við getum náð samkomulagi í stórum dráttum um þetta nýja kerfi og að það gerist með þeim hætti að saman fari eðlileg samkeppnisvernd fyrir íslenskan landbúnað, að samkeppni verði hleypt á í áföngum. Það mun vera gott bæði fyrir bændur og neytendur og það er hægt ef menn vilja skoða málin hleypidómalaust, að beita þeim vinnubrögðum að leita til þeirra sem þekkja þessi mál nákvæmlegast, láta alla koma fram sínum sjónarmiðum, þá er ég ekki í nokkrum minnsta vafa um að það tekst sátt og friður um niðurstöðu þeirra mála. Það eina sem þarf er að menn temji sér svona á ári umburðarlyndisins --- ég held að það sé það núna ef ekki í kínverska almanakinu þá a.m.k. hjá mannréttindasamtökunum, ( Gripið fram í: Það er ár hundsins þar.) að menn temji sér eðlilegt umburðarlyndi og eðlileg vinnubrögð við að reyna að ná samstöðu um mál fremur en að leggja sig fram um að efna til illdeilna um mál að óþörfu.