Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 23:11:53 (5130)


[23:11]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Það liggur nú við að það gusti enn hérna í ræðustólnum eftir þær atlögur sem fóru hér fram milli ráðherranna tveggja. Ég skal ekki tefja þessa umræðu mikið en mig langar að bera fram örfáar spurningar varðandi þetta frv. Ég geri mér grein fyrir því að það hefur mikið starf verið unnið í nefndinni eins og alþjóð veit, en það eru nokkrar einfaldar spurningar sem ég tel að alþingismenn þurfi að fá svar við til þess að geta gert sér betur grein fyrir því hvað þeir eru að greiða atkvæði um og hverjar hugsanlegar afleiðingar þess eru.
    Ég ætla að láta hjá líða að minnast á hluti eins og nefndarálitin tvö sem vissulega má segja að auki ekki á réttarvissuna, frekar hið gagnstæða en snúa mér að brtt. og þá að viðauka I og II, en þar eru öll tollskrárnúmerin sem eru á bannlistunum tveim. Ég verð nú að segja að það að á árinu 1994 skulum við hér í hinu háa Alþingi vera að ræða bannlista á innfluttar matvörur þykir mér hálfskondið og hálfsorglegt í leiðinni. Alla vega þykir mér það sorglegt að við skulum vera að bæta við þann bannlista sem fyrir var. Nóg var fyrir þó ekki sé bætt á hann.
    Ég hef nokkra reynslu af því að fletta í tollskránni og hef verið í því að flytja svolítið inn vörur og kannast svolítið við tollskrárnúmer og þegar ég lít yfir þennan lista sem hér er í brtt. við viðauka I og II, þá eru þar fjöldamörg númer sem segja í rauninni nánast ekkert um það hvað er verið að flytja inn undir þessu númeri. Það segir úr hverju viðkomandi vara getur verið en ekkert meira um það, hverslags samsetning þar er á ferðinni, hvaða vöru er í raun og veru verið að banna að flytja inn. Það eru öll númer sem enda á 900 yfirleitt. Það má nefna hér nokkur númer, t.d. undir svínakjöt, 0203.1900 heitir Annað, í næsta kafla 0204.4209 heitir Annað. Svona er hægt að tína upp hér alla flokkana þar sem þetta kemur fram, vörurnar annað eða úr öðru, annað pasta, önnur súpa eða annað slíkt, en það fylgir því enginn listi hvað við erum í raun og veru að banna. Þetta eru 74 tollnúmer sem er ætlast til að þingmenn samþykki án þess að vita í raun og veru hvað þeir eru að samþykkja. Eftir allt það starf sem hefur farið fram í nefndinni, þá held ég að það hljóti að liggja fyrir listi yfir hvað felst í þessum númerum þó að það væri ekki nema í ljósi reynslunnar því að mörg af þessum númerum hafa verið á bannlista fyrr þannig að það

er kannski ekki mikil reynsla á því, en menn vita þó engu að síður hvað fellur þar undir. Ég tel að þeir sem standa að innflutningsverslun í landinu eigi skýlausan rétt á því að vita hvað er verið að banna að flytja inn. Ég vil spyrja, hvort sem það er hæstv. ráðherra eða formaður landbn. sem svarar: Hvað felst í þessum númerum?
    Nú er ég ekki viss um að þessi listi sé endilega á borðum þessara tveggja heiðursmanna akkúrat þessa stundina en ég tel að það eigi skilyrðislaust að birta þann lista þá fyrir 3. umr. þannig að það sé fullkomlega ljóst út í hvað við erum að fara. Ég tel líka að það eigi að birta hann opinberlega eftir samþykkt frv. þannig að mönnum sem standa í innflutningi sé það líka ljóst hvað þeir mega og hvað þeir mega ekki, ekki að menn þurfi að reka sig á, að þeir lendi í að panta einhverja matvöru, kannski kæfu til að mynda, og svo reka þeir sig á það að það er allt bannað hér og vörur látnar skemmast eða það þarf að reyna á það fyrir dómstólum, m.a. vegna þess að við höfum tvö álit sem vísa í sitt hvora áttina og koma menn þá að réttaróvissunni. Ég tel því að það sé alveg skilyrðislaust að ef menn eiga að fara að samþykkja þetta plagg, þessar brtt. þá verði menn að gera sér fulla grein fyrir því hvað í þeim felst. Og ég trúi ekki öðru eftir allt það starf sem fór fram í nefndinni en menn hafi farið yfir þennan lista. Það væri með ólíkindum ef svo hefði ekki verið því offorsið að vernda má náttúrlega ekki vera það mikið að menn sjáist ekki fyrir. Ég óska eftir því að það verði birtur listi yfir það hvað felst í öllum þessum tollnúmerum. Ég hef merkt þau öll hérna út og get afhent formanni landbn. þetta plagg á eftir, en ég get líka lesið öll þessi númer er upp þannig að það sé þá til í þingtíðindum. ( Gripið fram í: Þú ættir nú að gera það.) Já, það getur vel verið að ég ætti að gera það, hv. þm. Ég á aðra ræðu eftir þannig að ef stíf krafa kemur um það hér á eftir, þá skal ég íhuga það nánar. ( Gripið fram í: Ábending.) Já.
    Hv. varaformaður landbn. kom hér inn á m.a. jöfnunargjöld á franskar kartöflur sem hafa verið mikið í umræðunni undanfarin missiri og ég held að hann hafi sagt að jöfnunargjöldin í dag væru 90%. --- Hann kinkar kolli sem samþykki. --- Mig minnir að þau hafi verið allverulega hærri á tímabili. ( Gripið fram í: 200%.) Já. Jafnvel um 200%. Mér hefur borist það til eyrna að þær frönsku kartöflur sem framleiddar eru hér á landi séu framleiddar úr innfluttum kartöflum. Ég óska eftir því að fá skýr svör við því annaðhvort frá hæstv. landbrh. eða formanni landbn. hvort þetta er rétt. Og ef þetta er rétt, hvað erum við þá að vernda? Erum við að vernda erlenda kartöflubændur? Og hvað er þá verið að verðjafna, ef þetta er rétt? Ég vildi gjarnan líka vita hvaðan þessar kartöflur koma. Frá hvaða landi koma þær? Hvers lenskir eru þá þeir bændur sem við erum að vernda? Hvað er þetta mikið magn? Og af hverju er þetta ekki framleitt úr íslenskum kartöflum? Ég flyt allar þessar spurningar hér í framhaldi af vangaveltum mínum um hvort þetta eru innfluttar kartöflur eða ekki vegna þess að ég hef þessar upplýsingar frá innlendum kartöflubónda og ég trúi ekki öðru en hann viti hvað hann er að segja, og það meira að segja úr Þykkvabænum. Ég óska eftir skýrum svörum við þessu líka. Hvað erum við að verðjafna þarna og hverja erum við að vernda?
    Mitt í öllu þessu fári sem hefur verið í kringum þetta frv., þá minnist ég þess að hæstv. viðskrh. kom í sjónvarpið og var þar með einhverja albestu auglýsingu fyrir dýrafóður sem sú vara hefur fengið. Hann hélt þar uppi tveimur dósum af hunda- og kattamat og spurði hvernig stæði á því að þessu væri hleypt inn í landið, hvort það ætti virkilega að gera mun á því hvort matur væri til manneldis eða dýraeldis? Og að þetta næði ekki nokkrum áttum, sagði hann, þetta yrði auðvitað að banna. Þarna væri um kjötvöru upp á 780 tonn að ræða. Svo þegar maður flettir þessum mikla lista eftir þessi stóru orð hæstv. ráðherra, þá er auðvitað dýraeldismatur, hunda- og kattamatur, ekki þarna inni. Auðvitað hlýtur maður að spyrja sig: Hvers lags auglýsingamennska er þetta eiginlega? ( SJS: Það er sennilega að kröfu Alþfl.) Og maður hlýtur líka að spyrja sig: Hvernig stendur á því að bændastéttin fer ekki út í framleiðslu á þessu? 780 tonn er ekkert smáræði. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt talað um þetta á búnaðarþingi eða neinar ályktanir í þessa veru og samt erum við alltaf að leita leiða til að koma kjötinu okkar í lóg. ( Gripið fram í: Það er nú ekki hunda- og kattamatur.) Það má framleiða hann úr þessu, það var það sem viðskrh. var að segja og ég tek alveg undir með honum. Það á auðvitað ekki að gera greinarmun á því hvort það er maður eða skepna sem borðar matinn. Þá ættu innflytjendur að fara út í það að biðja hina erlendu framleiðendur að merkja skinkuna eða kalkúnalappirnar fyrir hunda. Svo gæti komið svona lítil greinargerð með vörunni þar sem segði að hún dygði reyndar líka fyrir manneldi.
    Um gjaldtökuna í það heila vil ég segja það að að mínu viti á hún auðvitað að vera hjá fjmrh. og hvergi annars staðar. Hún á ekki að vera hjá fagráðherra. Að mínu viti á öll gjaldtaka í tolli við innflutning að vera hjá fjmrh. Mér er alveg sama hvaða vara það er. ( Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Hjá fjmrh. eru tollavöldin, hann sér um vörugjöldin, jöfnunargjöldin, verðjöfnunargjöld, kílóagjald, almanaksgjald, hvað sem þetta heitir allt. Þetta á allt að vera þar því að á þeim rökum sem hér eru borin fram ættu iðnaðarvörur að vera hjá iðnrh. Mengandi vörur ættu að þá vera hjá umhvrh., bílarnir jafnvel. Það er spurning. Hvar eigum við þá að stoppa? Auðvitað á þetta að vera hjá fjmrh. og hvergi annars staðar nema menn vilji þá fara þá leið að brjóta þetta allt saman upp. Og hvar eru menn þá staddir? Í beinu framhaldi af því langar mig að spyrja: Í hvaða löndum er þetta svona? Ég held að það sé ekki í mörgum löndum, hugsanlega tveimur eða þremur löndum. Ef þau eru fleiri, þá mundi ég gjarnan vilja heyra það. Ég held að þetta sé jafnvel svona í Noregi og Svíþjóð. En hvort það er einhvers staðar annars staðar veit ég ekki um og ég efast um það. Ef svo er þá vildi ég gjarnan fá upplýsingar um það.

    Ég sakna þess líka mjög í þessari umræðu að orðið neytandi heyrist ekki. Það bara heyrist ekki. Menn eru svo uppteknir við að verja landbúnaðinn í landinu að orðið neytandi heyrist ekki. Ég held að þetta geti farið saman, neytandinn og landbúnaðurinn getur vel farið saman og á að gera það, miklu betur heldur en það gerir í dag. Og þó að við opnum hér fyrir aukinn innflutning, þá held ég að það sé bara af hinu góða fyrir landbúnaðinn, bara af hinu góða að hann fái aukna samkeppni því að við vitum hver gæðin eru og við vitum hver þjóðernishyggjan er. Hún mun sjá til þess að það lifir. Við þurfum ekki annað en rifja upp hvernig fór fyrir bökurunum þegar sætu kökunum var hleypt hér inn. Hvað skeði í framhaldi af því? Við erum sennilega með einhver bestu bakarí í heimi og innflutningurinn á ekki séns, hann á ekki möguleika vegna þess að þarna kom aukin samkeppni og menn fóru að hugsa á annan hátt og það er nákvæmlega það sem ég held að muni gerast. Það sem ég held að landbúnaðurinn eigi fyrst og fremst að gera er að skera ofan af sjálfum sér hina gríðarlegu yfirbyggingu.
    Menn geta horft ef þeir vilja á Bændahöllina eða Mjólkursamsöluna. Hvernig fór hún að því að reisa allar þessar byggingar án þess að slá eina krónu að láni? ( Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Er það ekki rétt? ( Gripið fram í: Nokkurn veginn.) Nokkurn veginn. Þá breyti ég þessari staðhæfingu í án þess að slá stór lán.
    Ég tel að þessu megi breyta og ég held að menn eigi að hugsa aðeins í áttina að neytendum, menn eigi að reyna að leita leiða til að lækka matarverð og það gerir aukin samkeppni. Og ég held að það veiti ekki af. Kaupmátturinn er ekki það mikill hér á landi þrátt fyrir harða baráttu framsóknarmanna fyrir því að halda uppi háu matarverði hér um jólin, háu matarverði og mikla baráttu. Það mátti ekki lækka matarverðið með því að setja tvö stig í virðisaukaskattinn. ( JónK: Lækka verslunarálagninguna líka.) ( SJS: Það er of seint fyrir SÍS.) Ég held að hv. þm. viti ekki alveg hvað hann er að segja þegar hann er að tala um að lækka verslunarálagninguna, ekki ef hann er að tala um landbúnaðarvörurnar. Það getur vel verið að hún sé há á einhverjum glysvarningi, en það er ekki sú umræða sem hér fer fram núna. ( Gripið fram í: Hún er ekkert há á þeim?) Á matvörunum er hún ekki há, það þekki ég vel. Og ég get vel sagt þingmanninum það að framlegð í matvörum á Íslandi er 19%, nákvæmlega. Og ef það þykir há álagning þá erum við ekki sammála.
    Það hefur verið rætt hér um heimsmarkaðsverð og alla þessa gríðarlegu verðjöfnun, allt upp í 1.000% eða jafnvel meira held ég að hafi verið talað um hér í umræðunni. Það hæsta sem ég man í augnablikinu eru 719% á sellerí og það er auðvitað eðlilegt að spyrja eins og hæstv. utanrrh.: Hvað er verið að verðjafna þegar við erum að verðjafna sellerí? Hvar er sellerí framleitt á Íslandi? Hvergi nokkurs staðar. En ég vildi spyrja í framhaldi af því: Hafa verið teknir út einhverjir tilteknir vöruflokkar, t.d. einhverjar 10 matvörur og þær reiknaðar út miðað við gildandi heimsmarkaðsverð á deginum í dag eða deginum sem landbn. var að fjalla um málið og fengið út hvað þær hefðu raunverulega kostað hér á markaði? Ef nefndin hefur unnið eins vel og sagt er, þá hlýtur þetta að hafa verið gert því að menn verða að gera sér grein fyrir því hvaða gjöld þeir eru að leggja á. Fleiri hundruð prósenta gjaldtaka hlýtur að hækka verð verulega og hún hlýtur að sjá til þess að innflutta varan verður aldrei samkeppnishæf. Menn mega ekki að halda að það sé verið að kaupa inn vöru á einhverja aura og menn mega ekki gleyma því hvar við búum. Það er ekki aldeilis ókeypis að flytja vörur til landsins. Ekki aldeilis. Og það verkar líklega allt inn í verðjöfnunargjaldið. --- Hv. formaður landbn. hristir höfuðið við því að það reiknist inn í vöruverðið. Mig langar þá að spyrja: Hvernig er verðjöfnunargjaldið reiknað vegna þess að það hlýtur auðvitað líka að hafa verið farið yfir? Það er tekið í tolli. Hvar í tolli er það tekið? Er það notað sem stofn fyrir tollverðgengi þar sem vöruverð kemur inn, þar sem frakt kemur inn, þar sem trygging kemur inn, þar sem annar kostnaður kemur inn, uppskipun, vörugjald og annað slíkt? Er það reiknað þar inn í eða kemur það eftir þennan lið sem sértala? Kemur vaskurinn inn í það? Hvernig er þetta reiknað út? Það hlýtur líka að liggja fyrir vegna þess að annars hefði ekki verið hægt að reikna út dæmið um vöruverðið.
    Þetta finnst mér vera grundvallarspurningar um hvernig á að standa að þessu, hvað við erum að samþykkja. Og mér finnst ég ekki ósanngjarn að spyrja þessara spurninga. Ég sit ekki í landbn., ég bý ekki yfir þessum upplýsingum en ég vil taka afstöðu til þessa máls. En þá vil ég líka vita hvað í því felst. ( KÁ: Það veit enginn.) Nei, það veit enginn. --- En ég verð að segja það eins og er að í allri þessari baráttu þá skil ég bara ekki af hverju ullarvörum er hleypt inn í þetta land. Það er jú landbúnaðarvara. Og hvernig er staða prjónaiðnaðarins? Af hverju stígum við ekki bara skrefið til fulls og lokum og læsum, setjum bara alla tollskrána á bannlista og svo sjáum við bara til í hvert og eitt sinn? Þetta er nánast fyrsta skrefið í þá átt.
    Sú hugmynd kom fram í dag, ég held hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að það væri sennilega skynsamlegast að nefndin tæki málið aftur og ynni það upp á nýtt og kæmist að sameiginlegri niðurstöðu því að menn skynja auðvitað að það er ekkert langt í að menn geti náð saman. ( Gripið fram í: Þeir geta ekki unnið saman. Það er gallinn.) Það er svo allt annað mál, en ég held að það væri sennilega það skynsamlegasta sem væri gert að nefndin tæki málið aftur til baka.
    Ég vil aðeins minnast á það af því að menn eru svo hræddir við innflutninginn að það eru t.d. fluttar inn norskar fiskibollur. Ég hef ekki orðið var við að ORA-verksmiðjurnar sem framleiða íslensku fiskibollurnar hafi verið að emja eða grenja yfir því eða að það hafi nokkur einustu áhrif. Ég held að það sé bara ágætis dæmi um að þannig mun þetta verða. Að sjálfsögðu mundi slæðast hér inn ein og ein vara

á þokkalegu verði, vonandi alla vega, vonandi. En að menn haldi að hér hrynji allt saman þó það sé aðeins hleypt inn erlendum matvörum, það er bara hreinasta fjarstæða. Ég held að það sé ekki mikil hætta fólgin í því að opna hér örlítið fyrir innflutning og minnka þá um leið byrðarnar á íslenskum landbúnaði.
    Ég þvældist töluvert um landið þegar ég var þingmaður Vesturlands og ég get sagt það að ég hef ekki séð jafnmikið bil innan einnar stéttar eins og hjá bændum. Menn sjá slíka örbirgð og slíka fátækt að það er með ólíkindum og manni tekst ekki einu sinni að lýsa því fyrir fólki hvað sumir bændur hafa það bágt. Svo getur maður komið á aðra bæi þar sem þetta er algjörlega ,,omvent``. Þetta er auðvitað afleiðing þess kerfis sem við búum við. Menn lentu kannski mismunandi í því hvar þeir voru staddir á þeim viðmiðunarárum sem notuð voru þegar fullvirðisrétturinn var settur á.
    Virðulegi forseti. Ég lofaði því í upphafi að hafa ekki langt mál og ég held að ég sé meira að segja búinn að tala lengur en ég hafði ætlað mér. En ég óska eftir því að fá svör við þeim einföldu spurningum sem ég hef hér lagt fram.