Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 00:15:19 (5136)


[00:15]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er satt best að segja afar dapurlegt að heyra hæstv. forsrh. svara með þessum hætti. Varðandi hina vönduðu vinnu landbn. þá er rétt að það komi fram að það voru strax t.d. deildar meiningar um það hvernig verðjöfnunargjaldavaldsviðið yrði skilgreint miðað við þennan texta. Það er að vísu rétt að lögfræðingarnir höfðu sína skoðun á því og reyna að rökstyðja hana en það komu strax fram önnur sjónarmið. Ég spurði t.d. strax að því hvort öruggt væri að þetta taki til allra hráefnisþátta í samsettum vörum. Þeir geta haft sína skoðun á því þessir ágætu lögfræðingar.
    Það er líka misskilningur hjá hæstv. forsrh. að aðalatriði þessa máls eins og það er nú orðið og deilurnar nú snúist um það atriði sem Hæstiréttur fjallaði um í skinkudóminum. Hæstiréttur fjallaði þar eingöngu um einn afmarkaðan þátt þessa máls, þ.e. hvort búvörulögin frá 1985 fælu í sér sjálfstæða bannheimild og niðurstaða meiri hlutans varð að svo væri ekki. Við erum að ræða fyrst og fremst um aðra þætti deilunnar milli stjórnarflokkanna, það er þetta um valdsvið landbrh. gagnvart verðjöfnunargjöldum. Ef þetta er svona, hæstv. forsrh., að lagatextinn sé algjörlega skýr þá óska ég eftir því að hæstv. forsrh. svari tveimur spurningum:
    Felur lagatextinn í sér að landbrh. hafi heimild til að verðjafna gagnvart öllum innfluttum búvörum eða bara þeim sem framleiddar eru hér á landi? Ég óska eftir svari frá hæstv. forsrh. Hver er þá hans skilningur á textanum?
    Í öðru lagi: Felur lagatextinn í sér, eins og hann er núna, að landbrh. hafi heimild til að verðjafna fyrir bæði innlendum og erlendum hráefnisþáttum í samsettum vörum? Úr því að hæstv. forsrh. er orðinn svona sannfærður um að textinn sé skýr og afdráttarlaus og ljós þá hlýtur hann að geta svarað þessum einföldu spurningum sem stjórnarflokkarnir deila um.