Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 00:21:20 (5139)


[00:21]
     Frsm. 3. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil hugga hæstv. utanrrh. með því að þetta eru fyrningar sem ég er með frá löngu ferli í þessu máli þannig að ég hef ekkert endilega hugsað mér að nota þessi gögn öll sömul og hef í sjálfu sér ekki uppi áform um mjög langa ræðu. Ég bað um orðið í þessari umræðu í dag þegar hæstv. forsrh. tók sér það fyrir hendur að túlka úr ræðustól skoðanir okkar stjórnarandstæðinga í landbn. á þeim vinnubrögðum sem ríkisstjórnin viðhefur hér og þeim tillögum sem þar voru lagðar fram.
    Það var annars afar sérstakt að hlusta á þá friðarræðu sem hæstv. forsrh. flutti í dag og taldi sig greinilega vera að sauma málið saman endanlega og þaðan í frá mundi allt falla í ljúfa löð á stjórnarheimilinu. Hann benti á það að gagnvart til að mynda GATT-þættinum þá væri mjög víðtæk samstaða á Alþingi um það að auðvitað séum við GATT-þjóð og munum verða GATT-þjóð áfram og getum ekki annað og undir það tek ég með hæstv. ráðherra. Ég hef reyndar á undanförum vikum engan þingmann eða ráðherra heyrt mæla á annan hátt nema hæstv. forsrh. í sjónvarpsviðtali fyrir hálfum mánuði eða svo þar sem hann lét að því liggja að þetta GATT skipti okkur ekki svo miklu máli og við hefðum það alveg í hendi okkar hvenær og hvort við mundum samþykkja Úrúgvæ-lotuna. Mér fannst hæstv. forsrh. sleppa því þá að GATT er meira en Úrúgvæ-lota og á grundvelli tollabandalagsins GATT þá byggjum við m.a. samninga okkar við Japani, Bandaríkjamenn og fleiri þjóðir um tollfrjálsan aðgang okkar á fiskafurðum þannig að það er dálítið mikið í GATT og verulega mikið í húfi fyrir okkur að við stöndum við okkar skuldbindingar þar. Ég hef hvergi fengið það staðfest þó svo að menn hafi velt vöngum yfir því hvort við gætum leyft okkur að sleppa því að staðfesta Úrúgvæ-lotuna en halda eftir sem áður öllu því sem við höfum náð á eldri ákvæðum GATT-samkomulagsins. Ég tel reyndar að það sé afar vafasamt og ég hlýt eiginlega að leita eftir því við hæstv. forsrh. hvað hann átti við með þessu sjónvarpsviðtali eða hvort þetta hafi bara verið einn leikurinn í því valdatafli sem þá fór fram milli stjórnarflokkanna þar sem báðir aðilar virtust vera tilbúnir að tefla þessu máli til stjórnarslita.
    En þetta var nú útúrdúr. Ég var að ræða um friðaræðu hæstv. forsrh. í dag. Því miður þá missti hæstv. forsrh. að mestu leyti af viðbrögðum aðalleikara í ríkisstjórninni í þessu máli, hæstv. utanrrh. og

hæstv. landbrh., þar sem þeir rifust úr ræðustól og brigslyrðin gengu á víxl, það gróf á stundum að ég er nánast viss um það að ef við stjórnarandstæðingar hefðum haft slík orð um ráðherra í ríkisstjórninni þá hefði verið búið að glymja í bjöllu forseta áður en yfir lauk. En bara svo að hæstv. ráðherra fái smásýnishorn þá kallaði hæstv. utanrrh. þá sjálfstæðismenn sem að þessu máli hafa unnið ,,ódrengi og lítilmenni``. Hæstv. utanrrh. sagði einnig að þessir aðilar hefðu ekki farið að hætti siðaðra manna eða viti borinna og er nú bara borið niður á tveimur stöðum í ræðu hæstv. utanrrh. Og snemma í sinni ræðu sagði hæstv. landbrh. að málflutningur Alþfl. byggðist á útúrsnúningum, lagaklækjum og tilbúningi. Á þennan hátt gengu brigslyrðin á milli ráðherra í núv. ríkisstjórn. á annan klukkutíma.
    Hæstv. utanrrh. byrjaði reyndar sína ræðu á því að segja að í GATT-málinu bæri ekki svo mikið á milli. Framsfl. og Alþb. hefðu unnið að þessu með Alþfl. í fyrri ríkisstjórn og hann ynni að þessu máli nú með Sjálfstfl. Og mikill meiri hluti Alþingis, eins og ég hef bent á, væri sammála því að að þessu ættum við að vinna og við ættum líka að vinna að því að tryggja íslenskum landbúnaði ákveðinn aðlögunartíma. En hvað er þá að? Mín niðurstaða hvað það snertir er ósköp einföld. Hún er einfaldlega sú að það er ekki hægt að draga af þessu nema eina ályktun: Þeir aðilar sem fara með þessi mál innan og utan núverandi ríkisstjórnar á Alþingi og í ríkisstjórninni virðast vera ófærir um að vinna saman. Þeir virðast vera ófærir um að koma fram lagatexta í máli sem allir eru þó sammála um að ekki beri mikið á milli alþingismanna í. Að mínu mati er þetta fyrst og fremst áfellisdómur yfir ríkisstjórninni, yfir þeim ráðherrum sem með þetta fara, yfir forustumönnum stjórnarliðsins, formanni og varaformanni í landbn. og yfir hæstv. forsrh. sem verkstjóra í ríkisstjórninni.
    Það hlýtur að vera þrúgandi fyrir eina ríkisstjórn að hafa slíkt mál hangandi yfir sér, ekki vikum saman, heldur mánuðum saman og í hvert skipti sem hæstv. forsrh. kemur fram og segir að nú sé búið að ná samkomulagi, nú sé búið að setja deilurnar niður, þá blossa þær upp enn þá illvígari en nokkru sinni áður og fyrir því höfum við staðfestingu í þingsölum í kvöld. Ég nefndi aðeins nokkur af þeim brigslyrðum sem gengu á milli ráðherra í ríkisstjórninni.
    Ef þetta er svona að hér er um að ræða mál, sem er til þess að gera samstaða um meðal þingmanna, en ríkisstjórninni tekst ekki og forustumönnum flokkanna á Alþingi tekst ekki að búa það í það form að hægt sé að afgreiða það, hvernig fer þá með hin stærri mál þar sem um er að ræða verulegan ágreining svo ég nefni bara sjávarútvegsmálin sem einn málaflokk?
    Ríkisstjórn sem svona er komið fyrir hlýtur að teljast algjörlega vanhæf á að takast á við pólitísk erfið úrlausnarefni. Það flaug um huga manns eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. utanrrh. og hæstv. landbrh. hér í kvöld að einhvers staðar í einhverju landi hefði forsætisráðherra væntanlega tekið á sig rögg og leyst þessa menn frá embætti því það er á þessu sem steytir. Það steytir á því að landbrh. og utanrrh. geta ekki unnið saman. Það hlýtur þá að vera skylda hæstv. forsrh. ef hann vill halda þessu stjórnarsamstarfi og hann telur að það sé nauðsynlegt að það fáist lausn í þessu máli, lausn sem byggi á þeim sameiginlega skilningi og vilja sem vissulega er til hér innan þingsins, þá hlýtur sú lausn að felast í því að leysa þessa tvo hæstv. ráðherra frá embætti og setja þar inn menn í staðinn sem geta unnið saman.
    Ég minnist þess ekki í tíð fyrri ríkisstjórnar að það kæmi upp önnur eins krísa eins og hér er núna. Það var hægt að gera þar búvörusamning þó viti að Alþfl. var ekki sammála honum í öllum atriðum. En það hefði verið ósköp lítill vandi að æsa þá til álíka óvinafagnaðar og nú er.
    Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að mér finnst oft á tíðum ósköp fróðlegt að skoða atburðarás síðustu vikna og það sem er að gerast innan ríkisstjórnarinnar í ljósi ummæla sem hæstv. forsrh. hafði ítrekað um Alþingi og alþingismenn eftir að hann kom hér fyrst inn. Alþingi hefur staðið sína plikt í vetur, það er ekkert upp á Alþingi að klaga. Sá aðili sem hefur brugðist er hæstv. ríkisstjórn. Það var sameiginlegur vilji þingmanna í haust að breyta starfsháttum Alþingis, að stjórnarandstæðingar fengju meiri þátttöku í stjórn þingsins, formennsku í nefndum, til að breyta starfsháttum Alþingis. Að mínu mati hafa stjórnarandstæðingar og almennir þingmenn, eins og ég sagði áðan, staðið sína plikt hvað þetta snertir, en aðilinn sem hefur brugðist er ríkisstjórnin.
    Ég er sammála þeim þingmönnum sem hafa komið fram fyrr í kvöld og sagt að það sé ekki samboðið Alþingi að afgreiða þetta mál í því formi sem það er núna. Það eru til fleiri virtir hæstaréttarlögmenn heldur en þeir sem voru fengnir til starfa með hv. landbn. Ég hef rætt við lögmenn úr þeim hópi í dag og þeir eru þeirrar skoðunar að það sé ekki samboðið Alþingi að afgreiða mál í því formi sem nú stefnir í. Það er þeirra skoðun að ef það sé gert þá séu alþingismenn að bregðast skyldu sinni og í raun að bregðast þeim eið sem þeir sverja þegar þeir setjast hér inn á þing. Það sé skylda Alþingis að setja lög sem séu skýr og það ríki enginn vafi um túlkun þeirra. ( Forsrh.: Vill ekki þingmaðurinn nafngreina þessa lögfræðinga?) Það getur vissulega komið til að Alþingi yfirsjáist í lagavinnu, en það má ekki gerast að Alþingi afgreiði lög vísvitandi, með opnum augum, þannig að það sé óvissa um túlkun þeirra. Það hlýtur að vera skylda alþingismanna að vinna þannig að það gerist ekki.
    Hæstv. forsrh. spurði: Vill ekki þingmaðurinn nafngreina þessa lögmenn? Það geri ég ekki hér og nú. Ég mun hins vegar ef málið verður afgreitt og ríkisstjórnarmeirihlutinn knýr fram að málið verði afgreitt í þessu formi, með tveim nál. sem ganga sitt í hvora áttina, þá mun ég að sjálfsögðu fara fram á það að málið verði tekið aftur inn í landbn. á milli umræðna eins og heimildir eru til í þingsköpum og þar fáum við virta menn á sviði lögfræði til að segja álit sitt á þessum vinnubrögðum.

    Ég tek alveg undir orð hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar frá því fyrr í kvöld þar sem hann sagði að það væri náttúrlega ekki hægt að Alþingi afgreiddi málið á þennan hátt. Hv. þm. sagði að Alþingi yrði að skera úr um það við hvora túlkunina ætti að styðjast þegar farið væri að skýra lögin. Hæstv. forsrh. sagði hér áðan að það væri textinn, lagatextinn sjálfur, sem gilti. Það er út af fyrir sig alveg rétt. En oft er nú gripið til greinargerða og nál. til frekari skýringa. Það var hins vegar afar athyglisvert að heyra hæstv. forsrh. lýsa því yfir að í raun, eins og málið væri núna, þá væri það bara lagatextinn strípaður sem gilti en nál. tvö frá fyrsta og öðrum minni hluta hefðu ekkert að segja. Ég skildi það þannig að þau upphefðu hvort annað og þar með hefur Alþfl. væntanlega náð fram sínum tilgangi með því að setja fram sérálit. Þá stendur bara lagatextinn strípaður og ef menn skoða hann í umgjörð atburðanna áður en þessar brtt. voru lagðar fram þá fer ekkert milli mála að textinn sem slíkur liggur miklu nær því sem Alþfl. hélt fram heldur en því sem hv. formaður landbn. hélt fram og var studdur af hæstv. forsrh. varðandi þá túlkun sína. Þá fer það ekkert á milli mála að textanum var breytt frá því formi að vera með GATT-viðmiðanir inni og í það að þær voru teknar út. Og það verður þá væntanlega það sem lögspekingar og dómarar líta á þegar þeir fara að velta fyrir sér hver var vilji Alþingis ef það er eins og hæstv. forsrh. segir að það sé ekkert á greinargerðunum að græða.
    Ég held þess vegna að það sé alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að Alþingi verði að skera úr um hvort nál. hafi greinargerðarígildi þegar kemur að þessu frv. Það vill svo til að á síðasta vetri voru tekin upp hliðstæð vinnubrögð. Í tengslum við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði var sett inn í lagatexta að við túlkun laga skyldi ekki taka tillit til textans eins eða greinargerðarinnar eða nál. heldur skyldi taka tillit til EB-dóma í viðkomandi málum. Þannig að það væri ekkert nýmæli að inni í nýrri lagagrein skýrði Alþingi út og segði alveg ákveðið hvort nál. það væri sem bæri að taka tillit til þegar kæmi að því að skýra lögin.
    Virðulegur forseti. Það hefur verið deilt um hvort hægt væri að setja í lög núna ákvæði sem tækju á GATT-samningunum þegar þeir tækju gildi. Að mínu mati liggur alveg ljóst fyrir eftir þær viðræður sem við áttum við m.a. fulltrúa utanrrn. --- sem ég vil taka fram, til að taka af öll tvímæli, að ég hef ekkert upp á svör og þau samskipti sem ég hef sem þingmaður þurft að hafa við fulltrúa utanrrn. sem hafa komið að þessu máli að klaga. Þeir hafa að mínu mati gefið skýr og greinargóð svör og ég get þar alveg nefnt nöfn eins og Gunnar Snorra og Pétur Thorsteinsson í því sambandi. Þeir hafa að mínu mati á allan hátt skilað þeirri vinnu sem við höfum farið fram á. Það kom hins vegar einu sinni fyrir að hæstv. utanrrh. bannaði þeim að taka þátt í vinnu landbn. en það tel ég að hafi ekki verið við þá að sakast sem slíka. --- En það sem hefur komið fram í máli þessara manna og þar er bæði um að ræða það sem ég hef heyrt inni í landbn. og ég hef einnig hlustað á þá á öðrum vettvangi, og allt sem þar hefur komið fram segir mér að við höfum mjög víðtækar heimildir til að beita tollígildunum sem þar verða tekin upp. Og það staðfestir það sem ég hef alla tíð sagt í þessu máli að það hvernig GATT kemur við íslenska atvinnuvegi, við íslenskan landbúnað og matvælaiðnað er ekki utanríkismál, það er innanríkismál. Það ræðst af þeirri löggjöf sem við setjum um málið og hvernig við stöndum að því hér innan lands en ekki vegna krafna erlendis frá. Það er þess vegna sem sú umræða sem hér fer fram og afgreiðsla Alþingis á þessu máli er svo mikilvæg sem raun ber vitni og þess vegna verður fall ríkisstjórnarinnar enn þá meira á þessu prófi.
    Landbn. breytti 52. gr., banngreininni, í almennara orðalag sem getur að mínu mati staðist eftir að GATT tekur gildi. Það er einnig að mínu mati alveg ljóst að við getum strax í nótt ef fyrir því væri pólitískur vilji sagt til um það hverjir innan stjórnkerfisins hefðu forræði hvað þetta snertir. En það er ekki pólitískur vilji til þess og það byggist kannski öðru fremur á því að það er ekki samstaða í ríkisstjórninni, menn treysta ekki hver öðrum.
    Ég hef stundum sagt í þessari umræðu að það vanti kannski bara eina grein, það vanti bara kannski eina grein og hún mundi hljóða svona: Ráðherrar treysti hver öðrum.
    En málsmeðferðin byggist á því að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru alltaf með þetta mál í pólitískum hráskinnsleik. Hæstv. ráðherrar og einstakir þingmenn stjórnarliðsins eru að guma af því að nú sé búið að koma textanum í það form að það sé hægt að túlka hann á þennan eða hinn háttinn en hinn flokkurinn viti bara ekki af því enn þá.
    Virðulegur forseti. Mér finnst alveg nauðsynlegt að það komi fram og hæstv. forsrh. viti hvernig vinnubrögðum er háttað í því liði sem honum er ætlað að halda saman. Menn eru stöðugt í þeim leik að búa til lagatexta sem sé svo loðinn að það sé hægt að plata hinn flokkinn. Og ef menn koma sér saman um lagatexta þá á að búa til a.m.k. tvö nál. sem gangi sitt í hvora áttina. Hér er náttúrlega um að ræða vinnubrögð sem eru algjörlega óviðunandi. Niðurstaða mín hlýtur því að vera sú að það sem á strandar hér er ekki það að við höfum ekki forsendur til að breyta lögum þannig að hægt sé að vinna eftir þeim þegar GATT tekur gildi, að við höfum ekki forsendur til að geta sagt á allra næstu vikum hvernig við ætlum að standa að því máli. Við höfum allar þær forsendur. GATT-tilboðið er löngu útbúið af okkar hálfu og það bendir ekkert til annars en að það verði samþykkt í því formi.
    Nú hefur hins vegar verið ákveðið að setja þetta í fimm ráðuneyta nefnd. Það var rætt um það strax um miðjan desember. Þá vissu menn að GATT mundi væntanlega taka gildi um áramótin 1994--1995. Er nefndin farin að starfa enn þá? Ég spyr hæstv. forsrh., hefur sú nefnd hafið störf? Ég þarf kannski ekki að spyrja því hún var ekki skipuð fyrr en fyrir nokkrum dögum. Nefndin sem rætt var um í desember að ætti

að fara að vinna að undirbúningi lagagerðar vegna GATT-samkomulagsins, sem tekur væntanlega gildi um næstu áramót, er ekki skipuð fyrr en um miðjan mars. Hvað tafði? Það er ekki fyrr búið að skipa þessa nefnd en hv. þm. Egill Jónsson, formaður landbn., lýsir því yfir hér úr ræðustól á Alþingi að hann hafi nú ekki mikla trú á þeirri nefnd og hann hafi ekki mikla trú á því sem komi út úr því nefndarstarfi. Og hann lýsti nánast fyrir fram hér í kvöld ágreiningi við störf nefndar sem er rétt búið að skipa og er ekki farin að starfa. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Hvers konar traust ríkir hér á milli manna?
    Virðulegur forseti. Ég þori nánast að ábyrgjast að þetta mál fer þannig að við verðum að því síðustu daga fyrir jól, ef það verður þá komið nokkuð frá þessari nefnd, að fjalla um þær reglur sem þá eiga að fara að taka gildi. Það liggur alveg ljóst fyrir að það verður ekkert afgreitt áður en þing verður sent heim í vor hvað þetta snertir. ( Forsrh.: Hvað hvað snertir?) Hvað snertir frekari lagagerð vegna GATT. Það liggur alveg fyrir. ( Forsrh.: Það hefur aldrei staðið til.) Það hefur aldrei staðið til, segir hæstv. forsrh. Þetta var afar athyglisverð yfirlýsing frá hæstv. forsrh. Nú segir hæstv. forsrh. hér: Það hefur aldrei staðið til að á þessu vorþingi væri afgreitt neitt hvað snertir lög sem varða GATT. Ég vona að hv. 3. þm. Austurl., formaður landbn., hafi hlustað vel. Nú geta menn borið þetta saman við digrar yfirlýsingar formanns landbn. á síðustu vikum. Það hefur aldrei staðið til að afgreiða nokkuð hvað þetta snertir á þessu vorþingi. Það hefur aldrei staðið til af hálfu hæstv. núv. ríkisstjórnar að fyrir mitt ár 1994 vissu menn nokkuð skapaðan hlut um það við hvaða aðstæður íslenskur landbúnaður og íslenskur matvælaiðnaður ætti að fara að vinna um næstu áramót. Og miðað við fyrri vinnubrögð hæstv. núv. ríkisstjórnar í þessu máli þá sjáum við ekkert um þetta mál þegar þing kemur saman í haust. Það þurfti að kalla eftir þeirri breytingu sem var alveg ljóst að þurfti að gera á búvörulögum á síðasta hausti. Það þurfti að kalla eftir henni vikulega frá því í byrjun október og fram yfir miðjan desember úr þessum stól áður en hún kom fram.
    Það er ekki furða þó að hv. form. landbn. aki sér í stól sínum þegar hæstv. forsrh. er búinn að lýsa því hér yfir að það hafi aldrei staðið til að samþykkja eitt né neitt, setja eitt né neitt í lagaform hvað snertir GATT á þessu vorþingi. Þetta er kannski merkasta niðurstaðan úr þessari umræðu hér í kvöld.
    Virðulegur forseti. Það væri freistandi að ræða við hæstv. utanrrh., taka í það svolítinn tíma, almennt um landbúnaðarmál og stöðu þeirra og það kerfi sem við búum við þar og þá yfirbyggingu sem menn hafa rætt um í kvöld að það þurfi að skera niður hjá landbúnaðinum. Nú skal ég verða fyrstur manna til að taka undir það að við eigum að skera niður yfirbyggingu hvar sem við getum, eins og við getum. Við eigum að einfalda stjórnkerfin og að því hef ég unnið þar sem ég hef komist að því máli innan bændasamtakanna. Það er prinsippmál. En ef við förum síðan að skoða hvað allt þetta kerfi kostar, þá veltir það engu um matvælaverð hér á landi. Það hleypur ekki á þeim upphæðum að það breyti þar neinu um. Það er hins vegar rétt og mikilvægt að á þeim málum sé tekið fyrst og fremst til þess að allt stjórnkerfi sem atvinnugreinin þarf að búa við sé einfalt og skilvirkt. Það þjónar þeim tilgangi fyrst og fremst en ekki því að þar séu menn að skera niður einhver þau ósköp að það skipti sköpum í innlendu matvælaverði.
    Hæstv. utanrrh. vill að landbúnaðurinn sé losaður úr því miðstýrða kerfi sem hann er í. Mér finnst stundum að það umhverfi sem hæstv. ráðherra tali um sé kannski það umhverfi sem var fyrir 5, 6, 7 árum síðan og hæstv. ráðherra hafi ekki fylgst almennilega með þessum málaflokki. Því að ef við tökum hefðbundnu greinarnar, hvað er þá eftir af því miðstýrða stjórnkerfi? Það sem stendur eftir er að íslenskir sauðfjárframleiðendur og íslenskir mjólkurframleiðendur hafa rétt til þess að skipta innlenda markaðnum á milli sín. Þeir bera fulla ábyrgð á allri framleiðslu. Þessu er skipt niður með framleiðslukvótum sem eru að fullu framseljanlegir.
    Hæstv. ráðherra nefnir einnig, og þar ég ég honum sammála, að við hljótum að nýta okkur þá möguleika sem íslenskur landbúnaður á, m.a. varðandi útflutning á hágæðavöru. Hárrétt hjá hæstv. ráðherra. Hitt er svo annað mál að við höfum enga möguleika á að nýta okkur þetta á skipulegan hátt samkvæmt nýtísku markaðsfræði öðruvísi en menn hafi á því eitthvert skipulag og menn skipuleggi á einhvern hátt hvernig menn nýta innlenda markaðinn annars vegar og hinn erlenda hins vegar. Þetta gildir jafnt þegar við erum að þreifa okkur áfram á þessari braut og erum í þeirri stöðu að fá lægra verð á erlendum mörkuðum heldur en við fáum nú innan lands. Þetta gildir sömuleiðis ef það gerðist, sem við skulum vona, að við næðum því að fá hærra verð fyrir okkur útflutning heldur en það sem við erum að selja inn á okkar íslenska markað fyrir íslenska neytendur. Ég bendi einnig, hæstv. ráðherra, á það að það sem hefur haldið innlendri vísitölu niðri öðru fremur frá þjóðarsáttinni 1990 er lækkun á innlendum búvörum langt umfram aðra verðlagsþróun.
    Það er svolítið sérstakt að hlusta á fulltrúa Alþfl. þegar þeir eru annars vegar að lýsa því hvernig við eigum að standa að okkar útflutningi í sjávarútvegi, þar sem við eigum að brjóta niður kerfin til þess að framleiðendurnir geti keppt hver við annan og fengið hærra verð. Þegar kemur aftur að innanlandsmarkaðnum þá á að brjóta niður skipulagið vegna þess að skipulagið heldur uppi verðinu. Það er svo margt í þessum málflutningi sem rímar ekki og stemmir ekki. Ég treysti mér ekki til þess að deila við hæstv. ráðherra um tæknileg atriði í framkvæmd utanríkisþjónustunnar, um tæknileg atriði í framkvæmd milliríkjasamninga. Ég get haft þar almenna pólitíska skoðun, en ég eftirlæt þeim sem vit hafa á um að úttala sig í smáatriðum um tæknilega útfærslu. En það virðist bara stundum að mönnum finnist svo auðvelt að tala um hluti sem þeir þekkja lítið til og grípa til þess að ræða um einhverja stöðu sem var kannski fyrir einhverjum árum síðan. Í það fellur Alþfl. m.a. og það ræddi ég við hæstv. utanrrh. í síðustu viku þegar hæstv.

viðskrh. lét Reiknistofu háskólans reikna út hvað hver fjögurra manna fjölskylda á Íslandi gæti sparað ef innflutningshömlum væri sleppt af búvörum. Þar fékk hæstv. ráðherra út háar tölur. En hvernig fékk hann þær? Hann fékk þær með því að nota reiknitöluna, grunntöluna, verðin sem voru lögð til grundvallar tollígildunum vegna GATT, lægstu heimsmarkaðsverð sem fundust, ekki verð út úr búð heldur lægstu verð á hráefninu sem fundust á árunum 1986--1988. Síðan kemur hæstv. utanrrh. hér og lýsir því yfir með mikilli vandlætingu að þennan grunn sé ekki hægt að nota til að leggja á verðjöfnunargjöld eða tollígildi vegna þess að þetta sé verð sem hvergi er til.
    Hæstv. ráðherra hristir höfuðið, en þetta er staðreynd. ( Gripið fram í: Nei.) Þetta er staðreynd, hæstv. ráðherra. Mér þætti gaman að hæstv. ráðherra kæmi hér upp og mundi hrekja þessi orð mín. ( Gripið fram í: Búinn að því.) Hæstv. ráðherra er ekki búinn að því.
    Virðulegur forseti. Ég held að ég láti hér staðar numið og láti stjórnarliðana um það að taka við sviðinu. Ég hefði kosið að málið væri tekið aftur inn í nefnd og við reyndum að fá botn í það áður en þessari umræðu lýkur, hvað menn meina með þeim málflutningi sem hér er hafður í frammi. Að öðrum kosti hlýtur það að vera á ábyrgð stjórnarliðsins að afgreiða málið í því formi sem hér er.
    Hæstv. forsrh. sagði í dag þegar hann var að túlka skoðanir okkar stjórnarandstæðinga í landbn. að við hefðum kosið að fylgja ekki tillögum formanns nefndarinnar til þess að slá einhverjar pólitískar keilur, eins og hæstv. ráðherra sagði. Ég vildi nú biðja hæstv. ráðherra að skoða feril þessa máls. Skoða það að fulltrúar Framsfl. í landbn. stóðu að brtt. með stjórnarflokkunum í vor sem leið til þess að reyna að eyða þeirri óvissu sem ríkisstjórnin í það minnsta þá vissi að þyrfti að eyða varðandi túlkun á búvörulögunum. Í öðru lagi, þrátt fyrir að sú lagabreyting sem kom hér fram á síðustu dögum fyrir jól væri þannig unnin, eins og lögfræðingarnir þrír sem títt er vitnað hér til sögðu, að hægt var að túlka það í þrjár áttir, þá teygðum við okkur þar eins langt og við gátum til samkomulags og studdum meginefni þeirrar lagagreinar að undanskildu því ákvæði sem sneri að málsmeðferð innan ríkisstjórnar. Þegar hins vegar kom í ljós að enn á ný eftir áramótin blossuðu upp illvígar deilur á milli stjórnarflokkanna um málið þá sögðum við einfaldlega: Hingað og ekki lengra. Nú verður það að vera stjórnarmeirihlutans að vinna úr þessu máli. En við stóðum ekki við það að fullu því þegar önnur útgáfa af breytingartillögum unnum --- eða þriðja útgáfa, ég er farinn að ruglast í þessu --- næstsíðasta útgáfa af breytingartillögum unnum af lögfræðingum landbn. kom fram, þá sögðum við: Við skulum til þess að ná samkomulagi samþykkja þessa tillögu og standa að þeim með stjórnarmeirihlutanum. En hvernig fór? Það stóð nánast eldurinn aftur af hæstv. utanrrh. þegar hann geystist út úr þinghúsnu eftir að hafa séð þessar tillögur til þess að leita að hæstv. forsrh. til að tilkynna honum að hann gæti alls ekki sætt sig við þetta. Og eftirleikinn þekkja menn. Og er einhver hissa á því að við skulum ekki vilja standa að málinu í því formi sem það er komið í núna? Ég held að svo sé ekki.