Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 01:10:03 (5144)


[01:10]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Málsins vegna er nauðsynlegt að svara þó ekki væri nema einni spurningu hv. þm. Hann vekur máls á því hvort Alþingi sé með samþykki frv. sem hér liggur fyrir að skilja við málið í fullkominni réttaróvissu. Er einhver vafi á því yfir hvaða vörusvið bannheimildir hæstv. landbrh. ná? Nei, enginn vafi. Það er tíundað í viðauka sem hefur lagagildi. Er einhver vafi sem leikur á því yfir hvaða vörusvið verðjöfnunargjaldaheimildir hæstv. landbrh. ná? Svar við því er líka alveg skýrt. Nei, það nær yfir

þær vörur, þá tollflokka, sem tíundaðir eru í viðaukum og hafa lagagildi, þó með þeim fyrirvara að það nær ekki til annarra innfluttra vara en þeirra sem jafnframt eru framleiddar hér á landi, af sjálfu leiðir, verðjöfnunargjöld eru ekki lögð á aðrar vörur.
    Er þá einhver vafi á hvert er forræði hæstv. landbrh. varðandi hvort heldur er leyfisveitingarbönn og verðjöfnunargjaldaheimildir? Svar: Nei, það er enginn vafi á því vegna þess að það er tíundað í viðauka með þessu lagafrv. sem hefur lagagildi. Er einhver vafi á að þetta frv., breyting á búvörulögum, tekur ekki til framtíðarskipunar tollamála að því er varðar GATT? Svar við því er líka alveg skýrt. Nei, það er engin vafi á því. Það var í ákveðnu frv., sem var til umfjöllunar í nefnd, grein, kölluð grein 2.4, um framsal á slíkum verðjöfnunargjaldaheimildum til landbrh. en hún var tekin út. Þannig að enginn vafi leikur á því, enda staðfest í athugasemdum með stjfrv., yfirlýst af ráðherrum, landbrh., forsrh. og utanrrh., að það mál fer í nefnd sem samkomulag er um milli stjórnarflokkanna. Það er því ekki rétt að verið sé að bjóða upp á réttaróvissu fyrir þá sem eiga að búa við þessi lög sem eru til bráðabirgða þangað til af gildistöku GATT verður.