Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 01:18:15 (5149)


[01:18]
     Jón Kristjánsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram í dag fór af stað með sérkennilegum hætti og sérkennilegum nefndarálitum eins og fram hefur komið. Ég hygg nú samt að hv. þm. sem ekki eru hér staddir hafi ætlað að umræðunni mundi ljúka í kvöld og hafi ekki séð fyrir þá sérkennilegu umræðu sem hér hefur átt sér stað eftir kvöldmatarhléið. Sannleikurinn er sá að málið hefur tekið enn eina nýja stefnu núna eftir að hæstv. utanrrh. og hæstv. landbrh. hafa farið í stórorrustu um túlkun málsins og þeirra nál. sem fyrir liggja. Málið er því enn þá óljósara eftir þessa lotu og vil ég nú skora á forseta að fresta umræðunni þannig að það gefist tími til að ræða málið til hlítar í 2. umr. svo það skýrist eitthvað við 2. umr. þó 3. umr. sé eftir.