Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 01:21:53 (5152)


[01:21]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég er afar ósáttur við þennan úrskurð forseta ef forseti ætlar sér að halda við hann.
    Ég tel að við stjórnarandstæðingar verðum ekki sakaðir um að hafa lagt stein í götu þessa máls og yfirgnæfandi meirihluti ræðutímans, sem hefur staðið á tveimur fundardögum, á fimmtudaginn var og í allan dag og í kvöld og í nótt, hefur fallið í hlut stjórnarsinna sem hafa deilt hart í málinu. Ég tel það vera tiltölulega hógværa ósk og jafnframt vel ígrundaða og rökstudda að fara nú fram á það þegar klukkan er að verða hálftvö að nóttu og hér er búinn að standa fundur stanslaust síðan hálftvö í dag og þar af umræður um þetta mál síðan klukkan hálffjögur, nánast sleitulaust, að umræðunni verði nú frestað. M.a. vegna þess að hér eru mjög margir fjarverandi sem myndu þá eiga þess kost að kynna sér það sem hér hefur fram komið.
    Það eru sömuleiðis, hæstv. forseti, ærin rök fyrir því að taka til athugunar og fyrirgreiðslu óskir af þessu tagi nú þegar Alþingi starfar í einni málstofu og einungis tvær umræður eru til þess að flytja breytingartillögur og skila nefndarálitum við mál. Sá er munurinn ef hæstv. forseti verður við þessari ósk að þingið á þá þess kost að kalla til baka þau nefndarálit sem nú liggja fyrir og/eða skila framhaldsnefndarálitum og flytja nýjar breytingartillögu, eftir atvikum draga þá til baka sem nú liggur fyrir og flytja nýja, betur útfærða og skýrari og afdráttarlausari. Menn myndu þar með forða sér frá þeirri niðurlægingu að ganga til afgreiðslu á málinu undir þeim kringumstæðum sem hér hafa skapast í umræðunni. Er það virkilega þannig að það hvarfli ekki að fleirum en ræðumanni að það gæti verið þess virði að velta því fyrir sér hvort ekki væri hægt að hafa aðeins meiri reisn yfir afgreiðslu Alþingis á málinu en nú stefnir í?
    Nú síðast fyrir nokkrum mínútum kom hæstv. utanrrh. upp og gerði hvað? Hann túlkaði með gjörsamlega gagnstæðum hætti grundvallaratriði málsins borið saman við það sem kemur fram í áliti 1. minni hluta og er það bara ekkert mál? Hæstv. forsrh. situr með fingur á vör og starir út í tómið eins og ekkert sé sjálfsagðara en að stýra ríkisstjórn þar sem ráðherrar gangast á með þessum hætti. ( Forsrh.: Á ég að horfa á þingmanninn?) Til dæmis. Að minnsta kosti sýna að hæstv. forsrh. væri með meðvitund undir umræðunum.
    Ég tel satt best að segja, hæstv. forseti, að þetta séu þvílík tíðindi, mér liggur við að segja í þingsögunni, sem eru að verða með þessum nefndarálitum og þessum orðaskiptum stjórnarsinna og hæstv. ráðherra að það sé með hreinum ólíkindum ef menn sjá ekki ástæðu til að verða við ósk af því tagi að fresta umræðunni og halda henni þá frekar fram á venjulegum tíma á morgun. Þó mér segi svo hugur um að þá kynni að verða lengri frestun á ef menn fengju að sofa á málinu eins og eina nótt.
    Ég er óánægður með þennan úrskurð forseta og fer fram á að hann verði endurskoðaður.