Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 01:25:51 (5154)


[01:25]
     Frsm. 1. minni hluta landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegur forseti. Ég hef nú í tveimur ræðum við þessa umræðu gert grein fyrir þessu máli og ætla ekki að endurtaka það sem áður hefur komið fram í þeim efnum enda held ég að það sé allt saman nokkuð skýrt. ( SJS: Sammála utanrrh.)
    Hins vegar er tvennt sem mér finnst ástæða til að taka hér fram. Það er í fyrsta lagi að hér hefur verið talað um að nefndarálit okkar sjálfstæðismanna hafi verið samið og gengið frá því með því plaggi sem lagt var fyrir nefndina 14. febr. Það er rétt að það voru lögð fram drög að nefndarálitinu en endanlega var ekki frá því gengið fyrri heldur en mánudaginn fyrir síðasta fund okkar. Ég veit að hv. þm. Gísli S. Einarsson veit það vel því hann fékk nefndarálitið þá um kvöldið og þurfti reyndar eftir því að bíða vegna lokafrágangs eftir að breytingartillögur voru gerðar. Það var því búið að ganga frá tillögunum í endanlegu formi áður en gengið var frá nefndarálitinu. Þetta vil ég að liggi alveg ljóst fyrir.
    Síðan er það annað atriði sem ég vildi líka undirstrika. Ég veit ekki hvort hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon heyrir mitt mál. ( SJS: Ég heyri.) Ég geri það nú m.a. vegna þess að eins og ég hef áður sagt þá voru hans áherslur í landbn. skýrar að þessu leyti. Þá á ég við 1. mgr. 72. gr., sem reyndar var grundvöllur að því að ekki var annað hægt en að fara inn í 72. gr. eftir að búið var að leggja drög að breytingum að 52. gr. eins og frv. landbrh. gerði ráð fyrir.
    Til viðbótar við það sem kom fram hjá hæstv. landbrh. áðan þá vildi ég taka það alveg sérstaklega fram að heimild landbrh. í þessari grein er með öðrum hætti en hefur komið fram áður í frv. eða lagabreytingum að því er varðar 72. gr. 72. gr. verður núna sjálfstæð nema að því að hún vitnar til viðauka I sem tilheyrir 52. gr. en að öðru leyti verður hún sjálfstæð. Þar segir: ,,Landbrh. er heimilt til þess að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara að leggja verðjöfnunargjöld á innfluttar landbúnaðarvörur.``
    Þetta er heimild landbrh., þ.e. að tryggja samkeppnisaðstöðu innlendrar landbúnaðarframleiðslu. Þessi merking er alveg skýr. Mér finnst ástæða til að taka það fram sérstaklega í þessu sambandi og veit að aðrir landbúnaðarnefndarmenn geta vitnað þar um að skýringin við þessa lagagrein kom strax fram 14. febr. í þeim drögum sem þá lágu fyrir og fylgdi málinu í allri umræðunni í landbn. Það kom aldrei fram í nefndinni önnur túlkun eða annar skilningur en sá sem um getur í þessum drögum að nál. Það er því algjörlega ljóst að landbn. var fullkomlega meðvitandi þess strax 14. febr. hvað fólst þessu ákvæði.
    Þetta vildi ég líka að kæmi hér skýrlega fram. Að þessu var ekkert hrapað í afgreiðslu málsins og það er afar þýðingarmikið að það skuli liggja fyrir að skýringartextinn í drögum að nál. frá 14. febr. er alveg ótvíræður að þessu leyti. Þetta segi ég til viðbótar við þær áherslur sem komu fram hjá hæstv. landbrh. að þessu leyti. ( SJS: Hvað segirðu um ræðu utanrrh.?)
    Að endingu vildi ég gjarnan aðeins mæla örfá orð til hæstv. utanrrh. Það er þá í fyrsta lagi að því er varðaði ummæli hans út af því sem ég talaði til hv. þm. Gísla Einarssonar, þá tók ég það sérstaklega fram að það væri auðvitað ekkert við það að athuga þó að menn sæktu sér texta og ráð í annarra manna hús, enda er það hárrétt að grundvöllur að tillögugerð okkar fjórmenninganna og nál. okkar sjálfstæðismanna er vissulega sóttur til þeirra lögfræðinga sem voru okkur til aðstoðar. Hitt sagði ég að þetta nál. væri að því leyti niðurlægjandi fyrir þingmanninn að hann hlyti að vita betur um það hvað í því fælist en efni þess gæfi tilefni til. Þetta var það sem ég sagði.
    Meðan hæstv. utanrrh. var með sáttatón í ræðu sinni, þá hafði hann reyndar orð á því að það væri fyrst og fremst einn alþingismaður, formaður landbn., sem spillti friði í þessum málum. (Gripið fram í.) Þetta vil ég kalla grjótkast úr glerhúsi. Ef maður fer aðeins yfir þetta ferli þá var það ekki fyrir atbeina formanns landbn. Alþingis að það varð að fresta þingi án þess að afgreiða þessi mál í vor sem leið og ég minni á það sem ég sagði að allar undirskriftir voru í góðu lagi, m.a. var nál. meiri hlutans þá undirritað af fulltrúa Alþfl. í landbn. Þessu greindi ég frá áðan. Síðan kannast menn við ferlið í fyrrasumar og fyrrahaust allt til jóla og þar var formaður landbn. hvergi á ferli. Það var ekki hann sem veitti heimild fyrir tollafgreiðslu á kjúklingalærum á Keflavíkurflugvelli, svo dæmi séu nefnd, né hafði sérstök áhrif á það

t.d. gagnvart stórfyrirtækjum hér í bænum að það yrði hafinn innflutningur af þessum toga. Það var ekki formaður landbn. sem egndi til ófriðar að þessu leyti.
    Það frv. sem var lagt fram og er til umræðu og er tilefni til breytinganna á 72. gr. var ekki flutt af formanni landbn. En það var skýrlega um það talað, m.a. í þingflokki Sjálfstfl., m.a. af forsrh., að það væri fullkomlega eðlilegt að leiðrétta þá annmarka sem þegar voru komnir fram á löggjöfinni. Þetta eru staðreyndir málsins í þessum efnum. Það er svo aðeins við þetta því að bæta, sem hv. alþm. er væntanlega öllum ljóst, að á milli stjórnarflokkanna er ágreiningur um þessi efni. Það hafa fleiri stjórnmálaflokkar, held ég, lent í því í samstarfi við Alþfl. Ég vona satt að segja, ef menn ætla að komast hjá brotlendingu þegar málið verður tekið til meðferðar næst í þinginu, að menn hafi þá fengið þá reynslu af þessari umræðu sem leiðir til þess að tillögur verði með þeim hætti að þær þjóni þeim íslensku hagsmunum sem við viljum sérstaklega leggja til grundvallar. Ég trúi því að eftir að málið hefur verið upplýst með þessum hætti, m.a. með nál. hv. þm. Gísla Einarssonar, átti menn sig á því að það verði ofraun fyrir ríkisstjórnina að ætla að taka þriðju lotuna í ágreiningi um þetta mál þegar það verður tekið til umfjöllunar og afgreiðslu síðar á þessu ári.
    Að síðustu vil ég bara rétt undirstrika það, sem hefur komið hér fram hjá hæstv. landbrh. og reyndar líka hjá hæstv. forsrh. að í þessum efnum er best að haga málum þannig að menn kunni fótum sínum forráð. Það er alveg ljóst að þegar fjallað verður um staðfestingu á væntanlegu GATT-samkomulagi þá þurfa þessi mál að liggja skýrlega fyrir því það gæti farið svo að það hefði áhrif á afstöðu manna til málsins ef svo væri ekki. Þetta vildi ég allt saman taka fram í þessum efnum um leið og ég lýk máli mínu, virðulegi forseti.