Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 02:07:44 (5166)


[02:07]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Það eru vonbrigði okkur þingmönnum, a.m.k. þeim sem hér talar, ef ekki er hægt að ræða við forseta þingsins með rökum um atburði sem hafa gerst í starfi þingsins. Maður fær bara aftur og aftur sömu þuluna um að það hafi verið ákveðið einhvern tímann og einhvern tímann við allt aðrar aðstæður snemma í dag að stefna að því að ljúka þessari umræðu. Það er ekki hægt að bera á móti því að það hafa orðið stórpólitísk tíðindi í þessum umræðum, stórpólitísk tíðindi þar sem ágreiningur stjórnarflokkanna hefur kristallast og aldrei með skýrari hætti en undir lokin í umræðunni eftir hörð orðaskipti ráðherra í dag og kvöld og skeytasendingar stjórnarliða þá kristallast ágreiningurinn hér undir lokin þannig að hann er alveg skýr, grundvallarágreiningur stjórnarflokkanna um málin. Þess vegna er það að mínu mati vel rökstudd ósk að umræðunni verði ekki lokað þannig að það sé enn svigrúm til þess að flytja brtt. við 2. umr. málsins og draga þær sem fyrir liggja til baka eftir atvikum.
    Nú þarf vonandi ekki að fara yfir það hjá hæstv. forseta að það er ekki hægt að koma við brtt. við umræðu máls eftir að henni lýkur. ( Landbrh.: En við 3. umr.) Já, en þá kemur að því sem hér hefur verið bent á að nú fara mál einungis í gegnum þrjár umræður í þinginu og það er eðlilegt að reyna að stefna að efnislegri atkvæðagreiðslu um einstök atriði mála við 2. umr. Vegna þess að við 3. umr. eru málin borin upp í heild sinni. Það þarf ekki að rökstyðja að það er auðvitað langeðlilegast að gera það. ( Landbrh.: Brtt. eru bornar fram sérstaklega.) Mér er það líka í huga, hæstv. forseti, að með því megi afstýra

því að fara að láta menn ganga til afgreiðslu og atkvæðagreiðslna um það sem fyrir liggur í málinu. Ég held að það sé nokkuð í húfi hvað það snertir ef mætti verða eitthvað til að afstýra því að þingið þurfi að ganga við þessar aðstæður til atkvæðagreiðslu um málið.
    Ég spurði að því í dag hvorn skilninginn alþingismenn eiga að styðja með því að greiða málinu atkvæði sitt. Skilning Egils Jónssonar hv. þm., eða skilning Gísla S. Einarssonar hv. þm. ( GE: Minn, minn.) Hvort eru þeir að styðja túlkun landbrh. eða utanrrh.? Átta menn sig á því í hvaða aðstæður á að fara að setja þá? Gerir hæstv. forseti sér grein fyrir því að það er á þessum grundvelli sem við erum að rökstyðja beiðni okkar um að umræðunni verði nú frestað. Það er ekki til þess að hér standi til viðbótar löng umræða um málið, enda erum við flestir búnir með okkar ræðurétt, heldur eingöngu til þess að málið verði opið fram á morgundaginn. Þess vegna væri ég tilbúinn til að semja um það að síðan mundi þeirri umræðu ljúka á korteri ef því væri að skipta. En hún væri höfð opin þannig að svigrúm gæfist til að meta nýjar forsendur í málinu og eftir atvikum hugsanlega bregðast við þeim. Mér finnst þetta hógvær ósk og ég er satt best að segja sannfærður um að ef forseti vor mundi nú hugleiða málið þá gæti hann ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að það væri skynsamlegt og stjórnarflokkunum reyndar sjálfum fyrir bestu að verða við henni.