Arðgreiðslur SR-mjöls hf.

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 13:41:24 (5177)


[13:41]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég skil vel að menn eru viðkvæmir sem hafa sofið lítið í nótt vegna umræðna sem áttu sér stað hér langt fram eftir nóttu og skil það vel að menn séu dálítið órólegir og vilji fá svör.
    Ég vil í fyrsta lagi segja frá því að þetta mál er að dálitlu leyti viðkvæmt vegna þess að það hefur birst stefna í málinu og það kann að fara svo að það sem ég segi hér verði notað gegn mér í réttinum þannig að ég verð að tala dálítið gætilega um þetta mál og vona ég að hv. þm. skilji það.
    Ég vil í fyrsta lagi segja frá því að það var gert ráð fyrir því í verðinu á fyrirtækinu að það mundi hagnast á sl. ári og það er ekkert óeðlilegt við það að fyrirtækið skili eigendum sínum arði.
    Í öðru lagi vil ég geta þess að það voru uppi hugmyndir um að fara af stað með efnahagsreikning fyrirtækisins öðruvísi en niðurstaðan varð. Málið var kannað af endurskoðendum sem vel þekkja til verka, en það er rétt sem ýjað var að í fyrirspurninni að það urðu nokkrar deilur um það hvernig átti að stilla upp efnahagsreikningnum. Þetta varð niðurstaðan sem menn þekkja og við því er ekkert að segja. Það hefur hins vegar kannski tiltölulega litla þýðingu þegar rætt er um skatta. Það sem hefur aðallega þýðingu er að við áttum okkur á því að fyrirtækið hefði ekki borgað skatta ef það hefði verið í opinberri eign, en borgar skatta þegar það er komið í einkaeign. ( Gripið fram í: Nei.) Það gerir það í prinsippinu. Það kann hins vegar að hafa áhrif á skattgreiðslur hvernig efnahagsreikningnum er stillt upp eins og hv. þm. veit.