Arðgreiðslur SR-mjöls hf.

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 13:46:23 (5180)


[13:46]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil fullvissa hæstv. fjmrh. um að ég er prýðilega sofinn, svaf vært eftir umræðurnar í nótt, en það kann að vera að einhverjir stjórnarliðar hafi átt ónotalegar draumfarir eftir þau orðaskipti sem hér fóru fram.
    Í öðru lagi held ég að hæstv. fjmrh. ætti ekki að taka það að sér að kenna öðrum mönnum bisniss. Er þetta ekki sami hæstv. fjmrh. og hafði það að stefnumáli að selja Búnaðarbankann á hálfvirði? Og er þetta ekki sami hæstv. fjmrh. sem hefur staðið fyrir einkavæðingaraðgerðum ríkisstjórnarinnar sem hafa afhent hvert fyrirtækið á fætur öðru á silfurfati með bullandi meðgjöf? Og er það góður bisniss að selja fyrirtæki sem er með 1.311 millj. kr. í eigið fé samkvæmt ársreikningi á 725 millj. þegar svo nýju kaupendurnir geta að stórum hluta látið fyrirtækið borga sig sjálft með arðgreiðslum og skattafrádráttum sem ríkið er búið að leggja þeim upp í hendur? Og er það góður bisniss fyrir ríkið að taka á sig á sjöunda hundrað millj. kr. áður en það selur fyrirtæki og fá ekkert út úr sölunni? Ég held, hæstv. fjmrh., að einkavæðingarsnillingar ríkisstjórnarinnar ættu ekki að reyna að kenna öðrum mönnum bisniss, hæstv. forseti.