Arðgreiðslur SR-mjöls hf.

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 13:47:48 (5181)


[13:47]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að þetta fyrirtæki var selt eins og fram hefur komið með afskaplega eðlilegum hætti. Það var auglýst til sölu og það voru umsækjendur um þá sölu og það var farið eftir reglum sem voru birtar og það tók þetta að sér fyrirtæki sem er þekkt fyrir það að vanda sinn undirbúning. Þetta liggur allt fyrir. Það er alveg öruggt mál að sá aðili sem tók að sér að selja fyrirtækið fyrir ríkið hefur meira vit á viðskiptum heldur en hv. þm. þó að ég ætli ekkert að væna hann um það að hann hafi ekkert vit á bisniss, þá hugsa ég að þeir hafi það a.m.k. betra.
    Það liggur líka fyrir að þetta fyrirtæki sem um ræðir hefur ekki safnað stórum eignum í gegnum tíðina vegna stórkostlegs gróða. Það hefur ekki borgað mikla skatta, en væntanlega mun fyrirtækið gera það í framtíðinni. (Gripið fram í.) Hv. þm., ef hann getur eitt andartak setið á sér og hætt að kalla hérna fram í, ætti líka að vita það þegar hann segir hvað sé góður bisness og slæmur, hann ætti að átta sig á því að það er hægt að rifja ýmislegt upp úr hans embættisfærslu sem sýnir það að ríkissjóður hefur ekki alltaf hagnast á hans gjörningum.