Veiting dýralæknisembætta

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 13:49:07 (5182)


[13:49]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég beini spurningu til hæstv. landbrh. um það hvort fyrirhugaðar séu einhverjar breytingar á umdæmaskipan dýralæknisembætta í landinu. Nú veit hæstv. ráðherra að ekki hefur verið ráðið í embætti dýralæknisins á sunnanverðum Vestfjörðum og reyndar ekki einu sinni auglýst nú í 2--3 ár. Því hefur verið svarað til að þetta væri allt saman í skoðun, það standi jafnvel til að stækka embættin, umdæmi embættanna. En hinn 1. febr. sl. rann einnig út umsóknarfrestur um starf dýralæknis í Borgarnesi og það hefur enn ekki verið ráðið í það þó að einn og hálfur mánuður sé liðinn síðan og því spyr ég: Er ekki fyrirhugað að veita þetta embætti fljótlega og gildir ekki enn sú punktaregla sem hefur verið viðhöfð um veitingu dýralæknisembætta?