Fjárskortur sjúkrastofnana 1994

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 13:53:33 (5187)


[13:53]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Það liggur ekkert fyrir um tillöguflutning af þessu tagi. Vegna staðhæfinga hv. fyrirspyrjanda, hv. þm. Svavars Gestssonar, um vöntun upp á fleiri hundruð millj. kr. þá er það orðum aukið. Það er hins vegar alveg ljóst og var ljóst við fjárlagagerðina í desember sl. að stóru sjúkrahúsin í Reykjavík höfðu áhyggjur af því að naumt væri skammtað. Það er ekkert nýtt og verður sennilega ævinlega til staðar. Hitt vil ég gjarnan upplýsa að tillaga mín til verkaskiptingar stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík og þróun þeirra mála er nú til umfjöllunar hjá ríkisstjórninni og mun væntanlega verða kunngerð innan mjög skamms tíma. Þar er t.d. tilflutningur verkefna og þar á meðal framtíð barnadeildar sem er núna hýst í Landakotsspítala.
    Ég vil enn fremur minna á það að óskiptum lið upp á 200 millj. kr. er enn óráðstafað til stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík í samræmi við þennan tilflutning og aðra starfsemi spítalanna og munu tillögur þar að lútandi koma frá ráðuneytinu og verða kunngerðar í samráði við fjárln. eins og forsendur fjárlaga gera ráð fyrir.