Tvíhliða viðræður um stöðu Íslands gagnvart Evrópubandalaginu

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 14:02:53 (5197)


[14:02]
     Jón Kristjánsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin þó að það hefði vissulega verið áhugaverðara að spyrja hæstv. utanrrh. sem er kominn í salinn. En ég vil vekja athygli á því að það kom ekki hreint svar við minni spurningu hvenær tvíhliða viðræður mundu hefjast að öðru leyti en því að hæstv. forsrh. sé á förum til Evrópubandalagsins. Hér var samþykkt fyrir ári síðan um það bil eða tæpu ári með góðu samkomulagi á Alþingi ályktun þar sem ríkisstjórninni var falið í ljósi þess að EFTA-ríkin hefðu sótt um aðild að Evrópubandalaginu að undirbúa tvíhliða viðræður um stöðu Íslands í ljósi þessara aðildaumsókna. Ég hef ekki orðið var við að ríkisstjórnin hafi gert neitt annað en biðja Háskóla Íslands að athuga kosti og galla aðildar að Evrópubandalaginu. Ég vil benda á og við höfum betri tíma til að ræða það á morgun að það er ætlast til þess að þingsályktanir séu framkvæmdar en það sé ekki reynt að skjóta sér undan því.