Framleiðsla og sala á búvörum

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 14:45:09 (5214)


[14:45]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil gefa þá skýringu á mínu atkvæði að ég styð þessa vísun milli umræðna í trausti þess að landbn. og hinn nýi meiri hluti hennar, sem við setjum nú allt traust okkar á, muni taka þetta mál til rækilegrar skoðunar, bæði þau misvísandi nefndarálit sem hér liggja fyrir, en þó er ekki síður nauðsynlegt að fá útskrift af umræðum í gær, í nótt og á fimmtudaginn var og þar á meðal afdráttarlausum yfirlýsingum hæstv. ráðherra sem ganga gersamlega til gagnstæðrar áttar um það hvað felist í hinum nýsamþykkta lagatexta. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að fá álit hlutlausra, sérfróðra aðila á því hver réttarstaðan sé, ef til árekstra kæmi eða dómsmála kæmi í ljósi fyrirliggjandi gagnstæðrar túlkunar á lagatextanum. Það er ekki nokkur leið að sætta sig við það eftir allt sem á undan er gengið í þessum málum og allri þeirri umfjöllun sem orðin er um frammistöðu löggjafans og stjórnsýslunnar í landbúnaðarmálunum annað en að unnið verði með sómasamlegum hætti að þessu máli og til þess þarf tíma og skoðun nú milli umræðna.