Vátryggingastarfsemi

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 15:29:33 (5218)


[15:29]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér liggur fyrir, sem er 450. mál þingsins, er viðamikið mál og þekkt frá fyrri þingum að nokkru leyti, en þó er það nú í talsvert nýjum búningi. Það er augljóst mál að fyrir utan almenn atriði sem hér þarf að taka til umræðu, þá eru menn að stíga hér skref til verulegra breytinga á íslenskri löggjöf vegna aðildar Íslands að hinu Evrópska efnahagssvæði og margt er þar forvitnilegt og sérkennilegt.
    Í framsöguræðu hæstv. heilbr.- og trmrh. komst hann þannig að orði að það hefðu borist athugasemdir frá eftirlitsstofnun EFTA þar sem ekki hefðu verið sett ný lög um vátryggingastarfsemi hér á landi. Mér þykir þetta satt að segja nokkuð merkileg tíðindi og vil biðja hæstv. heilbr.- og trmrh. um að gera gleggri grein fyrir því í hverju þessar athugasemdir fólust, athugasemdir við hvað nákvæmlega komu frá eftirlitsstofnun EFTA. Ég vil líka spyrja að því hvort hæstv. ráðherra sé kunnugt um að á öðrum sviðum stjórnsýslunnar séu þegar farnar að berast athugasemdir frá eftirlitsstofnun EFTA af þessu tagi. Satt að segja finnst mér það mjög merkilegt ef það er svo að menn séu svo fljótir til á þeim vettvangi að núna þegar liðnir eru tveir og hálfur mánuður af árinu 1994 skuli þegar farnar að koma inn athugasemdir frá sjálfri eftirlitsstofnun EFTA.
    Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hæstv. ráðherra geri grein fyrir því hvernig á því stendur að þessar athugasemdir séu farnar að koma og alveg nákvæmlega um hvað þessar athugasemdir voru. Ég held að það sé nauðsynlegt að bæði þingið og hv. þingnefnd sem fjallar um þetta mál fái málið til skoðunar með hliðsjón af þessu sérstaklega.
    Það er einnig mjög athyglisvert að lesa einstakar greinar frv. og sjá hvernig það er. Það er verið að þýða erlendar tilskipanir og þýðingarnar ganga í gegn. Hér eru atriði sem á að taka í tryggingalöggjöfina sem engum lifandi manni hefur nokkru sinni dottið í hug að nefna á nafn í löggjöf á Íslandi. T.d. er gert ráð fyrir því í þessu frv. að það megi hafa sérstaka grein vátrygginga starfrækta á Íslandi sem eru húftryggingar skipa og báta sem nái m.a. til síkjabáta, báta sem fara eftir síkjum. Mér fyndist fróðlegt ef hæstv. ráðhera vildi upplýsa mig um hvort það er endilega nauðsynlegt að vera með ákvæði um síkjabáta sem eru fágætir á Íslandi síðan Vanadísin fór 1. apríl forðum upp Ölfusá að Selfossi undir skipstjórn Stefáns heitins Jónssonar fréttamanns. Ég held að það sé eina dæmið um síkjabáta í sögu Íslands. Ég geri ekki ráð fyrir því að starfsmenn heilbrrn. séu svo miklir húmoristar þó þeir séu skemmtilegir að vera beinlínis að leggja það til að tryggðir séu bátar sem bara sigla 1. apríl upp að Selfossi eða hvað er hér eiginlega á seyði? ( Gripið fram í: Ölfusá er ekki síki.) Nei, en ég var bara að reyna að finna eitthvað, hv. þm., sem gæti verið hliðstætt þessu. ( Heilbrrh.: Það eru líka járnbrautalestir í þessu frv.) Járnbrautalestir? Spurningin er sem sagt hvort það er nauðsynlegt að hafa þessi ákvæði í frv. varðandi síkjabátana alveg sérstaklega.
    Ég vil einnig benda á það að í frv. eru krónur ekki lengur gildar reikningseiningar enda eru krónur auðvitað gömul og hallærisleg fyrirbrigði og ættaðar eins og kunnugt er frá danska kónginum og eiga rætur að rekja a.m.k. orðafarslega til kórónu hans. Í 33. gr. frv. er ekki gerð tillaga um það að einingar séu í krónum taldar heldur er allt reiknað út í eins og stendur í frv. ECU, sem á íslensku ætti auðvitað að bera fram ,,esu``, en ég geri ráð fyrir því að á þessari evrópulatínu sem menn vilja að sé töluð hér þá er þetta kallað því nafni ,,ekju`` upp á franska tungu þar sem u-ið verður kringt í framburði. Ég kann satt að segja ekki að meta þetta og vil beina því til hv. nefndar, sem ég sit ekki í, að kanna það hvort ekki mætti hugsa sér að breyta þessu þannig að þarna verði tekin upp íslensk reikningsviðmiðun úr því að menn eru að burðast með krónuna enn þá.
    Ég geri t.d. ráð fyrir því að í tryggingalögum í Stóra-Bretlandi sé enn þá svo langt gengið að menn leyfi sér að tala um sterlingspund. Og ef ég þekki Þjóðverja vini mína rétt, þar sem ég á marga vini og kunningja, geri ég ráð fyrir því að þeir tali gjarnan um mörk.
    Það er því spurning hvort ekki mætti skoða þetta og þetta nefni ég hér, virðulegi forseti, fyrst og fremst vegna þess að það er svo bersýnilegt að hér eru óíslenskar aðstæður að móta löggjöf. Hér er verið að taka við tilskipunum annars staðar að frá öðrum aðilum en þeim sem hafa ráðið úrslitum um tryggingalöggjöf eða aðra löggjafarstarfsemi yfirleitt í landinu á undanförnum árum og ég tala ekki um áratugum. Hér er verið að ganga inn í hinn nýja fjölþjóðlega heim sem meiri hluti Alþingis samþykkti á síðasta þingi og ég geri ráð fyrir því að menn séu reyndar ekki búnir að sjá fyrir endann á hvaða afleiðingar hefur fyrir Íslendinga.
    Varðandi frv. að öðru leyti má ýmislegt um það segja. Hér eru á ferðinni drög að nýrri grundvallarlöggjöf um vátryggingastarfsemina í heild á Íslandi. Það hefur áður verið gerð atlaga að slíku verki, ég hygg reyndar í fyrsta sinn svo marktækt sé, 1973. Og 1978 var sú löggjöf endurskoðuð og má segja að við höfum búið við ágætlega trausta löggjöf í þessu efni þó svo að menn hafi talið um nokkurt skeið að það væri eðlilegt að endurskoða hana. Ég er sammála því því að á þessu sviði, eins og öðrum sviðum viðskipta, hafa orðið gríðarlega miklar breytingar.
    Þessi frumvarpsdrög, sem hafa verið til meðferðar í ráðuneytinu um nokkurt skeið, ég hugsa um nokkurra missira eða ára skeið, eru svo, eins og ég hef getið um þegar, endurskoðuð með hliðsjón af þeim tilskipunum, eins og það heitir líka sem er reyndar ættað frá kónginum, tilskipanir, sem samþykktar hafa verið á vegum hins Evrópska efnahagssvæðis. Ég hygg að hér sé fyrst og fremst um það að ræða að menn hafi verið að aðlaga þetta að skaðatryggingatilskipuninni nr. þrjú sem er þriðja kynslóð tilskipana á tryggingaréttasviðinu.
    Mér er kunnugt um það að fjölmargir aðilar hafa komið að undirbúningi þessa frv., m.a. Samband íslenskra tryggingafélaga og fleiri aðilar og ég tel mikilsvert að þannig er að málinu staðið og ég tel ástæðu til að þakka heilbrrn. og hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir að standa þannig að málum að hagsmunaaðilar hafa verið dregnir inn í meðferð málsins á undirbúningsstigi þess. Ég tel það til fyrirmyndar en hygg að það sé út af fyrir sig ekki nýbreytni sem hefur verið tekin upp í tíð núv. heilbrrh. heldur sé það siður sem hafi tíðkast alllengi í því ráðuneyti en er hins vegar sjaldgæfari í seinni tíð í ýmsum öðrum ráðuneytum.
    Hér er um gríðarlega miklar breytingar að ræða frá því sem verið hefur í löggjöf og m.a. er gert ráð fyrir því að lögin um vátryggingastarfsemi verði að magni til tvisvar sinnum stærri, a.m.k. að greinarfjölda, en gömlu lögin. Hér er því um gríðarlega mikið frv. að löggjöf að ræða og þess vegna nauðsynlegt að skoða það mjög rækilega í þessari virðulegu stofnun.
    Það er eitt og annað sem væri ástæða til að fara sérstaklega yfir, virðulegi forseti, en ég ætla þó að staldra bara við örfá atriði núna. Í fyrsta lagi það að gert er ráð fyrir því samkvæmt frv. að eftirlitsstjórnvöld þess ríkis þar sem vátryggingafélag hefur aðalstöðvar hafi eftirlit með allri starfsemi félagsins á Evrópsku efnahagssvæði. Þetta er það sem kallað er eftirlit heimaríkis og hæstv. ráðherra gerði ítarlega grein fyrir í greinargóðri ræðu sinni hér áðan. Hér er um að ræða verulegt nýmæli sem leggur talsverðar byrðar á þau eftirlitsstjórnvöld sem við höfum hér á landi. Þetta gerir það að verkum að okkar eftirlitsstjórnvöld þurfa að búa sig undir það að eiga náið, að ég segi ekki meira, samráð við eftirlitsstjórnvöld annars staðar að á hinu Evrópska efnahagssvæði. Ég tel ekkert nema gott um það að segja og eðlilegt að menn reyni að koma þessu eins skynsamlega fyrir og mögulegt er en þetta er eitt allra stærsta atriðið í þessu frv. að mínu mati og ég vil fyrir mitt leyti hvetja til þess að menn vandi sig eins og kostur er við að ganga frá því.
    Annað atriðið sem ég vil sérstaklega nefna og tel fulla ástæðu til að skoða vandlega, m.a. með hliðsjón af annarri löggjöf á Íslandi og þá sérstaklega bankalöggjöfinni, er sú heimild sem hér er gert ráð fyrir, að vátryggingafélög taki þátt í eða reki hliðarstarfsemi af ýmsu tagi m.a. fjármálastarfsemi. Það má hugsa sér að þessir aðilar reki verðbréfafyrirtæki eða eigi hlut í verðbréfafyrirtækjum. Ég minnist þess að þegar við ræddum um þessi mál hér að frumkvæði hæstv. viðskrh., sem þá var sá sæli Jón Sigurðsson sem hér sat um skeið eins og kunnugt er, þá nefndum við það nokkrir þingmenn hvort ekki væri hugsanlegur hlutur að fjármálaþjónusta á öllum sviðum væri í einni löggjöf en ekki sundurgreind í marga lagabálka eins og hér horfir til að verði.
    Ég held að menn megi ekki í þessu sambandi horfa bara á vátryggingaeftirlitið vegna þess að hér eru þeir möguleikar uppi að starfsemi vátryggingaeftirlitsins skarist á einhvern hátt við starfsemi bankaeftirlitsins, sem á að hafa eftirlit með því hvernig bankar standa, m.a. fjárhagslega. Ég held þess vegna að það sé nauðsynlegt að skoða það mjög rækilega hvort ákvæði okkar laga um bankaeftirlitið, eins og þau eru nú, ríma við þær tillögur sem hér er verið að gera varðandi vátryggingastarfsemina og heimild hennar til þess að eiga í öðrum eignum.
    Í þriðja lagi varðandi einstök atriði sem ég vil vekja sérstaka athygli á eru iðgjöld. Það er þannig, ef ég man rétt, í gildandi lögum að opinberir aðilar hafa eða geta haft með það að gera hver iðgjöld eru. Það var í fyrri tíð þannig að ráðherrar réðu því meira og minna hvernig iðgjöld tryggingafélaganna breyttust. Sem betur fer er sennilega búið að taka þennan kaleik í meginatriðum frá ráðherrum því þetta var ekki einfalt verk. Nú er hins vegar gert ráð fyrir því að þetta verði alfarið á markaðinum þannig að tryggingafélögin ráða því algjörlega hvaða iðgjöld þau hafa, auðvitað innan þess ramma sem lögin setja, þessi lög og reyndar önnur lög sem þarna er um að ræða, en þetta er gríðarlega mikil breyting. Við þekkjum frá undanförnum árum þá geysilegu umræðu sem oft hefur verið um iðgjöld bifreiðatrygginga. Sú umræða hefur ekki alltaf verið mjög vísindaleg, satt best að segja, en engu að síður held ég að það sé nauðsynlegt fyrir menn að átta sig á því að það er komið að kaflaskilum í þessu efni. Ef þetta frv. verður að lögum þá hafa stjórnvöld ekki á sama hátt og áður vald yfir iðgjöldum tryggingafélaga. Það er tekið af stjórnvöldum með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir og það er gríðarleg breyting, að ég segi ekki bylting, í starfsemi tryggingafélaganna í landinu.
    Í fjórða lagi vil ég svo nefna það atriði hér sérstaklega sem lýtur að neytendamálunum og upplýsingaskyldu vátryggingafélaga. Þar tel ég að sé hreyft mjög merkilegum nýmælum og ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því --- ég heyrði ekki hvort það kom fram í ræðu hans, það gat hafa farið fram hjá mér --- hvort þessi mál hafa sérstaklega verið skoðuð í samvinnu við Neytendasamtökin, en í öðrum löndum er það þannig samkvæmt grg. frv. að þar mun vera, a.m.k. á Norðurlöndum, sérstök neytendalöggjöf á sviði vátrygginga. Ég vil spyrja ráðherrann að því hvort það er hugsanlegur hlutur að það verði skoðað sérstaklega í hv. heilbr.- og trn. að setja sérstaka neytendalöggjöf á sviði vátrygginga. Ég tel skynsamlegra að hafa það sérstaka löggjöf fyrst og fremst vegna þess að þar kann að vera nauðsynlegt að taka tillit til annarra hagsmuna og sjónarmiða en þeirra sem eru kannski talin óhjákvæmileg vegna hagsmuna tryggingafélaganna, hagsmuna tryggingatakanna og vegna samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Neytendalöggjöf á þessu sviði ætti að vera sérstakt og sjálfstætt mál og þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra um hana sérstaklega.
    Að lokum mun það vera svo, ef ég skil það rétt, að í frv. er gert ráð fyrir því að á Íslandi fari af stað tryggingamiðlarar, sem er nýjung og hefur ekki verið áður. Ég sé enga þörf á því að setja lög fyrir tryggingamiðlara, þeir hafa ekki verið mikið í gangi í landinu og er svo sem bættur skaðinn. En það getur verið að menn séu hérna að uppfylla allar þessar Evróputilskipanir sem menn eru með hugmyndir um að aðlaga okkar tryggingalöggjöf að en ég sé í sjálfu sér ekki að það sé endilega nauðsynlegt að setja á þessi ákvæði um tryggingamiðlara.
    Þegar samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði var settur í gang á sínum tíma þá töluðu menn mikið um það að ein megingæfan yrði sú að eftir aðild að honum gætu menn verið með viðskipti við hvaða tryggingafélag sem væri og það væri alveg sérstök gæfa að geta verið með viðskipti við tryggingafélög niðri í Róm eða Hamborg. Það voru skrifaðar um það langar greinar, m.a. forustugreinar í Alþýðublaðið, stórblaðið það, og Morgunblaðið, enn þá stærra blað, hvað það væri mikil gæfa fyrir þjóðina að geta tryggt sér svo að segja alveg taumlaust frelsi á tryggingamarkaðinum eftir að menn væru orðnir aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði. ( Heilbrrh.: Kom ekkert í Þjóðviljanum um þetta?) Nei, enda kom hann lítið út eftir að þetta hófst.
    Niðurstaðan er svo sú, hæstv. forseti, að það er enginn ávinningur fyrir hina almennu tryggingataka á Íslandi í þessu EES-máli, ekki minnsti. Það er ekkert í þessu EES-máli sem hefði ekki verið hægt að tryggja tryggingatökum á Íslandi jafnvel með sjálfstæðum hætti utan aðildar að hinu Evrópska efnahagssvæði. Sú beita, sú gulrót sem átti að nota og var notuð í stórum stíl í alls konar greinum, ég man eftir einum langhundi í Lesbók Morgunblaðsins um þetta mál, reynist því allt saman vera tóm vitleysa vegna þess að auðvitað verða tryggingafélög að starfa eftir tilteknum viðskiptareglum, m.a. til að tryggja það að allir tryggingatakar eigi örugga hagsmuni.
    Að lokum, virðulegi forseti, það frv. sem hér var mælt fyrir af hæstv. heilbrrh. mun vera hluti af frumvarpasmíð sem í gangi er á vegum hæstv. ríkisstjórnar og í framhaldi af máli mínu vil ég spyrja hæstv. heilbrrh. tveggja spurninga.
    Í fyrsta lagi: Hvenær er þess að vænta að frv. um brunatryggingar fasteigna á Íslandi, sem komi í stað laga um brunatryggingar í Reykjavík og utan Reykjavíkur, sjái dagsins ljós á Alþingi?
    Í öðru lagi: Hvenær er þess að vænta að frv. til breytinga á lögum um Brunabótafélag Íslands komi hingað í þingið? Vegna þess að það er augljóst mál að það er óhjákvæmilegt að öll þessi tryggingastarfsemi verður tekin til heildarskoðunar núna, m.a. með hliðsjón af ákvæðum þessa frv. Þó hefðum við getað lifað ágætu lífi nokkuð vel við þessi lög, mikið til eins og þau eru, um margra ára skeið í viðbót ef ekki vildi svo til að meiri hluti Alþingis hefði samþykkt að setja okkur inn í hið Evrópska efnahagssvæði og ef ekki vildi svo til að farið væri að snjóa inn athugasemdum frá eftirlitsstofnun EFTA vegna þess að við séum ekki nógu nútímaleg í tryggingalöggjöf í þessum efnum.