Rannsóknarráð Íslands

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 11:26:54 (5227)


[11:26]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson hefur þann kost umfram marga þingmenn að hann er vanur að tala mjög skýrt. Ég hlustaði með nokkurri eftirvæntingu eftir skoðunum hv. þm. sem eru mikilvægar að því leyti til að þar fer fyrrv. menntmrh. og sá maður sem væntanlega hefur að nokkru leyti forustu fyrir stjórnarandstöðunni í þessu máli. (Gripið fram í.) Að nokkru leyti a.m.k. fyrir sinn flokk, vænti

ég, virðulegir þingmenn.
    Hér er verið að ræða frv. sem brýtur í blað. Hér er í rauninni verið að stokka upp vísinda- og rannsóknastefnu íslensku þjóðarinnar. Hér liggur fyrir frv. sem er byggt á mikilli vinnu erlendra og innlendra sérfræðinga og það nýtur held ég afgerandi stuðnings íslenska vísindasamfélagsins. Samt sem áður er það svo að hv. þm. Svavar Gestsson, sem bersýnilega hefur kynnt sér frv. mjög vel, kemur upp og það sem hann hefur fram að færa eru einungis smávægilegar athugasemdir sem varða einstaka minni þætti. Það kemur ekkert fram í máli fyrrv. menntmrh., hv. þm. Svavars Gestssonar, sem varðar meginþætti frv., þ.e. að hér er lagt til að Vísindaráð og Rannsóknaráð verði sameinað undir einn hatt. Hér er líka lagt til að lögfest verði rannsóknatengt framhaldsnám við Háskóla Íslands sem getur orðið aðdragandinn að meistaraprófi og doktorsprófi við íslenskan háskóla. Hér er líka lagt til að það verði settar upp stöður rannsóknaprófessora, mál sem íslenska vísindasamfélagið hefur barist fyrir mjög lengi. Hér er líka lagt til að sett verði upp fagráð innan einstakra vísindasviða, mál sem er mjög þarft og mjög brýnt. Hér er líka lagt til að það verði gengist fyrir mati á árangri rannsóknastarfsemi. Með öðrum orðum, virðulegi forseti, hér er verið að gera vísindastarfsemi á Íslandi miklu straumlínulagaðri, miklu hnitmiðaðri heldur en fyrr og ég spyr: Hvaða skoðun hefur hv. þm. Svavar Gestsson á þessum grundvallarbreytingum sem verið er að gera? Það er eftir því leitað.