Rannsóknarráð Íslands

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 11:33:09 (5231)


[11:33]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla að geyma mér þar til í síðari ræðu að svara beinum fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint og kannski að gera ákveðnar athugasemdir við það sem hér hefur komið fram í ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar. En vegna orða hv. þm. um að nú snjóaði inn frumvörpum frá mér og þau kæmu seint fram þá er það vissulega rétt að ég hef flutt á síðustu dögum fjögur frumvörp sem ég hefði gjarnan viljað koma fyrr fram í þinginu en raun hefur orðið á, en ég legg áherslu á í þessu sambandi að þar er um að ræða frumvörp sem hafa verið mjög vandlega undirbúin og það hefur tekið tíma einmitt það samráð sem haft hefur verið við þá aðila sem sérstaklega eiga við þetta búa. Og þá nefni ég alveg sérstaklega þetta frv. sem hér er nú til umræðu.
    Allt samráð tekur tíma en ég held að það borgi sig þegar upp er staðið og það út af fyrir sig mun spara okkur nokkurn tíma við meðferð málsins á hv. Alþingi og sérstaklega við meðferð málsins í hv. menntmn.