Rannsóknarráð Íslands

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 12:24:15 (5236)

[12:24]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það fer ekki á milli mála að það er ánægjulegt að fá frv. eins og þetta til umræðu á Alþingi Íslendinga. Það hefur aftur á móti oft gerst í sögu þingsins að ráðherrar hafa viljað leggja fram mál sem þeir hafa sagt að væru lögð fram til kynningar vegna þess að þeir vissu að það lifði það stutt eftir af þingtímanum. Í virðingarskyni við Alþingi Íslendinga töldu þeir að það væri rétt að leggja málið fram til kynningar, en fráleitt að láta sér detta í hug að þingið gæti lagt eðlilega vinnu í málið til þess að klára það á því þingi.

    Mér er það ærið umhugsunarefni þegar ég sé frv. eins og þetta hvort mönnum yfir höfuð detti það í hug að hægt sé að gera ráð fyrir því að lög þessi öðlist gildi 1. júlí 1994. Alþingi Íslendinga er nefnilega í ákaflega sérstæðri stöðu, svo sérstæðri að maður spyr sjálfan sig: Hvert stefnir þetta?
    Okkur hefur verið kennt það í skóla að stjórnarfyrirkomulagið á Íslandi sé þingbundin stjórn, sem þýðir að Alþingi Íslendinga ber ábyrgð á ríkisstjórninni og hún er bundin af þinginu. Það er það kerfi sem hér ræður ríkjum. Svo gerist það að ráðherra, hæstv. utanrrh., lýsir því yfir við umræðu að hann hafi gert samkomulag --- og leggur hendur á brjóst sér í staðinn fyrir helga bók --- við ákveðinn ráðherra, í því tilfelli var það landbrh., um að svona skyldi þetta mál vera og þá ætlar einhver maður í þinginu að fara að koma með breytingar. Í því tilfelli var það formaður landbn. Þess vegna er það mín spurning til hæstv. menntmrh.: Lítur hæstv. menntmrh. þannig á þetta mál að það eigi að vinna það í þinginu, eins og ég tel að sé eðlilegt, sem þýðir að það yrði þá farið yfir málið með skipulegum hætti, lögð vinna í það? Eða er það tilfellið að það sé búið að semja um þetta mál á milli stjórnarflokkanna á þann hátt að það sé nánast til málamynda sem eigi að vísa því til nefndar, en í reynd megi nefndarmenn ríkisstjórnarinnar í viðkomandi nefnd eiga von á svívirðingum ef þeim detti í hug að breyta þar einhverju atriði?
    Þetta er raunverulega grundvallaratriði að fá að vita þetta, alveg grundvallaratriði, því að ef niðurstaðan er sú að menn geta leyft sér að koma hér í ræðustól og tala eins og hæstv. utanrrh. gerði, þá búum við við það stjórnarfyrirkomulag að hér er stjórnbundið þing. Þá er stjórnbundið þing. Þá erum við með þing bundið af ríkisstjórninni og það eru bara skrautsýningar að vera með nefndastörf í þessu þingi, hvorki meira né minna. Þá er út af fyrir sig hægt að kalla menn á fund í nefnd með prúðmannlegum hætti, hlusta á hvað þeir hafa að segja, taka ekkert mark á því hvað þeir segja ef þeir telja að einhverju þurfi að breyta heldur afgreiða bara málið nákvæmlega eins og það er.
    Nú veit ég að hæstv. menntmrh., 1. þm. Reykn., er þingreyndur maður. Það er ekki aðeins að hann hafi setið lengi á Alþingi, hæstv. menntmrh., heldur hefur hann einnig stjórnað þingflokki lengi og gerir sér fulla grein fyrir því að allar nefndir þingsins þurfa tíma til að vinna. Í dag er þannig staðið að stjórn þingsins að allir þingflokkar eiga fulltrúa í forsætisnefnd og okkar fulltrúi hefur borið þær óskir fram við þingflokkinn að hann fari að gera sér grein fyrir því að það sé orðið ef seint að flytja mál vegna þess að það lifir svo lítið eftir af þingtímanum. Það er ekkert óeðlilegt þó vakin sé athygli á slíku, ekkert óeðlilegt. Þess vegna tel ég að það sé mjög mikils virði að hæstv. ráðherra geri grein fyrir því hvort þau vinnubrögð sem ég lýsti hér áðan eru hugsuð á þann veg að við búum við þingbundna stjórn eða stjórnbundið þing. Sé það túlkunin að við eigum að búa við stjórnbundið þing, þá eru Íslendingar að þokast frá öllum hefðbundnum leikreglum á Alþingi Íslendinga.
    Ég segi eins og er að efnislega sýnist mér að það sé á margan hátt vel að þessu staðið sem hér er sett fram. Ég tel reyndar eðlilegt að úthlutunarnefndin eigi það ekki undir stjórn þessarar stofnunar hvaða þóknun hún fær fyrir sín störf. Ég tel eðlilegt að ríkisvaldið hafi eina þóknunarnefnd sem ákveði greiðslur fyrir nefndarstörf en það sé ekki sett inn í stofnanir. Ég tel líka að það þurfi að skoða það mjög gaumgæfilega í þessum texta sem hér er þegar kemur að úthlutun. Við vorum að samþykkja mjög vönduð stjórnsýslulög og það er spurning hvort einhver atriði þeirra laga eigi ekki erindi inn í þennan texta. Einnig finnst mér að það sé nokkuð mikil nauðsyn að reyna að setja fyrir þann leka í lagatexta að það sem aðrar þjóðir eru búnar að rannsaka og fyrir liggja vísindalegar niðurstöður um sé ekki verið að sækja um peninga til þess að rannsaka aftur, það sem aðrir telja sig hafa verið búna að fá fulla niðurstöðu með. Ástæðan fyrir því að ég segi þetta er sú staðreynd að í umræðum um tölvubankann, sem er upplýsingabanki á vegum háskólans, hefur það komið fram að menn sem hafa fengið vísindastyrki á Íslandi hafa farið beinustu leið þangað til að kanna hvort búið væri að framkvæma viðkomandi rannsókn erlendis og fá gögnin heim í sínar hendur. Ákaflega skynsamleg vinnubrögð miðað við það að vera búnir að fá peningana en aftur á móti ekki víst að það sé þjóðhagslega skynsamlegt að setja ekki fyrir þann leka. Ég held að það atriði sé eitt af því sem líka eigi að leggja á herðar úthlutunarnefndarinnar. Það er að það fari fram athugun á því, m.a. með aðstoð tölvubankans, hvort vísindaleg rannsókn hefur verið framkvæmd á þeim atriðum sem verið er að leita eftir fjármagni til.
    Þetta segi ég vegna þess að ég hygg að það sé enginn ágreiningur í þessum þingsal um það að við Íslendingar þurfum að standa með sem skipulegustum hætti að því að stunda rannsóknastarfsemi í landinu og við þurfum að verja okkar fé, sem er af skornum skammti, á þann hátt að það nýtist sem best. Og þegar maður hefur fengið svona athugasemdir frá mönnum sem að þessum verkum vinna, eins og ég er að tala hér um, þá held ég að maður geti ekki lokað augunum fyrir því að auðvitað er þetta leið sem hægt er að fara. Það eru menn í öllum stéttum okkar lands, hvaða stétt sem er, sem leitast við að komast með auðveldum hætti frá þeim verkefnum sem þeir eru að glíma við.
    Ég hygg að það sé eitt og annað sem rétt væri að fara yfir í sambandi við þetta frv., sérstaklega þá staðreynd að við erum vissulega núna komnir með háskólanám á Íslandi á nokkrum stöðum, sem betur fer segi ég, og vissa rannsóknastarfsemi. Það leiðir til þess að einhver verkaskipting þyrfti helst að vera milli þessara stofnana. Með því að hafa einn aðila, eins og hér er verið að leggja til, má vissulega heimfæra það með réttu að það ætti að koma í veg fyrir að á tveimur stöðum á Íslandi væri verið að vinna að nákvæmlega því sama. Það er af hinu góða. En ég verð að segja eins og er að miðað við þann málafjölda sem liggur fyrir t.d. í menntmn. og í flestum nefndum þingsins, þá finnst mér að þegar svona mál kemur fram, sem á að vera ástæðulaust að verði eitthvert stórdeilumál, eigi að gæta þeirrar víðsýni að segja sem svo: Þetta mál er lagt fram til kynningar á þessu þingi en við gerum ráð fyrir því að afgreiða það sem lög á haustþinginu t.d., enda miðast fjárlög að sjálfsögðu við næsta ár. Aðalatriði málsins væri þess vegna að þessi stofnun sæi dagsins ljós það tímanlega að hún kæmist inn á næstu fjárlög.