Rannsóknarráð Íslands

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 12:40:30 (5238)


[12:40]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég þakka fyrir það að hæstv. menntmrh. lýsir því hér yfir að ekki sé búið að geirnegla þetta mál þannig að nefndin hefur eðlilegt svigrúm til að koma með athugasemdir. Ég hygg að það sé okkur þó nokkuð umhugsunarefni hvort einmitt þessir þættir varðandi skiptingu fjár, eins og hér er verið að tala um þegar verið er að veita styrki, séu uppbyggðir með þeim hætti að menn séu ekki fyrir fram nánast vanhæfir til að fjalla um málið vegna persónulegra tengsla við þá sem sækja.
    Við höfum fengið mikla gagnrýni á hvernig Alþingi útbjó Kvikmyndasjóðinn. Það hefur leitt til þess að menn hafa deilt um það hvort menn væru ef til vill vanhæfir til að standa að úthlutuninni. Við höfum reynslu af því með fleiri sjóði að það er sótt mjög fast á það að þeir sem eiga að fá féð fái sjálfir að deila því út. Ég held að þessir þættir hljóti að skoðast af enn þá meiri alvöru en oft áður eftir að nýju stjórnsýslulögin tóku gildi og af þeirri ástæðu tel ég að það þurfi að fara út fyrir þann ramma að ræða aðeins við þá sem standa að vísundunum. Ég held að þetta hljóti að kalla á það að þegar svona frv. er afgreitt verði kallað á menn sem eru í stjórnsýslufræðum háskólans til þess að leggja mat á það hvort þessi uppbygging sé með nægilega öruggum hætti til að viðunandi sé.