Rannsóknarráð Íslands

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 12:44:43 (5240)


[12:44]
     Kristín Einarsdóttir :

    Frú forseti. Ég vil eins og aðrir lýsa ánægju minni með það að þetta frv. skuli fram komið, en um leið verð ég að lýsa óánægju minni með að það skuli svo seint fram komið og minnka þannig líkurnar á því að unnt sé að vinna að málinu þannig að viðunandi sé á þessu þingi og það geti verið lögfest fyrir lok þingsins. Það breytir ekki því að það er mjög gott að fá það fram og ég er viss um að hv. menntmn. reynir að vinna að þessu máli með þeim hætti að það geti verið sem fyrst lögfest en vanda á sama tíma yfirferðina. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli.
    Í tilefni orða hv. 2. þm. Vestf. vil ég taka undir það sem hann sagði að mér hefur fundist bera allt of mikið á því hér að frumvörp séu lögð fram og það megi ekki hnika til orði, það sé búið að samþykkja það einhvers staðar annars staðar úti í bæ hvernig frumvörpin eigi að líta út. Hann orðaði það þannig að það væri nánast skrautsýning að vísa því til nefndar og koma því í gegnum þing og ég vil taka undir það. Mér þykir of mikið um slík mál undanfarið og hef ég t.d. þurft að taka þátt í einni slíkri skrautsýningu en að vísu er henni ekki lokið. En það er allt of oft og ég trúi ekki öðru en hæstv. menntmrh. sé sammála því að slík vinnubrögð eru ekki við hæfi og að auðvitað verður þetta unnið í nefnd. Ég er ekki þar með að segja að það þurfi að kollvarpa þessu frv. á neinn hátt heldur er ég bara almennt að segja að á margan hátt finnst mér vel hafa til tekist þó að það sé eðlilegt að það séu nokkrar athugasemdir við frv. Ég get að vísu tekið undir margar þær athugasemdir sem hér hafa komið fram af hálfu þingmanna sem eiga sæti í menntmn. og þar með þarf ég kannski ekki endilega að endurtaka þær þar sem þeirra athugasemdir eru í samræmi við það sem ég hef haft ákveðnar efasemdir um eða athugasemdir við.
    Það sem skiptir hins vegar máli varðandi vísinda- og tæknistefnu Íslendinga almennt er fjármagnið eins og menn hafa hér komið að. Það er mikilvægasti þátturinn og eiginlega alveg sama hversu gott skipulag er á þessum hlutum, þó að það sé auðvitað mjög mikilvægt, fjármagnið er það sem skiptir máli til að eitthvað sé gert.
    Hér hefur verið minnst á launakjör í háskólanum og fjárveitingar til Háskóla Íslands sem er auðvitað undirstaðan og reyndar allt menntakerfið í heild, ekki bara háskólinn. Það þýðir ekki að standa þannig að málum að þeim sem vinna að undirstöðunum sé gert það nánast ókleift.
    Ég hef verið ein af þeim sem hafa stundað rannsóknir og kennslu við Háskóla Íslands og það verður að segjast eins og er að það er stundum ákaflega erfitt að þurfa að vera í þeirri stöðu, ekki síst vegna þess að allt of lítill tími er veittur til þess að stunda rannsóknir og kannski það sem verra er, allt of lítið fjármagn hefur verið veitt til þess, ekki bara til þeirra sem eru með fasta stöðu við háskólann heldur ekki síður til þeirra sem aðstoða við rannsóknir.
    Þá hefur löngum vantað peninga í Vísindasjóð. Það hefur vantað peninga í Vísindasjóð Háskóla Íslands og má segja að Rannsóknasjóður Háskóla Íslands hafi nánast runnið út í sandinn. Það hefur því verið mjög erfitt varðandi alla rannsóknastyrki og kannski ekki síst að það eru pínulitlar upphæðir á hverjum stað. Sjóðirnir sem þarf að sækja í eru mjög margir þannig að það fer gífurlega mikil vinna í það bara að sækja um. Og eitt af því sem ég óttast varðandi þessar 90 millj., sem voru nefndar til Evrópusamstarfsins, er að það verði bara vegna tímaskorts erfitt að sækja í þetta. Það er ekki bara að það vanti peninga á móti og það þurfi aðstöðu hér heima heldur er það líka það að fólk er að sækja um aura hingað og þangað. Þess vegna verður þetta oft og tíðum dálítið erfitt á þeim knappa tíma sem t.d. margir háskólakennarar hafa. Það er kannski ekki síst vegna þess að það hefur verið allt of mikið af því að þeir hafa verið að reyna að sækja sér peninga til að lifa af með því að bæta á sig aukakennslu sem er að mínu mati algerlega óviðunandi. En það er nú einu sinni þannig að launakjörin eru með þeim hætti að það hefur verið eina leiðin til þess að fólk geti lifað af. Þetta segi ég fyrst og fremst til að leggja áherslu á að þó að stjórnkerfið sé gott, þá verður að hafa fjármagn til að standa að rannsóknum.
    Ég vil taka undir það, ég held að það hafi verið hv. 6. þm. Norðurl. e. sem talaði um það, að kröftunum hafi verið dreift. Það er alveg rétt. Kröftunum er ekki bara dreift innan Háskóla Íslands heldur er þeim líka dreift um allar mögulegar rannsóknastofnanir og það hefur oft og tíðum vantað samþættingu þar á milli.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. minntist sérstaklega á að það hafi verið allt of lítið samstarf milli Háskóla Íslands og t.d. Hafrannsóknastofnunar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Það er áreiðanlega alveg rétt þó að ég þekki það ekki neitt sérstaklega, en það má ekki líta svo á að ef skortur er á samráði eða samstarfi, þá sé við háskólann einan að sakast. Það er hins vegar aukaatriði í þessu máli í sjálfu sér.
    Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með það að nú hafi verið ákveðið að búa til eitt vísinda- og tækniráð eins og hér er gert ráð fyrir, þ.e. að sameina Vísindaráð og Rannsóknaráð. Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum það var gert að aðskilja það á sínum tíma vegna þess að mér hefur fundist fáir mæla því bót. En eins og ég segi skiptir kannski ekki öllu máli að horfa til baka heldur verður að horfa fram á við og er ég mjög ánægð með að tillaga hafi komið fram um að sameina þessi tvö ráð. Ég sé að í frv. er talað um tvo sjóði, þ.e. Vísindasjóð og Tæknisjóð í III. kafla frv. og velti því fyrir mér og vil eiginlega beina því til menntmn. að hún kanni sérstaklega hvort ekki sé ástæða til að sameina þessa sjóði.
    Ég vara mjög við því að skipta rannsóknum í hagnýtar rannsóknir og grunnrannsóknir, eins og hefur verið tilhneiging hingað til og reyndar hafa margir talað um það hér. Það er nánast útilokað að gera það. Það er hægt að benda á ákveðnar rannsóknir sem greinilega eru grunnrannsóknir og það er hægt að benda

á ákveðnar rannsóknir sem greinilega eru hagnýtar rannsóknir, en mjög mikinn hluta rannsókna er ómögulegt að flokka niður á þennan hátt. Og í raun og veru verða þær rannsóknir sem hafa verið taldar hagnýtar rannsóknir annars vegar og grunnrannsóknir hins vegar að vera saman. Það er ekki hægt að búa til rannsóknaverkefni, stórverkefni, sem ekki hafa að geyma hvoru tveggja. Það er nánast útilokað ef það á að vera eitthvað af viti. Þar af leiðandi tel ég mjög mikilvægt að þetta sé sameinað og ég held að það sé ekki um grunnrannsóknum til framdráttar að flokka rannsóknir þannig að hafa þær í sitt hvoru lagi. Ég get alveg tekið undir það sem hér hefur komið fram að það vantar kannski skilning á því hversu mikilvægar þessar svokölluðu grunnrannsóknir eru, þ.e. rannsóknir sem ekki er alveg greinilegt að hafi tengingu við eitthvað hagnýtt daginn eftir eða á næsta ári, rannsóknir sem afla almennrar þekkingar sem oft á tíðum --- án þess að menn geri sér grein fyrir þegar verið er að gera áætlun um rannsóknirnar eða meðan á þeim stendur --- kemur mjög fljótlega í ljós að nýtist mjög vel, t.d. beint í þágu atvinnuveganna eða einhverrar nýsköpunar, en talað er um í frv. að verði á sitt hvorum staðnum innan þessara sjóða.
    Ég tel því mjög mikilvægt að kanna hvort ekki sé rétt að sameina sjóðina í einn og að það sé ekki gert með þeim hætti sem hér lagt til. Ég veit að þetta er enn þá stærra skref en stigið hefur verið, en ég tel mjög til athugunar að gera það. Ég veit að tíminn er naumur en ég tel mjög mikilvægt að menntmn. athugi þetta og ef til vill að menntmrn., ef frv. verður ekki að lögum núna, fari sérstaklega í þetta atriði. Ég vil ganga enn þá lengra en frv. gerir ráð fyrir. Ég held að það sé ekki síst mikilvægt með tilliti til samvinnu atvinnulífsins og Háskóla Íslands að þetta verði meira samþætt.
    Eins og aðrir vil ég minnast á 3. gr. sem mér finnst vera dálítið mikill grautur. Það getur vel verið að eitthvað sé hægt að skilja þann graut og komast að betri niðurstöðu en mér sýnist þarna vera. Ég sé að samkvæmt athugasemdum við frv. er gert ráð fyrir að svo og svo margir séu tilnefndir í ráðið og síðan velji ráðherra úr. Það á að vera til þess að ekki sé bein tenging á milli stofnana, þ.e. það á að kljúfa þarna á milli svo þeir sem valdir eru í vísindaráðið séu ekki beint að þjóna hagsmunum ákveðinna vísindastofnana. Ég er ekki viss um að þeir sem valdir hafa verið í Vísindaráð eða Rannsóknaráð hingað til séu að því. Ég hef ekki orðið vör við að þeir hafi endilega verið þar með að þjóna hagsmunum einhverra ákveðinna stofnana þó að þeir séu frá þeim stofnunum. Það getur vel verið að eitthvað hafi borið á því. En ef þetta verður niðurstaðan að skipa í ráðið með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frv., sem ég tel rétt að athuga sérstaklega, þá vildi ég spyrja ráðherrann um þá aðila sem gert er ráð fyrir að menntmrh. tilnefni, ég vil eiginlega orða það þannig því að ríkisstjórnin tilnefnir þá varla, en það skiptir kannski ekki öllu máli, þetta er tæknilegt atriði. Það er gert ráð fyrir að menntmrh. tilnefni þrjá og þá velti ég því fyrir mér hvort þar með er búið að útiloka alla hina, sem ég ekki búinn að telja saman hvað eru margir ( SvG: 19 mínus 6.) 19 mínus 6 já, eru þeir þá samtals. Svo eru valdir 6 af þeim í lið a og b en er þá afgangurinn útilokaður í c-lið?
    Ég átta mig ekki á því, því að ég býst við að ef þetta gengur eftir þá sé búið að velja hæfustu menn eða hafi verið reynt alla vega að gera það og þar með sé kannski menntmrh. ákveðinn vandi á höndum að velja ef hann má ekki fara í þennan hóp, ef ég get sagt svo. Þetta vildi ég nú bara spyrja um því að ég gat ekki almennilega fundið út úr því. Það getur vel verið að ég sé ekki búin að lesa þetta nægilega vel. En þetta fannst mér dálítið sérkennilegt þannig að ég held að það þurfi kannski að kíkja pínulítið betur á þessa grein. Eins og ég segi getur vel verið að þetta sé ágætis niðurstaða en hún virkar dálítið sérkennilega á mig nema ég fái betri rök fyrir því af hverju þessi leið er valin.
    Eitt er enn sem mig langaði til að minnast á sem er 16. gr. og 23. í samhengi. Það er Rannsóknanámssjóður. Ég ætla ekki að taka það sérstaklega nema í tengslum við eitt atriði, en þó langar mig í tilefni af orðum hæstv. umhvrh. sem talaði áðan, reyndar í mjög stuttu andsvari, og taldi, að því er mér skildist, að þetta frv. markaði stefnubreytingu að því er varðaði rannsóknatengt framhaldsnáms til meistara- og doktorsgráðu við Háskóla Íslands, ef ég tók rétt eftir. Ég fór þá að velta því fyrir mér af hverju það væri af því að ég vissi að alla vega núna væri Rannsóknanámssjóður til og eins og stendur í athugasemdum við 16. gr.: ,,Sjóðurinn styrkir nú einungis rannsóknatengt framhaldsnám til meistara- eða doktorsgráðu við Háskóla Íslands.`` Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Fyrirhugað er að sjóðurinn geti í framtíðinni einnig styrkt framhaldsnám við aðra æðri skóla og íslenska stúdenta til framhaldsnáms við erlenda skóla.``
    Þetta var í samræmi við það sem ég var reyndar búin að lesa mér til þegar ég var að skoða þetta frv. og var að hugsa að það væri ágætt að víkka út þennan sjóð, en það kom mér nokkuð á óvart þegar hæstv. umhvrh. sagði að frv. markaði alveg nýja stefnu og átta ég mig ekki alveg á því. En að því er varðaði meistara- og doktorsnám við Háskóla Íslands, þá hélt ég að þetta væri að einhverju leyti í gildi núna. En það er kannski líka misskilningur af minni hálfu. Þetta vildi ég að hæstv. menntmrh. skýrði, alla vega fyrir mér. Ég á ekki sæti í menntmn. en þar er kannski hægt að athuga þetta betur.
    En það sem ég var aðallega að velta fyrir mér varðandi þetta var reyndar fram yfir það sem stendur í athugasemdum við greinina en tengist þó og útilokar það ekki sem ég hef verið að hafa áhyggjur af. Það er að ég tel mikilvægt að nemendur, t.d. við Háskóla Íslands, sem fara í slíkt framhaldsnám geti líka verið undir handleiðslu manna sem eru annars staðar, t.d. á rannsóknastofnunum sem tengjast atvinnuvegunum svo sem Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Hafrannsóknastofnun eða annars staðar, þannig að þó þeir taki þá kúrsa sem um er að ræða við háskólann, þá séu þeir beinlínis undir handleiðslu annarra og vísindamenn við aðrar rannsóknastofnanir en háskólann geti tekið nemendur til framhaldsnáms með þeim hætti sem gert er ráð fyrir. Ég geri mér grein fyrir því að það er yfirleitt miðað við að menn taki svo einhverja ákveðna kúrsa við háskólann og svo verði áfram. Mér finnst mikilvægt að þessi sjóður sé ekki eingöngu miðaður við rannsóknatengt framhaldsnám beint við Háskóla Íslands heldur séu líka veittir styrkir og reynt að gæta þess, bæði við þetta frv. og kannski ekki síður að því er varðar háskólann, að nemendur geti raunverulega notið handleiðslu annarra en bara þeirra sem eru ráðnir við Háskóla Íslands. Ég veit að það hefur verið samvinna þarna á milli, en það hefur stundum verið dálítið erfitt fyrir nemendur að fá að njóta handleiðslu vísindamanna á öðrum vísindastofnunum en Háskóla Íslands.
    Þetta er nú bara ábending og ég held að lagagreinarnar takmarki þetta ekki. Eins og 16. gr. er orðuð sé ég ekki að hún takmarki þetta en mér fannst eiginlega að skýringarnar væru frekar takmarkandi en hitt.
    Annað ætlaði ég ekki, virðulegi forseti, að segja að svo komnu máli, en vil ítreka það að ég tel mjög mikilvægt að frv. sem þetta verði afgreitt sem fyrst. Ég geri mér grein fyrir tímaskortinum, en þá vonandi sem fyrst á næsta þingi ef ekki tekst núna að vinna þetta með þeim hætti sem hv. menntmn. telur nauðsynlegt að gera.