Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 13:48:19 (5243)


[13:48]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér fer fram er almenn umræða um utanríkismál. Af því tilefni hefur verið dreift í hendur þingmanna ræðu utanrrh. í byrjun vikunnar. Skýrsla sú sem liggur nú á borðum þingmanna um viðskiptalegt umhverfi Íslendinga er umræðunni sem slíkri óviðkomandi. Þetta byggist á því sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda að það var gerð breyting í samráði við forseta þings og það hefur verið rætt í utanrmn. að í stað einnar meiri háttar skýrslu sem utanrrh. leggi fyrir þingið þar sem fjallað yrði um allt málasviðið, þá fari fram tvennar umræður um utanríkismál, haust og vor, en jafnframt verði því fylgt eftir að utanrrh. leggi fyrir þingið fleiri skýrslur um hina ýmsu málaflokka. Þannig er í undirbúningi að dreifa í hendur þingmanna skýrslu sem lýsir niðurstöðum nefndar sem hefur undirbúið viðræður um gerð fríverslunarsamninga við Bandaríkin og reyndar má vísa til þess að fleiri slíkum skýrslum hefur áður verið dreift á starfstíma þessa þings.
    En til þess að svarið sé alveg skýrt: Umræðan sem nú fer fram er almenn umræða um utanríkismál. Henni til stuðnings hefur ræðu utanrrh. verið dreift en ræða mín mun vegna þingskapaákvæða um ræðutíma vera í styttu formi.