Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 13:50:16 (5244)


[13:50]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að það komi alveg skýrt fram hjá hæstv. utanrrh. að þessi dagskrárliður sem hér á að hefjast senn er byggður á munnlegri skýrslu utanrrh., ræðu sem hann dreifði til manna og hefur reyndar birt obbann af í Morgunblaðinu í dag. Og það er nú reyndar svona sér á báti að ráðherrann sé að birta slíkar ræður í Morgunblaðinu áður en hann flytur þær á Alþingi. En þá liggur það alveg fyrir að það hefur engin umræða farið fram um þá skýrslu sem utanrrh. dreifði hér í haust, sú umræða hefur ekki farið fram. Ég tel það vera miður, veit að vísu að henni var frestað einu sinni vegna þess að ég var ekki viðstaddur og óskaði eftir því að henni yrði frestað og verð að taka á mig vissa ábyrgð á því að henni hafi verið frestað um einhverja daga. En ég tel það vera mjög miður að sú skýrsla hafi ekki komið til umræðu í þinginu sérstaklega því að það var margt í henni sem mikilvægt er að fjalla um og það væri spor aftur á bak ef þessar skýrslur eru ekki teknar formlega til umræðu í þinginu eins og skýrslurnar voru hér áður fyrr.
    Fljótt á litið sýnist mér einnig að sú skýrsla sem er lögð fram í dag um efnahags- og viðskiptaumhverfi Íslands sé þannig að hana þurfi einnig að ræða sérstaklega í þinginu. Ég vil þess vegna beina þeim tilmælum til forseta þingsins að það verði skapað svigrúm til að ræða báðar þessar skýrslur áður en þingi lýkur því að það væri óneitanlega mikið spor aftur á bak ef þessi nýi siður fæli það í sér að ráðherrann dreifir skýrslum sem aldrei eru ræddar á þinginu og síðan flytti hann ræðu og umræðan eingöngu byggð á henni. En ég þakka fyrir skýr svör um það að þessi umræða í dag er ekki byggð á þessum skýrslum og óska þá eftir því að áður en þingi lýkur verði skapað svigrúm til að ræða þær.