Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 14:01:08 (5252)


[14:01]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Á 50. afmælisári lýðveldisins bíða Íslendinga umfangsmikil úrlausnarefni í utanríkismálum. Fæstum blandast hugur um að innganga þriggja Norðurlanda í Evrópusambandið, ef af henni verður um áramótin, mun hafa rík áhrif á stöðu Íslands jafnt í norrænu sem evrópsku samstarfi. Brýnustu viðskiptahagsmunum okkar Íslendinga er borgið með EES-samningnum. Í samræmi við samhljóða ályktun Alþingis frá 5. maí í fyrra mun ríkisstjórnin taka upp tvíhliða viðræður um samskipti Íslands og Evrópusambandsins í framtíðinni. Frá því að sú samþykkt var gerð hefur þróunin orðið í vaxandi mæli á þá leið að Evrópusambandið verði í framtíðinni allsherjarsamtök Evrópuþjóða á sviði efnahags- og öryggismála. Þeir sem fylgst hafa með yfirlýsingum t.d. forustumanna Þýskalands og forustumanna hinna nýfrjálsu ríkja Mið- og Austur-Evrópu, reyndar allt til Eystrasaltsríkja, hafa orðið þessa áþreifanlega varir. Með hliðsjón af því verður ekki undan því vikist að meta kosti og galla aðildar Íslands að Evrópusambandinu enda hefur ríkisstjórnin nú þegar ákveðið að fela Rannsóknastofnun Háskóla Íslands það verkefni.
    En gæta þarf mikilvægra hagsmuna víðar en á evrópskum vettvangi. Sérstaka áherslu ber að mínu mati að leggja á samstarfið um öryggis- og varnarmál innan Atlantshafsbandalagsins og við Bandaríkin, á norræna samvinnu, á frekari þróun hafréttarins varðandi úthafsveiðar, að forðast aðsteðjandi háska í umhverfismálum, að tryggja vernd mannréttinda og leysa flóttamannavandann fyrir utan samstarfið innan Evrópuráðsins, þróunarsamvinnuna og síðast en ekki síst vaxandi friðargæsluverkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna.
    Í tilefni af nýafstöðnu þingi Norðurlandaráðs höfðu Íslendingar tækifæri til að minnast þess að norræn samvinna hefur löngum verið ein af máttarstoðum íslenskrar utanríkisstefnu allt frá því að íslensk stjórnvöld tóku meðferð utanríkismála í eigin hendur. Nú þegar horfur eru á því að Norðurlöndin að Íslandi undanskildu verði aðilar að Evrópusambandinu hefur orðið vart við áhyggjur hérlendis um að markmið norrænnar samvinnu breytist þannig að samnorrænir hagsmunir víki fyrir hagsmunum þeirra Norðurlanda sem verða innan Evrópusambandsins. Að norræn aðildarríki Evrópsambandsins verði bundin af sameiginlegri utanríkis- og öryggismálastefnu þess líkt og önnur aðildarríki og þetta leiði til aukinnar einangrunar Íslands, ekki einungis í norrænu samhengi heldur einnig í Evrópusamstarfi og jafnvel á öðrum vettvangi. Slíkar áhyggjur eru skiljanlegar og að sumu leyti réttmætar. Stjórnvöld annarra Norðurlanda munu vissulega ekki vísvitandi draga úr norrænni samvinnu. Hins vegar mun aðild fjögurra Norðurlanda að Evrópusambandinu hafa það í för með sér að það verður forgangsverkefni þeirra að stilla saman strengi innan vébanda víðtækara Evrópusamstarfs. Þessi mun einnig verða þróunin á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, innan GATT og fleiri alþjóðastofnana þar sem Norðurlöndin hafa jafnan hingað til talað einum rómi.
    Virðulegi forseti. Sl. tvö ár hafa öryggis- og varnarmál verið í brennidepli hérlendis. Hinn 4. jan.

sl. var gert sérstakt samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um fyrirkomulag varnarsamstarfs ríkjanna á grundvelli varnarsamningsins frá 1951. Samkomulagið sem undirritað var í Reykjavík bindur endi á þá óvissu sem ríkt hefur um íslensk varnarmál um nokkurt skeið. Einnig festa niðurstöður samkomulagsins í sessi þá grundvallarreglu að fyrirkomulag varnarsamstarfs ríkjanna skuli háð sameiginlegu mati þeirra beggja á íslenskum öryggis- og varnarhagsmunum svo lengi sem varnarsamningurinn varir. Það rýrir á engan hátt mikilvægi samkomulagsins að gildistími þess sé bundinn við einungis tvö ár. Örar breytingar hafa sett svip á öryggismál í Evrópu á undanförnum árum og óvissa ríkir um hvað framtíðin kann að bera í skauti sér. Mestu skiptir að veigamestu þættir íslenskra landvarna eru áréttaðir. Virkar loftvarnir, starfsemi flotaflugstöðvar, ratsjárkerfið og reglubundnar æfingar á vörnum landsins. Jafnframt er samkomulagið til marks um að Íslendingar vilja aðlaga starfsemi varnarliðsins breyttum aðstæðum að loknu kalda stríðinu.
    Í samkomulaginu kemur fram að leitar- og björgunarsveit varnarliðsins verði haldið en að ríkin tvö munu fyrir lok tímabilsins takast á hendur viðræður til að kanna möguleika á að Ísland axli aukna ábyrgð á sviði þyrlubjörgunarstarfa. Sérstakur starfshópur sem ríkisstjórnin skipaði í febrúar til að ganga úr skugga um hvað nákvæmlega fælist í tilboði bandarískra stjórnvalda um aukna ábyrgð á þyrlubjörgunarstörfum Íslendinga leiddi m.a. í ljós að til greina kæmi að Ísland yfirtæki þyrlubjörgunarþjónustu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Slík yfirtaka gæti þó ekki átt sér stað Íslendingum að kostnaðarlausu. Óskað hefur verið eftir ítarlegri upplýsingum um málið frá bandarískum stjórnvöldum með það fyrir augum að ríkisstjórnin geti þegar á næstu dögum tekið ákvörðun um hvort efnt verði til formlegra samningaviðræðna við bandarísk stjórnvöld.
    Auk tvíhliða varnarsamningsins verður aðildin að Atlantshafsbandalaginu áfram önnur meginstoð íslenskra öryggishagsmuna. Fyrir leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í janúar sl. var vart við vaxandi væntingar um tímamótaákvarðanir varðandi hugsanlega stækkun og ný verkefni þess. Því var víða haldið fram að nú þyrfti bandalagið að hrökkva eða stökkva, ella biði þess hæg hrörnun. Niðurstöður leiðtogafundarins staðfesta að grundvallartilgangur Atlantshafsbandalagsins, sem er trygging sameiginlegs öryggis og varna aðildarríkjanna, er óbreyttur en að aðlögun samtakanna haldi áfram með raunhæfum hætti. Afgerandi áhrif Atlantshafsbandalagsins nýlega á þróun mála í Bosníu-Hersegovínu sýna að það getur haft úrslitaáhrif á þróun mála ef það beitir sér og er þess megnugt að takast á við ný verkefni við breyttar aðstæður í Evrópu.
    Á leiðtogafundinum var mikilvægi tengslanna yfir Atlantshafið, líftaugar bandalagsins, áréttað. Samþykkt áætlunar um samstarf í þágu friðar ber þó einna hæst í niðurstöðum fundarins. Útfærslan hefur leitt í ljós að þessi skipan er mjög sveigjanleg og getur gagnast öllum ríkjunum með misjöfnum hætti eftir efnum þeirra og áhuga. Hverju þeirra er í sjálfsvald sett hvernig þátttöku í samstarfinu verði hagað. Þótt samstarfið sé án varnaskuldbindinga gefur það þátttökuríkjunum rétt til að óska eftir sérstöku pólitísku samráði við bandalagið ef þörf krefur. Þetta skiptir miklu máli í núverandi öryggistómarúmi í Mið- og Austur-Evrópu.
    Við núverandi kringumstæður er hæpið að gera ráð fyrir að horfið verði aftur til fyrra ástands í Bosníu-Hersegovínu áður en átökin brutust út eða að bætt verði fyrir allt það ranglæti og þann harm sem hundruð þúsunda manna þar hafa orðið fyrir á undanförnum árum. Eftir stendur að atburðir hafa gerst í Evrópu sem engan óraði fyrir og ekki varð lát á fyrr en vestræn lýðræðisríki létu að sér kveða á afgerandi hátt. Þessi harmleikur ber heim sanninn um að enn fyrirfinnast í okkar heimsálfu þjóðarleiðtogar sem eru reiðubúnir til að beita hervaldi til þjóðarmorða og landvinninga. Þótt kalda stríðinu sé lokið mega vestræn lýðræðisríki því ekki sofna á verðinum.
    Þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hafi ætíð lagt áherslu á stuðning við friðarumleitanir í fyrrverandi Júgóslavíu komust þau fljótlega að sömu niðurstöðu og stjórnvöld annarra Atlantshafsbandalagsríkja um að ekki yrði bundinn endir á átökin nema með hótun um beina hernaðaríhlutun bandalagsins. Íslensk stjórnvöld fögnuðu því tillögum sem fram komu innan bandalagsins í ágúst á sl. ári þess efnis að því yrði veitt heimild til loftárása á valin skotmörk í Bosníu-Hersegovínu á grundvelli ályktana öryggisráðsins og í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar. Þróun undanfarinna vikna hefur staðfest að mínu mati að þessi afstaða átti við rök að styðjast.
    Ástand og horfur í Mið- og Austur-Evrópu, þar á meðal í Rússlandi, hafa sem fyrr áhrif á öryggi og stöðugleika á norðurslóðum. Þótt skammt sé liðið frá þingkosningum í Rússlandi undir lok sl. árs er ljóst að þá urðu nokkur tímamót. Lýðræðisleg framkvæmd kosninganna og samþykkt nýrrar stjórnarskrár sýndu að stjórnmálalegar umbætur hafa þrátt fyrir allt þokast í rétta átt og fjölflokkaskipan hefur náð að skjóta nokkrum rótum í Rússlandi. Frá því að Sovétríkin liðu undir lok hafa samskipti Íslands og Rússlands verið vinsamleg en regluleg samskipti fulltrúa ríkisstjórna og viðskipti hafa dregist nokkuð saman. Tímabært er að tvíhliða samskiptum Íslands og Rússlands verði meiri gaumur gefinn og byggt til framtíðar á þeirri ágætu samvinnu sem tekist hefur á undanförnum áratugum. Ríkin tvö eiga sameiginlega hagsmuni á sviði sjávarútvegs og geta Íslendingar lagt frekari skerf af mörkum til samstarfs, einnig á sviði jarðhita. Í þessu skyni hefur um skeið verið ráðgerður tvíhliða fundur utanríkisráðherra Íslands og Rússlands og er vonast til að af honum geti orðið á síðari hluta þessa árs.
    Eftir upplausn Varsjárbandalagsins og brottflutning sovéskra hersveita hafa samskipti Rússlands og nágrannaríkja í Mið- og Austur-Evrópu almennt þróast á jákvæðan hátt. Það er því miður að lengi vel hefur nokkuð annar bragur verið á samskiptum Rússlands og Eystrasaltsríkjanna, einkum Eistlands og Lettlands, vegna deilna um áframhaldandi völ rússnesks herliðs og stöðu rússneskra þjóðernisminnihluta í ríkjum þessum. Samkomulag stjórnvalda í Litáen og Rússlandi um brottflutning rússnesks herliðs frá landinu er fagnaðarefni og eðlilegt að margyfirlýstur og réttmætur vilji stjórnvalda í Eistlandi og Lettlandi og fjölmargra samtaka í Evrópu verði virtur með svipuðum hætti. Nýleg yfirlýsing rússneskra embættismanna um að ekki yrði af rússneskri hálfu staðið við fyrri fyrirheit um algeran brottflutning frá ríkjunum tveimur fyrir 31. ágúst nk. veldur íslenskum stjórnvöldum vonbrigðum. Vonast er til að rússnesk stjórnvöld endurskoði afstöðu sína hið fyrsta. Virðingu fyrir fullveldi ríkja verður ekki blandað saman við óskyld mál, svo sem réttindi rússnesku þjóðernisminnihlutanna í Eystrasaltsríkjum.
    Virðulegi forseti. Tvennt ber hæst þegar hugað er að framtíðarþróun Evrópusambandsins fram til aldamóta. Annars vegar stækkun þess, væntanleg viðbót fjögurra EFTA-ríkja þegar um næstu áramót, en hins vegar ríkjaráðstefnuna 1996. Henni er ætlað að endurskoða allt stjórnkerfi Evrópusambandsins og aðlaga það nýjum aðstæðum. Við bæjardyrnar bíða síðan hópar nýrra umsækjenda sem sumir hverjir gera sér vonir um skjótari afgreiðslu. Þessi tvö atriði tengjast. Nú er svo komið í sögu Evrópusambandsins að stjórnkerfi það sem ætlað var til að halda utan um samstarf 6 aðildarríkja Kola- og stálbandalagsins og Efnahagsbandalags Evrópu sýnir þegar nokkra bresti með 12 aðildarríki innan sinna vébanda. Hætt er við að enn frekar reyni á þolrif þess þegar aðildarríkin eru orðin 16, tungumálin 12 og framkvæmdastjórarnir 21. Frekari stækkun er vart hugsanleg án endurskipulagningar.
    Á leiðtogafundinum í Lissabon var ákveðið að slá á frest frekari hugleiðingum um endurskipulagningu Evrópusambandsins, en bjóða áhugasömum EFTA-ríkjum til viðræðna um aðild að óbreyttu Evrópusambandi. Fjögur þeirra þekktust boðið og hafa nú lokið samningaviðræðum. Mörg núverandi aðilarríki hafa þegar efasemdir um að frekari stækkun þjóni hagsmunum þeirra.
    Evrópusambandið er og verður um fyrirsjáanlega framtíð langsamlega stærsti og þýðingarmesti viðskiptamarkaður Íslands. Samskiptin við sambandið hlýtur því að vera eitt mikilvægasta viðfangsefni íslenskra stjórnvalda í utanríkismálum hvernig sem þeim verður háttað. Ákveðið var á sínum tíma að láta ekki reyna á það að sinni hvort aðild væri raunhæfur kostur. Óvíst er enn hvort og hvenær gefst aftur tækifæri til að leita aðildar og enn óvissara er hvort eða hvenær hugur þings og þjóðar stendur til þess. Án EES-samningsins væri markaðsaðgangur okkar að þessum langsamlega mikilvægasta markaði okkar með öllu óviðunandi.
    Í skýrslu til Alþingis árið 1992 lagði ég til að hafin yrði úttekt á kostum og göllum aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Á það var bent að með því að sækja ekki um ásamt með öðrum Norðurlandaþjóðum og EFTA-þjóðum væri tekin ákvörðun um að hafna aðild. Slíka ákvörðun þyrfti ekki síður að rökstyðja en aðrar. Ekki varð þó úr því að Stjórnarráðið væri virkjað til slíkrar athugunar þrátt fyrir að áfram hefði verið að því unnið, m.a. innan utanríkisþjónustunnar, að bera saman stöðu EES-samningsríkja við stöðu aðildarríkja Evrópusambandsins.
    Nú liggja fyrir niðurstöður aðildarviðræðna EFTA-ríkjanna fjögurra sem fyrr segir. Þær gefa til kynna hvaða sveigjanleika Evrópusambandið getur sýnt á þessu stigi þróunar sinnar og hvernig reglur Evrópusambandsins má laga að aðstæðum í nýjum aðildarríkjum. Athyglisvert er t.d. hvernig sérstakar reglur eru látnar gilda um landbúnað á norðurslóðum og aukið svigrúm er gefið til þess að styrkja byggð í strjálbýli. Útfærsla og framkvæmd boðaðra lausna í deilum sambandsins og Noregs um rekstur sjávarútvegsstefnu norðan 62. breiddargráðu verður forvitnilegt rannsóknarverkefni fyrir Íslendinga. Af þeim textum sem fyrir liggja má þó ráða að verulegt tillit hefur verið tekið til norskra sjónarmiða. Hugtakið ,,hlutfallslegt jafnvægi``, relavitive stability, er fest í sessi í samningunum en það tryggir að við úthlutun kvóta sé tekið mið af veiðum undanfarin ár. Yrði þessu hugtaki beitt til hins ýtrasta yrðu núverandi veiðar Norðmanna innan norskrar lögsögu áfram í þeirra höndum. Enn fremur tekur Evrópusambandið yfir reglur og verklag Noregs við stjórn fiskveiða norðan 62. breiddargráðu. Svigrúm er veitt til að setja hömlur á svokallað kvótahopp þar sem fjárfestingar erlendra aðila gefa aðgang að fiskveiðum. Niðurstöður þessarar lotu aðildarviðræðna gefa nýjar forsendur til að meta kosti og galla aðildar. Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að fela óháðum aðila, Háskóla Íslands og rannsóknastofnunum hans, að leggja hlutlægt mat á kosti og galla aðildar Íslands að Evrópusambandinu og bera saman stöðu Íslands sem samningsaðila að EES við Evrópusambandsaðild.
    Virðulegi forseti. Með lögfestingu allra gerða EES-samningsins og viðbótarpakkans svokallaða við hann er íslenskum fyrirtækjum tryggð full þátttaka í hinu fjórþætta frelsi. Mikilvægt er að frá þessu verði gengið sem fyrst því tafir og slæleg framkvæmd mundi verulega veikja samningsstöðu Íslands í framtíðinni gagnvart Evrópusambandinu. EES-samningurinn tryggir því sem næst fullan aðgang að mörkuðum Evrópusambandsins. Aðild að sambandinu mundi litlu breyta um markaðsaðgang iðnvarnings og tollar þeir sem enn eru á sjávarafurðum eru í flestum tilvikum það óverulegir að þeir teljast naumast markaðshindrun. Viðamesta breytingin á viðskiptaháttum sem yrði við aðild snertir landbúnaðarafurðir en innflutningur á þeim yrði sem næst óheftur við aðild. Aðild yrði einnig til þess að tekin yrði upp sameiginleg viðskiptastefna Evrópusambandsins gagnvart öðrum ríkjum. Henni fylgir sú hagsbót að íslenskar afurðir nytu góðs af öllum viðskiptasamningum Evrópusambandsins en á móti kemur að fylgja yrði eftir öllum verndaraðgerðum sambandsins og taka þátt í hugsanlegum viðskiptaerjum þess hvort sem þær yrðu við Japan, Bandaríkin eða önnur ríki. Samræming óbeinna skatta og afnám landamæraeftirlits mundi leiða til einhvers tekjutaps ríkissjóðs eða a.m.k. uppstokkunar skattkerfis. Hvort framlag Íslands yrði hærra en þær greiðslur sem féllu aftur inn í íslenskt hagkerfi mundi ráðast af því hverjar samningslyktir yrðu um landbúnað og sjávarútveg.
    Til þessa hefur þátttaka í norrænu samstarfi, Atlantshafsbandalaginu, EFTA, OECD og Evrópuráðinu að ógleymdum Sameinuðu þjóðunum þótt gefa ærin tækifæri til að gæta íslenskra hagsmuna og koma íslenskum sjónarmiðum á framfæri. Þær skyldur sem fylgja Evrópusambandsaðild hafa þótt of þungbærar, einkum að því er varðar aðgang að auðlindum. Eftir því sem aðildarríkjum sambandsins fjölgar rýrnar samstarfsvettvangur allra ofangreindra stofnana og tækifærum sem þar gáfust til samráðs og samstarfs fækkar. Fari svo að ríki Mið- og Austur-Evrópu nái samningum um aðild að Evrópusambandinu í kjölfar EFTA-ríkjanna fjögurra, stefnir í það að Evrópusambandið verði að raunverulegum samevrópskum samtökum innan fárra ára. Sú framtíðarsýn kallar að sjálfsögðu á endurmat á stöðu Íslands. Þótt full ástæða sé til þess að efla samskiptin við Norður-Ameríkuríkin eins og að er stefnt og auka viðskipti við Austur-Asíu, verður Evrópa um fyrirsjáanlega framtíð mikilvægasti viðskiptavinur Íslands og það svæði sem tengist landinu nánustum menningarlegum og sögulegum böndum. Þær Evrópuhugsjónir friðar og framfara sem lágu að baki þegar drög voru lögð að Rómarsáttmálanum á sínum tíma undir forustu þeirra Roberts Schumans og Jeans Monnets eru enn teknar upp og dustað af þeim rykið á hátíðastundum. En eftir því sem ógnir heimsstyrjaldarinnar seinni fölna í minningunni hefur krambúðarhugsun og hagsmunatogstreita stundum orðið meira áberandi í starfi Evrópusambandsins en hugsjónaglóð. Frjóustu og athyglisverðustu hugmyndir um framtíð Evrópu koma ekki frá höfuðstöðvum Evrópusambandsins heldur frá Mið-Evrópu. Hinir sönnu arftakar hugsjónastofnenda Evrópusamvinnunnar eru menn á borð við Václav Havel, forseta Tékklands. Í nýlegri ræðu á Evrópuþingi sagði hann einmitt Maastricht-sáttmálann vera vissulega haganlega smíð en skorta lífsanda og siðferðilega framtíðarsýn. Þar lýsti hann eftir nýrri stofnskrá Evrópu sem íbúar álfunnar gætu sameinast um. Aðild Mið- og Austur-Evrópu gæti einmitt leitt til þess að beina Evrópusamstarfinu inn á nýjar brautir. Fyrir því þykir mér rétt og skynsamlegt að nýta næsta ár fram að ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins 1996 til raunverulegrar umræðu um það meðal íslensku þjóðarinnar hvert við teljum hlutverk okkar vera innan Evrópu og hvert beri að stefna í framtíðinni. Út frá hagsmunum íslensku þjóðarinnar væri óhyggilegt að mínu mati að afsala þjóðinni fyrir fram þegnrétti í samfélagi Evrópuþjóða.
    Þó svo að fjögur EFTA-ríki hafi vistaskipti og færi sig frá EFTA til Evrópusambandsins eru þau eftir sem áður samningsaðilar að EES þótt á öðrum forsendum sé. Ekki ber formlega nauðsyn til að segja EES-samningnum upp vegna þessa. Samningurinn stenst þótt hlutföll milli EFTA og Evrópusambandsins breytist að vísu verulega. Stofnanir EFTA-stoðasamningsins miðast við að vera reknar á fjölþjóðlegum grunni en ekki sem útibú frá stjórnsýslu eins lands. Væntanlegar viðræður um framtíðarsamskipti Íslands og Evrópusambandsins á grundvelli þingsályktunar frá 5. maí sl. hljóta að beinast að því hvernig sannfæra megi Evrópusambandið um að hægt sé að tryggja viðhlítandi framkvæmd samningsskuldbindinga, eftirlit og lausn deilumála. Í viðræðum við fulltrúa framkvæmdastjórnar og aðildarríkja Evrópusambandsins hefur ítrekað komið fram að þau réttindi sem íslensk fyrirtæki og ríkisborgarar hafa áunnið sér á grundvelli EES-samningsins munu haldast hvernig sem samningurinn þróast. Það hefur verið byggt á þeirri forsendu að viðunandi stofnanalausn fyndist.
    Virðulegi forseti. Innganga Íslands í EFTA var á sínum tíma gæfuspor. Þar með var stigið stórt skref frá hefðbundinni haftastefnu og landið tengt fríverslunarsamstarfi Vestur-Evrópuríkja. Nú er framtíð samtakanna óviss eftir að flest aðildarríki hafa lokið samningum um aðild að Evrópusambandinu. Á næsta ári gætu aðildarríkin orðið aðeins Ísland og Sviss/ Liechtenstein. Ekki er tilefni til að óttast að fjárhagslegar skuldbindingar EFTA verði Íslandi óbærileg byrði þótt aðildarríkjum fækki. Hins vegar verða verkefni íslenskrar stjórnsýslu erfiðari viðfangs þegar sá bakhjarl sem starfslið EFTA og önnur aðildarríki hafa verið er á braut.
    Í næsta mánuði verður skrifað undir lokatexta Úrúgvæ-viðræðnanna í Marrakech og lýkur þar með 7--8 ára samningaferli með þátttöku á annað hundrað aðildarríkja. Ekki er ákveðið hvenær Úrúgvæ-samningurinn tekur gildi, en ráðgert er að það verði á bilinu 1. jan. til 1. júlí 1995. Bandaríkin leggja áherslu á að samningurinn taki gildi um næstu áramót og fara nú fram formlegar viðræður um það.
    Úrúgvæ-samningurinn hefur grundvallarþýðingu, bæði fyrir heimsbúskapinn og fyrir Ísland. Áætlað er að tekjuaukning í heiminum vegna samningsins muni nema allt að 270 milljörðum Bandaríkjadala árlega innan 10 ára. Nauðsynlegt er að tryggja hlutdeild Íslands í þessum búhnykk sem gæti orðið einn helsti hvatinn til að leiða heimsbyggðina úr ríkjandi efnahagslægð. Stofnun sérstakrar alþjóðaviðskiptastofnunar sem mun bæði sjá um framkvæmd þeirra alþjóðaviðskiptasamninga sem undir hana heyra og hafa eftirlit með framkvæmd þeirra er helsta nýmæli Úrúgvæ-viðræðnanna. Til þessa hafa verið takmarkaðir möguleikar á að framfylgja úrskurðum GATT í deilumálum. Stofnanaþáttur Úrúgvæ-samningsins hefur mikla þýðingu fyrir smærri ríki eins og Ísland sem hafa takmarkað svigrúm til þess að knýja á um efndir samninga af þessu tagi. Þau aðildarríki sem draga það að samþykkja nýja Úrúgvæ-samninginn taka mikla áhættu. Bandaríkin hafa lýst því yfir að við inngönguna í alþjóðaviðskiptastofnunina muni þau jafnframt segja núgildandi GATT-samningi upp. Með því hyggjast þau þrýsta á önnur ríki að fullgilda samninginn strax í upphafi. Talið er líklegt að fleiri ríki muni fylgja Bandaríkjunum eftir hvað þetta varðar. Þannig hafa þær hugmyndir verið uppi innan Norðurlandahópsins að rétt sé að fylgja fordæmi Bandaríkjanna í þessu efni. Þau

ríki sem staðfestu ekki Úrúgvæ-samninginn hefðu þar með enga tryggingu fyrir því að þau njóti þeirra kjara sem tryggð eru með núgildandi GATT-samningi, hvað þá heldur að þau njóti þeirra auknu réttinda sem Úrúgvæ-samningurinn mundi skapa þeim.
    Skrifstofa GATT hefur reiknað út til bráðabirgða hversu miklar tollalækkanir felast í tilboðum þeirra ríkja sem Ísland gerði kröfur á í viðræðunum. Þar kemur fram að tollar á sjávarafurðum þeim sem fluttar hafa verið frá Íslandi til Bandaríkjanna hækka um 99% en tollar til Kanada, Japan og Suður-Kóreu lækka á bilinu 30--40%. Varðandi áhrif Úrúgvæ-samningsins á landbúnaðarmál setur samningstextinn nýjar leikreglur í viðskiptum með landbúnaðarafurðir og mun í fyllingu tímans draga úr þeim óeðlilegu viðskiptaháttum sem þar hafa tíðkast með niðurgreiðslum og undirboðum. Textinn hefur hins vegar mjög rúmt svigrúm til verndar þótt ætlast sé til þess að markaðir opnist frá því sem nú er.
    Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin ákvað í október 1992 að skipa starfshóps til þess að gera forkönnun á gerð fríverslunarsamninga við Bandaríkin. Starfshópurinn skilaði áfangaskýrslu í maí sl. Bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að fríverslunarsamningur við Bandaríkin sé vænlegur kostur og geti vel fallið að aðild Íslands að EES. Tollar eru ekki háir á útflutningsvörum Íslands til Bandaríkjanna og Kanada en möguleikar á auknum útflutningi við gerð fríverslunarsamnings við þessi ríki felast fyrst og fremst í frekari vinnslu fiskafurða og annarra framleiðsluvara sem nú bera tiltölulega háa tolla. Áhugi þessara ríkja á samningum við Ísland ræðst væntanlega frekar af pólitískum forsendum en ásókn á hinn örsmáa íslenska heimamarkað.
    Framtíðarþróun NAFTA hefur verið rædd við fulltrúa Bandaríkjanna og Kanada. Svo virðist sem NAFTA-ríkin munu taka þau mál til endurskoðunar síðari hluta þessa árs. Bandaríkin segjast tilbúin til að kanna möguleika á fríverslunarsamstarfi eftir að Úrúgvæ-samningurinn hefur hlotið þingmeðferð í Bandaríkjunum. Hins vegar verði Ísland fyrst að ákveða hversu náið samstarf það vilji eiga í framtíðinni við Evrópusambandið áður en hægt sé að meta möguleika á tvíhliða fríverslunarsamningi eða tengingu við NAFTA.
    Virðulegi forseti. Fjöldi aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna hefur nú meira en þrefaldast frá upphafi auk þess sem sætum í öryggisráðinu hefur verið fjölgað um fjóra kjörna aðila. Með þessari miklu fjölgun aðildarríkja hafa jafnframt komið fram síðustu árin raddir um nauðsyn þess að stækka öryggisráðið þannig að það endurspegli betur ríkja- og fólksfjölda í heiminum. Heyrast þessar raddir einkum frá þriðja heiminum sem jafna vill metin í alþjóðastjórnmálum milli iðnríkjanna í norðri og þróunarríkjanna í suðri.
    Allmikil umræða varð á síðasta allsherjarþingi um endurskoðun starfsþátta og fjölgun í öryggisráðinu og lauk henni með samþykkt ályktunar um sérstakan vinnuhóp sem skila á af sér störfum fyrir upphaf næsta allsherjarþings. Stefnt er að því að skipulagsbreytingar á öryggisráðinu komi til framkvæmda á 50. afmælisári Sameinuðu þjóðanna árið 1995.
Á síðustu árum hafa Sameinuðu þjóðirnar og fleiri fjölþjóðlegar stofnanir og samtök haft æ stærra hlutverki að gegna á sviði friðargæslu og eflingar lýðræðis víða um heim. Ísland hefur til þessa einungis tekið takmarkaðan þátt í verkefnum af þessu tagi en hefur greitt skyldubundinn hlut sinn í kostnaði við framkvæmd þeirra. Eðlilegt er að Ísland geri sér far um að taka virkari þátt í slíku starfi. Þess vegna samþykkti ríkisstjórnin í september sl. að verja fjármunum til þess að standa straum af kostnaði við að senda allt að tvo lækna og fjóra hjúkrunarfræðinga til starfa við friðargæslu með norskri heilsugæslusveit sem er hluti norrænu friðargæsluherdeildarinnar undir yfirstjórn friðargæslusveitar Sameinuðu þjóðanna í Bosníu-Hersegovínu.
    Í byrjun þessa árs var undirritaður samningur íslenskra og norskra stjórnvalda um framkvæmd þátttökunnar og hafa tveir íslenskir læknar og einn hjúkrunarfræðingur þegar haldið til Noregs í þjálfunarskyni og mun taka til starfa í Tusla í Bosníu-Hersegovínu í byrjun maí.
    Virðulegi forseti. Mikilvægt skref í átt til endanlegs afnáms kynþáttaaðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku verður stigið með sögulegum hætti þann 27. apríl nk. þegar fyrstu lýðræðislegu þingkosningarnar verða haldnar í landinu. Bráðabirgðasamstjórn hvítra og þelþökkra sem formlega tók til starfa í desember hefur yfirumsjón með undirbúningi kosninganna. Eitt af fyrstu verkefnum stjórnarinnar var að fara þess á leit við Sameinuðu þjóðirnar, önnur samtök og einstök ríki að leggja starfsmenn til kosningaeftirlits til að fylgjast með því að framkvæmd kosninganna verði í samræmi við lýðræðisreglur og stuðla að því að þær fari friðsamlega fram. Íslensk stjórnvöld hafa tekið vel þessari málaleitan og munu tilnefna fulltrúa til hugsanlegrar þátttöku í kosningaeftirliti á vegum Sameinuðu þjóðanna í Suður-Afríku.
    Þátttaka Íslands í umhverfisnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur haft í för með sér aukin verkefni fyrir íslensk stjórnvöld á sviði umhverfismála á alþjóðavettvangi. Auk starfa í umhverfisnefndinni hefur Ísland tekið virkan þátt í samstarfi sem sett var af stað í framhaldi af ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun. Í þessu samstarfi hefur höfuðáhersla verið lögð á málaflokka sem snerta sérhagsmuni Íslands og verndun hafsins. Á Ísland þátt í að umhverfisráðstefna Sameinuðu þjóðanna samþykkti að halda alþjóðlega ráðstefnu í Washington árið 1995 um aðgerðir til þess að efla varnir gegn mengun sjávar frá landsstöðvum. Íslensk stjórnvöld hafa miklar áhyggjur af vaxandi endurvinnslu á geislavirkum úrgangi Breta, bæði í Sellafield og Dounreay. Áætlanir gera ráð fyrir að á næstu árum verði unninn geislavirkur úrgangur í Sellafield frá öðrum löndum, þar á meðal frá Þýskalandi og Japan og benda fyrirliggjandi gögn til þess að um talsverða losun geislavirkra efna í sjó geti orðið að ræða. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað mótmælt

þessum fyrirætlunum. Þau benda á þá hættu sem aukin geislamengun á Norður-Atlantshafi hefði í för með sér fyrir nýtingu auðlinda hafsins auk þess sem neikvæð áhrif þessarar vinnslu ógnuðu fyrst og fremst hagsmunum ríkja sem engan hag hefðu af þessari vinnslu.
    Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1992 var samþykkt að halda ráðstefnu um fiskveiðar á deilistofnum, þ.e. stofnum sem veiddir eru bæði innan sérefnahagslögsögu og á úthafinu, og á miklum fartegundum, þar á meðal túnfiski. Samkvæmt viðeigandi ályktun allsherjarþingsins á úthafsveiðiráðstefnan að ljúka störfum fyrir næsta allsherjarþing. Jafnframt var ákveðið að störf og niðurstöður ráðstefnunnar skyldu vera í fullu samræmi við hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Á árinu 1993 voru haldnar tvær fundalotur ráðstefnunnar og sú þriðja stendur nú yfir og boðað hefur verið til þeirrar fjórðu á komandi sumri.
    Á undanförnum árum hefur átt sér stað mikil ofveiði á flestum úthöfum. Markmið ráðstefnunnar er að setja leikreglur fyrir veiðar á öllum úthöfum. Fullsnemmt er að fullyrða hver niðurstaða ráðstefnunnar kann að verða. Málið er fjölþætt og ólíkir hagsmunir í húfi auk þess sem viðeigandi ákvæði ýmist vantar eða eru óljós í hafréttarsáttmálanum. Samræmd veiðistjórnun á sama stofni innan og utan lögsögu ríkja og samvinnuform varðandi veiðar á úthafinu eru meðal þeirra þátta sem fjallað er um auk þess sem ákveða þarf hvort ráðstefnan eigi að leiða til bindandi þjóðréttarsamnings eða leiðbeiningarreglna. Líklegt er að ráðstefnan komist að þeirri niðurstöðu að kvótar skuli ákveðnir fyrir allar veiðar á úthafinu á grundvelli svæðisbundinnar samvinnu og alþjóðlegar reglur verði settar til að tryggja að farið verði eftir kvótum og öðrum reglum sem ákveðnar verða innan vébanda hinnar svæðisbundnu samvinnu. Úthafsveiðihagsmunir Íslands eru margvíslegir. Nægir að nefna úthafsveiðar á Reykjaneshrygg, veiðar á norsk/íslensku síldinni á úthafinu milli Íslands og Noregs og veiðar Íslendinga í Smugunni sem er opið alþjóðlegt hafsvæði.
    Virðulegi forseti. Mannréttindi voru eitt af helstu viðfangsefnum allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna á liðnu hausti en mannréttindamál eru mjög ofarlega á baugi í alþjóðasamstarf um þessar mundir. Alheimsráðstefna um mannréttindi var haldin í Vín sl. sumar og mannréttindamál voru meginviðfangsefni leiðtogafundar Evrópuráðsins í Vín sl. haust. Eitt af mikilvægustu málum allsherjarþingsins í þetta sinn var stofnun sérstaks embættis mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna. Í umræðum um málið á þinginu kristallaðist málþóf um þá togstreitu sem ríkt hefur milli iðnríkja og þróunarríkja síðustu ár í mannréttindamálum. Ísland sem og önnur vestræn ríki lögðu þunga áherslu á að með stofnun embættisins mundu Sameinuðu þjóðirnar öðlast nýtt og sjálfstætt verkfæri til að bregðast skjótt og á markvissan hátt við grófum og skipulögðum mannréttindabrotum. Enn á þó eftir að koma í ljós hverju þetta nýja embætti fær áorkað. Starfi allsherjarþingsins að mannréttindamálum eru gerð skil í sérstakri skýrslu um öryggisráðið og 48. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem dreift hefur verið hér á Alþingi Íslendinga.
    Þjóðir heims hafa á undanförnum árum lagt aukna áherslu á samtöðu um lausn vanda sem ógnað getur jafnvægi heimsbyggðarinnar, svo sem mannfjölgunarog flóttamannavandamál. Mannlegar þjáningar og mannréttindabrot eru höfuðorsök þess gífurlega flóttamannavanda sem við er að etja um þessar mundir í heimsbyggðinni. Engin fullvalda þjóð getur með góðu móti skorast undan ábyrgð og neitað að axla hluta af byrðunum vegna þessa vandamáls. Í nóvember sl. lagði ég til við ríkisstjórn að tilnefndir yrðu fulltrúar utanrrn. og dómsmrn. til að gera tillögur um heildarstefnu Íslendinga í málefnum flóttamanna og endurskoðun íslenskrar löggjafar um réttarstöðu flóttamanna. Nefndin hefur ekki lokið störfum og er því ekki hægt á þessu stigi að kynna niðurstöur hennar í einstökum atriðum. Þess má þó geta að nefndin hefur gert ítarlega könnun á framkvæmd flóttamannaaðstoðar á Norðurlöndum og hefur í störfum sínum haft hliðsjón af henni.
    Virðulegi forseti. Starfsemi á vegum Evrópuráðsins einkennist um þessar mundir mjög af þeim umbrotum sem eiga sér stað í Evrópu og stefnumörkun leiðtogafundar Evrópuráðsins í Vín í október sl. Ísland tekur nú aukinn þátt í störfum Evrópuráðsins er lúta að aðstoð og ráðgjöf við lýðræðisuppbyggingu í Mið- og Austur-Evrópu. Þannig hóf Ísland þátttöku í svokallaðri Feneyjanefnd Evrópuráðsins á þessu ári en nefndin er ráðgefandi sérfræðinganefnd á sviði stjórnlagaréttar. Feneyjanefndin hefur m.a. annast ráðgjöf við samningu nýrrar stjórnarskrár fyrir Rússland og síðar Suður-Afríku. Utanrrn. stefnir einnig að virkari þátttöku í störfum fagnefndar ráðherranefndar Evrópuráðsins um samstarf við ríki Mið- og Austur-Evrópu. Ein mikilvægasta niðurstaða leiðtogafundar Evrópuráðsins var samþykkt sérstakrar framkvæmdaáætlunar um víðtæka upplýsingaherferð meðal evrópsks æskulýðs gegn kynþattahatri og útlendingahatri, gyðingahatri og skorti á umburðarlyndi. Unnið er að undirbúningi áætlunarinnar sem m.a. felur í sér að stofnaðar verði landsnefndir í hverju aðildarríki og sérstök aðalnefnd á vegum Evrópuráðsins.
    Virðulegi forseti. Ég sé að tíma mínum eru skorður settar. Ég hafði í næstu málsgreinum ætlað að fjalla um samstarf okkar á norðurslóðum, um þróunarsamvinnu okkar og um ástand og alþjóðlegt samstarf varðandi málefni Miðausturlanda sem og aukna áherslu sem við erum sammála um að leggja á samskipti við ýmis ríki Austurlanda fjær. Því miður gefst mér ekki tími til þess en vísa þá þingmönnum á þann texta sem dreift var í upphafi vikunnar.
    Virðulegi forseti. Í ár er þess minnst að 50 ár eru liðin frá stofnun íslenska lýðveldisins hinn 17. júní 1944 er tengslum var endanlega slitið við konungsríkið Danmörku. Hátíðahöldin verða einkum innan lands og hefur þjóðhátíðanefnd sem tilnefnd var af forsrh. verið falinn undirbúningur þeirra. Utanríkisþjónustan mun einnig taka þátt í undirbúningi afmælisins. Væntanlegir eru sérstakir gestir frá nágrannaríkjunum og þeim ríkjum sem hér áttu fulltrúa árið 1944 auk sendiherra margra erlendra ríkja. Er vert að minnast sérstaklega þáttar Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Rússlands og Kanada sem sendu fulltrúa sína til Þingvalla fyrir 50 árum og veittu mikilvægan pólitískan stuðning við stofnun hins íslenska lýðveldis.