Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 16:35:37 (5258)

[16:35]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Sú ræða sem hæstv. utanrrh. flutti hér áðan fannst mér vera ömurleg, þó var hún hið besta flutt. En mér fannst hún gegnsýrð af aumingjaskap. Meginefni og tilgangur þessarar ræðu var að tala fyrir innlimun í Evrópusameininguna. Það er nú reyndar vandræðaástand með þetta fyrirbrigði sem við höfum fram undir þetta kallað Evrópubandalag. Eftir Maastricht þá breyttu þeir nafninu enska nafninu ,,community`` í ,,union`` sem er að sjálfsögðu sterkara en bandalag. Ég felli mig ekki við þessa skammstöfun ESB, ég tel að hér eigi frekar við samruni eða jafnvel bandaríki Evrópu.
    Framsóknarmenn töldu fyrir kosningarnar 1991 að á yfirstandandi kjörtímabili, þ.e. þessu kjörtímabili sem við upplifum núna, mundi ráðast afstaða okkar til Evrópubandalagsins. Við hlutum ákúrur fyrir þennan málflutning, m.a. af hæstv. núv. utanrrh., Jóni Baldvin Hannibalssyni, þar sem hann taldi að þetta væri fjarstæða. Það hefur reyndar komið á daginn að við höfum haft rétt fyrir okkur.
    Ég hélt því fram í fyrra þegar við vorum að ræða EES-samninginn að hann væri fyrra skrefið inn í Evrópubandalagið. Menn eru sem óðast að koma úr felum núna og því miður hef ég haft rétt fyrir mér, þar ætla menn ekki að láta staðar numið.
    Hv. 3. þm. Reykv. sagði hér rétt áðan að ef menn hefðu lagt það til að sækja um innlimun eða inngöngu,

eins og ég held að hann hafi orðað það, í Evrópusambandið í fyrra þegar við vorum að ræða um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði þá hefði það verið til að sigla samningnum um Evrópskt efnahagssvæði í strand og það hefðu ekki verið pólitískar forsendur þá, sagði hv. þm., til að sækja um aðild. Ég er honum alveg sammála og ég tel að hv. 3. þm. Reykv. hafi mælt margt mjög vel í ræðu sinni og tekið skynsamlega á málum. Þó ég hafi athugasemdir við sumt af því sem hann lét sér um munn fara hér í ræðustólnum áðan þá virðist mér eins og hann hafi enn þá það jafnvægi hugarfarsins sem er nauðsynlegt til að geta tekið á málum með ábyrgum hætti.
    Hæstv. utanrrh. ber höfuðábyrgð á atburðarás sem fór á stað föstudaginn áður en Norðurlandaráðsþing hófst í Stokkhólmi fyrir hálfum mánuði. Þá byrjaði þetta skyndiáhlaup til að koma okkur inn í Evrópusamrunann. Ríkisstjórnin samþykkti að tillögu hæstv. utanrrh. að fela þremur deildum háskólans að kanna kosti og galla aðildar Íslands að Evrópusamrunanum. Í kjölfarið hefur fylgt mikil umræða þar sem menn hafa tjáð sig með eiginlega ótrúlegum hætti sumir. Menn sem við höfum fram að þessu talið að væru í sæmilegu jafnvægi virðast vera komnir í einhverja panikk og tala um að við séum að missa af strætisvagninum. Þetta gerist þrátt fyrir það, eins og síðasti ræðumaður ítrekað minnti á í máli sínu og hefur komið fram í umræðunum hvað eftir annað í dag, að Alþingi ákvað með ályktun 5. maí 1993 hver stefna Íslands skyldi vera. Mér fyndist að í þessari ræðu hæstv. utanrrh. hefði hann átt að biðja Alþingi afsökunar á því að vera ekki farinn að vinna að því máli, fyrir að hafa ekki orðið við ályktun Alþingis enn þá. Það er bráðum ár síðan þessi ályktun var samþykkt og ríkisstjórnin hefur ekkert aðhafst í málinu. Það stóð nú á þessari afsökunarbeiðni hjá hæstv. ráðherra, því miður.
    Þá virðist, eins og fram kom í ræðu hv. 7. þm. Reykn., eins og utanríkisþjónustan hafi ekki kynnt, a.m.k. ekki öllum, sendiherrum okkar þessa ályktun Alþingis því öðruvísi er ekki hægt að skilja afskipti sendiherrans Kjartans Jóhannssonar sem nú er orðinn embættismaður --- ég vek athygli á því að hann er embættismaður núna en ekki stjórnmálaforingi eins og hann var einu sinni. Hann tók með mjög óviðeigandi hætti afstöðu í þessu máli og reyndi að beita áróðri fyrir þeim málstað og er þar reyndar samferða hæstv. utanrrh. en ég held að það sé ekki hlutverk sendiherra okkar að blanda sér í þjóðmál með þeim hætti sem Kjartan Jóhannsson sendiherra gerði í því tilfelli.
    Ég hef stundum velt því fyrir mér af hverju hæstv. utanrrh., sem að mörgu leyti er vel gefinn maður, tekur þá afstöðu sem hann hefur tekið í þessum Evrópumálum. Ég finn satt að segja ekki mjög ljósar skýringar á því. Hann ætti að þekkja Evrópubandalagið manna best og hefur ýmislegt sagt um Evrópubandalagið í gegnum tíðina. Hann ætti að þekkja þá ókosti sem því fylgja að eiga þar aðild að eða láta það ráða yfir sér. Sú skýring sem ég finn eina fyrir þessari undarlegu afstöðu hæstv. utanrrh. er að kratar eru frekar fáir og smáir í þessu þjóðfélagi, eins og menn vita, en hins vegar ráða þeir miklu í Evrópubandalaginu eða Evrópusamrunanum. Þar er allt löðrandi í krötum, meira og minna af kratakontóristum. Íslendingar hafa reyndar lagt þó nokkuð marga til úr því fjósinu. En aðrar þjóðir hafa gert það líka og mjög öflugar sumar og kratarnir ráða býsna miklu í Brussel. Það kann að vera að hæstv. utanrrh. vilji hefna þess frá Brussel sem hallast hér á Alþingi.
    Menn hafa gert mikið veður út af því samningsuppkasti sem norska ríkisstjórnin hefur gert við Brussel. Ég sé ekki að þetta samningsuppkast breyti svo miklu fyrir okkur og alls ekki á þann veg að það geri það nokkuð fýsilegra fyrir okkur að gerast aðilar að Evrópusamrunanum. Það hræðir fremur en hitt. Það er ákaflega óaðgengilegt fyrir sjávarútveginn í Noregi, hvað þá fyrir sjávarútveginn hér ef það væri yfirfært og staðfært á okkur. Það er þriggja ára frestur, eins og hér hefur glögglega komið fram, og það er óaðgengilegt. Þeir hafa einungis þriggja ára biðtími þangað til þeir fara algerlega út í óvissuna og þrjú ár er ekki langur tími í lífi þjóðar. Ég ætla að biðja menn að hugleiða það hvort þeir væru tilbúnir að afsala sér rétti yfir íslenskri fiskveiðilögsögu eftir þrjú ár. Ég er a.m.k. ekki þeirrar skoðunar að það væri skynsamlegt.
    Þetta samningsuppkast er líka afar óaðgengilegt fyrir íslenskan landbúnað. Ríkisstjórn Noregs berst um á hæl og hnakka til þess að gylla þetta samkomulag sem hún hefur gert. Það er okkur öllum kunnugt en hún eða baráttumenn málsins í Noregi eru ekki með mjög gild rök. Þeir seilast svo langt að slá því upp í morgun í pressunni sem höfuðröksemd fyrir því að Norðmenn eigi að gerast aðilar að þessum samningi að utanrrh. á Íslandi, sjálfur Jón Baldvin Hannibalsson, hæstv. utanrrh., telji þetta vera góðan samning fyrir Noreg. Það eru kannski sterkustu rökin sem vesalings kratarnir í Noregi hafa til þess að reyna að berja það inn í sína þjóð að þeir hafa ekki orðið sér til skammar í Brussel.
    Sjávarútvegsráðherrann í Noregi, sem er búinn að standa í þessum samningum, sagðist einu sinni vera á móti innlimun Noregs í Evrópusamrunann. Ég veit ekki hver alvara lá að baki, en hann hefur ekki verið stórhuga a.m.k. þessi maður úr því að hann sættir sig við það sem sjávarútvegsráðherra að koma heim til Noregs með slíkan samning því að hann hefur auðvitað, eins og allir sjá, selt hagsmuni Noregs í Brussel. Hvað fær hann svo í staðinn, Jan Henry T. Olsen eða hvað hann heitir? Jú, hann fær vilyrði frá Evrópubandalaginu um að koma Íslendingum úr Smugunni. Það er nákvæmlega það eina sem norskur sjávarútvegur getur talið sér til tekna í þessu samningaferli. Þarna fær Noregur að vísu bandamann til þess að berja á Íslendingum og það kann að vera einhvers virði fyrir þá og kann að koma illa við okkur, en ég hef ekki verulegar áhyggjur af því enn þá.
    Svo er það röksemdin um einangrun. Menn hafa verið að blása það upp að Ísland muni einangrast eitthvað ef það gerðist ekki aðili að Evrópusamrunanum. Carl Bildt talaði á Norðurlandaráðsþinginu um Róbinson Krúsó, Íslendingar væru komnir í stöðu Róbinsons Krúsós. Carl Bildt var ekki að mæla þessi orð af umhyggju fyrir Íslendingum, síður en svo. Hann var að tala við þjóðina sína. Hann var að reyna að hræða Svía til að samþykkja þann gerning sem hann var búinn að gera. Það er hlálegt að hlusta á þá röksemd frá mönnum eins og hæstv. utanrrh. sem aldrei hafa viljað skítnýta norrænt samstarf að vera allt í einu farnir alveg forlyftir að telja að við eigum að elta hin Norðurlöndin til Brussel og það sé einhver röksemd.
    Það er líka fjarstæða þegar menn eru að halda að þeir séu þeir stólpakarlar að þeir hafi einhver marktæk áhrif ef þeir væru innan samrunans, einhver marktækari áhrif heldur en utan. Auðvitað hefur sá sem frjáls er meiri möguleika á því að setja skilyrði og berjast fyrir rétti sínum en sá sem er bundinn eins og við værum ef við Íslendingar værum innlimaðir.
    Svo er röksemdin um það að sækja um aðild og sjá svo hvað kæmi út. Þetta finnst mér líka ansi langsótt. Ef við sækjum um innlimun, þá auðvitað gerum við það í alvöru. Ríkisstjórnin mundi fylgja eftir umsókninni eins og hún gæti, færi þangað til þegar hún fyndi fyrirstöðu og þá náttúrlega gæfi hún eftir og gæti ekkert annað. Síðan kæmi hún heim og reyndi að berja í gegn samning með hverjum hætti svo sem hann væri. Það liggur alveg í augum uppi og þetta sannast skýrt í Noregi núna þar sem þeir koma með lélegan samning en ætla samt að reyna að fá hann fullgiltan af þjóðinni, þeir eru reyndar ekki búnir að því.
    Nei, brautin var mörkuð hjá Íslendingum þann 5. maí 1993 þegar við samþykktum þál. um tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið. Það er alveg rétt hjá hv. 3. þm. Reykv. sem hann sagði rétt áðan að við hefðum þar með markað stefnu. Það er líka rétt hjá honum að vissu leyti . . .  (Forseti hringir.) Ég er að ljúka máli mínu, frú forseti. Það er rétt hjá honum að vissu leyti að þessi ályktun útilokaði ekki aðild okkar að Evrópusamrunanum einhvern tíma síðar. En það er ekkert í þessari ályktun sem gefur tilefni til að ætla það að við ætlum að sækja um og engin ríkisstjórn hefur samkvæmt þessari ályktun heimild til að sækja um aðild nema samkvæmt sérstöku samkomulagi.
    Þessi tími sem hér er ætlaður til umræðna um þessa viðamiklu skýrslu og þessa aumlegu ræðu er allt of stuttur. Ég verð að ljúka máli mínu, frú forseti, í bili.