Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 16:51:39 (5259)

[16:51]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil ítreka það sem ég benti á áður að fyrir þá sem síðar lesa þingtíðindi fer ég fram á það að ræða hæstv. utanrrh., sem við hljótum að byggja málflutning okkar á, verði gerð að skýrslu þannig að hún liggi fyrir sýnileg í þingskjölum því annars munu menn ekkert vita um hvað við erum að tala þar sem hæstv. ráðherra flutti ekki þá sömu ræðu munnlega hér áðan. Ég vil biðja hæstv. forseta að sjá svo til að þessi ræða verði gerð að skýrslu og formlegu þingskjali.
    Ég mun hins vegar og á ekki marga aðra kosti en að miða mál mitt við umræddu ræðu og mun því hlaupa í gegnum hana í þeirri röð sem atriði koma þar fram. Ég vil byrja strax á fyrstu síðu þar sem svo segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Með hliðsjón af því verður ekki undan því vikist að meta kosti og galla aðildar Íslands að Evrópusambandinu, enda hefur ríkisstjórnin nú þegar ákveðið að fela rannsóknastofnunum Háskóla Íslands það verkefni.`` Síðan segir: ,,Í því efni vonast ríkisstjórnin til að geta átt málefnalegt samstarf við Alþingi um stefnumótun.``
    Ég hef aldrei séð setningu sem þessa. Ef ekki hæstv. ráðherrar eða starfsmenn ráðuneytanna vita það, þá er það Alþingi sem mótar stefnuna og framkvæmdarvaldinu ber að gera það sem Alþingi ákveður og Alþingi hefur þegar tekið ákvörðun í þessu máli og eftir henni ber að fara, ályktun Alþingis frá 5. maí 1993. Um það verður ekkert deilt. Það verður því að koma fram nýtt mál frá hæstv. ríkisstjórn til mats Alþingis ef á að breyta þeirri stefnu. Og auðvitað er vítavert að svo virðist sem ekkert hafi verið gert til að framkvæma ályktun Alþingis. Síðan segir enn og aftur á bls. 2, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á öðru sviði sjávarútvegs, hvalveiða, nálgast einnig sá tími að taka þurfi stefnumarkandi ákvarðanir. Á báðum þessum sviðum er þörf náins samráðs milli ríkisstjórnar og Alþingis.``
    Að heyra þetta. Auðvitað hefur hið háa Alþingi líka markað stefnu í hvalveiðimálum og að henni ber að sjálfsögðu að fara.
    Þá vekur það athygli og er ánægjulegt að sjá þá góðu hugarfarsbreytingu sem orðið hefur hjá hæstv. utanrrh. varðandi norræna samvinnu og væri rannsóknarefni fyrir ýmsa fræðimenn að fara ofan í feril hæstv. utanrrh. um fleiri mál og ég skal koma síðar að öðru atriði. En sú var tíðin að hæstv. núv. utanrrh. hafði allt á hornum sér varðandi norræna samvinnu. Nú talar hann um að það sé óþarft að fjölyrða um menningarlegan og félagslegan ávinning allra Norðurlandanna vegna þessa samstarfs og það er vel. Sannleikurinn er nefnilega sá að norræn samvinna er engri annarri alþjóðasamvinnu lík vegna þess að sú samvinna fjallaði aldrei um fjármagn, hún fjallaði um fólk, um velferð norrænna borgara frá degi til dags. Norðurlöndin hafa aldrei verið í sérstaklega miklum viðskiptum hvert við annað. Íslendingar hafa átt meiri viðskipti við flesta aðra. En norræn samvinna byggðist á gagnkvæmri virðingu milli þessara þjóða án tillits til stærðar. Hún fjallaði nefnilega ekki um hagsmuni hinna stóru og ríku heldur allra norrænna borgara. Og svo sannarlega er ég sammála því, sem hæstv. ráðherra segir nú, að mikil nauðsyn sé að efla norræna samvinnu og veitti nú ekki af að koma einhverju af hugsjónunum bak við hana inn í hið Evrópska efnahagssvæði og Evrópusambandið. Það er ágætt að hæstv. ráðherra hefur uppgötvað þetta seint og um síðir.
    Á bls. 3 er farið að hafa áhyggjur af því að ekki sé ólíklegt að val staðar og tíma norrænna funda verði miðað við innri fundi Evrópusambandsins og undirbúningur og vinnsla samnorrænna ákvarðana fari fram fyrir og eftir fundi Evrópusambandsríkjanna. Hvaðan í ósköpunum er þetta komið? Hvernig dettur mönnum í hug að vera með svona óra í opinberri ræðu hæstv. utanrrh.? Ætli Norðurlöndin ákveði ekki sjálf hvar þau haldi sína fundi og þar á meðal Íslendingar. Svona er því tæplega hægt að taka alvarlega.
    Þá er hér atriði á bls. 4 sem ég vildi gera að umræðuefni sem er endalaus umræða um yfirtöku Íslendinga á þyrlubjörgunarstörfum á Keflavíkurflugvelli. Enn er rætt um að það geti þýtt að við þurfum að festa kaup á þeim tækjabúnaði, þar á meðal þyrlum, og vitaskuld er enn verið að reyna að færast undan því að kaupa þá þyrlu sem menn hafa orðið sammála um að henti best á Íslandi. Þingið hefur marglýst yfir hvað það vill í þeim efnum og ríkisstjórninni ber að fara eftir því og er ekki meira um það að segja. Það er margsannað hér og sagt á hinu háa Alþingi að þyrlukostur Bandaríkjamanna hentar ekkert sérstaklega vel til björgunarstarfa á Íslandi.
    Það er ekki skemmtilegt fyrir íslenskan alþingismann að sjá það á bls. 7 að íslensk stjórnvöld hafi fagnað tillögum um loftárásir á valin skotmörk í Bosníu-Hersegovínu. Ég vil ekki vera einn af þeim þingmönnum sem fagnaði því sérstaklega. Það má deila um nauðsynina en ástæðulaust er að nota orðalag sem þetta.
    Almennt eru skýrslur frá utanrrn. gjarnan alveg einstaklega hrokafullar og kjánalegar og mætti þessi litla þjóð fara að finna sér stað í tilverunni án þess að vera með nokkra minnimáttarkennd og er óþarfi að tala við stórar og merkar þjóðir, milljónaþjóðir, sem voru menningarþjóðir í þúsundir ára á undan Íslendingum, eins og einhver móðir Teresa og verður þetta oft afar hlægilegt, ekki síst þegar menn fara að tala um Austur-Evrópuríkin. Bendi ég hér á grein um meðbyr rússneskra afturhaldsafla á bls. 8. Vel má það vera að ýmislegt hafi mistekist í Rússlandi og í Sovétríkjunum almennt. En það sakaði ekki að þeir sem semja samsetning eins og þennan, sem er miðjugreinin á bls. 8, geri tilraun til að lesa sér ofurlítið til um þessar þjóðir. Ég vil benda þessum ágætu mönnum á grein sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 13. mars sl. eftir Jón Ólafsson sem hefur búið um árabil í Sovétríkjunum og á þar raunar fjölskyldu. Það sakar ekkert að reyna að ræða um þessi mál af einhverju skynsamlegu viti. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa ofurlítið upp úr þessari grein. Hún hefst þannig:
    ,,Stundum er eins og framvinda sögunnar hætti að vera á valdi manna en taki að lúta eigin lögmálum. Þá breytast þeir sem fram að því hafa framkvæmt og stjórnað í peð og málin taka stefnu sem ekki er hægt að skýra með einstökum gjörðum eða misgjörðum. Í einu vetfangi breytast grundvallarreglur og siðferðisafstaða manna, skoðanir þeirra, skilningur og trú. Allt í einu er heimurinn allur annar en hann var.`` --- Það er auðvitað nákvæmlega þetta sem er að gerast í heiminum í dag.
    Síðan segir Jón Ólafsson, með leyfi hæstv. forseta: ,,Eftir að hafa lifað í furðulegu tómarúmi í nokkur ár, sköpuðu af því að ríkið sem þeir réðu liðaðist í sundur og með því vitundin sem Rússar höfðu um sinn stað í heiminum, eru að verða til nýjar hugmyndir gerðar úr gömlum en mótaðar af nýjum aðstæðum.
    Og hverjar eru þessar hugmyndir? Í fyrsta lagi er það sú skoðun að Rússland geti aldrei samsamað sig Vesturlöndum. Það hljóti að hafa menningarlega sérstöðu og þess vegna eigi vestræn þjóðfélagsskipan ekki við nema að litlu leyti í Rússlandi. Í öðru lagi að Rússland hafi sérstakt hlutverk í heiminum og einkum meðal slavneskra þjóða sem fylgja rétttrúnaðarkirkjunni. Í þriðja lagi að Rússar hafi sérstakan rétt til þeirra landa sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum, þau og jafnvel löndin sem fyrir byltingu voru hluti Rússlands eigi að vera áhrifasvæði þeirra.
    Fyrsta hugmyndin er kannski sú umdeildasta í Rússlandi``, segir Jón Ólafsson. Ég get því miður ekki tímans vegna lesið alla greinina sem ég held að hv. alþm. hefðu gott af að heyra. En hann segir annars staðar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Síðasttalda hugmyndin kemur til af því að Rússum fannst fráleitt að Rússland eigi að verða eins og hvert annað þjóðríki. Annaðhvort verði Rússland stórveldi eða þurrkist úr. Og þess vegna sé fyllilega réttlætanlegt að Rússar tryggi áhrif sín alls staðar í kringum sig alveg eins og Bandaríkjamenn tryggi sín áhrif í Suður-Ameríku og víðar.``
    Það er nefnilega þannig að fólkið í Rússlandi hefur ákveðna sjálfsvitund byggða á allri sinni sögu og það eru ekki Vesturlönd sem eiga að breyta henni. Það eiga Rússar að gera sjálfir og Sovétmenn almennt. Það er lágmark að þeir sem þykjast ætla að hjálpa ( ÁMM: Og Sovétmenn?) Sovétríkjunum og lýðveldunum þar ( BBj: Hverjir eru Sovétmenn?) áfram til betra lífs geri það ekki eins og einhverjir hrokafullir valdaherrar heldur með einhverjum skilningi á menningu þessarar þjóðar. Þetta er orðið afskaplega hvimleitt og hlægilegt að sjá samsetning eins og þennan. Á sömu síðu má ég til með að geta þess að ég skil ekki almennilega hvernig fundur tveggja ríkja getur verið nema tvíhliða. Ég held að það hljóti að vera óþarfi að taka það fram að það sé tvíhliða fundur á milli utanrrh. Íslands og Rússlands en það skiptir kannski litlu máli.
    En það er alveg lágmark að krefjast þess að þeir sem fara með utanríkismál í landinu geri það af einhverri alvöru, séu ekki gasprandi um málefni annarra þjóða án þess að hugsa þannig að menn hlusti á þetta furðu lostnir um heimsbyggðina og botni ekki í hvað þetta dvergríki okkar er að þenja sig þarna norður

frá. Það skiptir miklu máli hvernig á utanríkismálum er haldið. Og minnast menn nú hvernig hæstv. utanrrh. talaði um utanríkisþjónustuna á sínum tíma.
    Það er því miður skammur tími og því verð ég að stytta mjög mál mitt þar sem þeir sem kalla sig talsmenn flokka hafa fengið lengri tíma, en við megum nú víst tala aftur. En á tólftu síðu er reyndar kannski í hnotskurn um hvað Evrópusamvinnan snýst. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þessi tvö atriði tengjast. Nú er svo komið í sögu Evrópusambandsins að stjórnkerfi þar sem ætlað var að halda utan um samstarf sex aðildarríkja Kola- og stálbandalagsins og Efnahagsbandalags Evrópu sýnir þegar nokkra bresti með 12 aðildarríki innan sinna vébanda. Hætt er við að enn frekar reyni á þanþol þess þegar aðildarríkin eru orðin 16, tungumálin 12 og framkvæmdastjórarnir 21.``
    Niðurlagið á þessari grein er það að hinum stærri aðildarríkjum þykir sinn hlutur heldur rýr og tækifærin fá til að leiða starf Evrópusambandsins. Hinir stóru og ríku eiga nefnilega að leiða þetta samstarf. Þetta er samvinna sem skortir alla hugsjón. Þetta eru samtök hagsmunapotara en ekki samvinna eins og norræn samvinna hefur verið þar sem verið er að bera fyrir brjósti fólkið í þessum löndum. Og ég skil vel að forseti Tékklands auglýsi eftir framtíðarsýn fyrir þá Evrópu sem vissulega margir evrópskir stjórnmálamenn hafa óskað eftir. En þessi samvinna öll snýst um fjármagn og auðvitað fjármagn hinna ríku og sterku.
    Hvað eftir annað má segja að í þessari ræðu hæstv. ráðherra sé sett fram fullyrðing sem er svo hrakin nokkrum síðum seinna. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta, á bls. 16: ,,Þær Evrópuhugsjónir friðar og framfara sem lágu að baki þegar drög voru lögð að Rómarsáttmálanum á sínum tíma undir forustu þeirra Roberts Schumans og Jeans Monnets eru enn teknar upp og dustað af þeim rykið á hátíðarstundum. En eftir því sem ógnir heimstyrjaldarinnar seinni fölna í minningunni hefur krambúðarhugsun og hagsmunatogstreita stundum orðið meira áberandi í starfi Evrópusambandsins en hugsjónaglóð.`` Og þetta er alveg rétt.
    Nú skilst mér að tími minn sé búinn og ég hlýt að ljúka þá máli mínu en áskil mér rétt til að taka til máls síðar í þessari umræðu þar sem ræða mín er langt frá því búin.