Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 17:26:46 (5266)


[17:26]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst þessi staðhæfing prófessorsins fróðleg og ég vona að hún reynist ekki rétt. Ég hef ekki trú á að hún muni reynast rétt. Norðurlöndin hafa vissulega oft verið keppnautar á ýmsum sviðum þar sem þau eru samt í samstarfi, þau hafi verið að keppa um fjármagn til verkefna t.d. í gegnum Norræna fjárfestingarbankann, Alþjóðabankann og á öðrum stöðum þar sem þau eiga samstarf. Engu að síður hafa þau verið eins og samanfléttaður hópur í samstarfi á þeim sviðum.
    Í umræðunni á Norðurlandaþinginu sem er nýlega afstaðið var það athyglisvert að þeir þingmenn sem ræddu Norðurlandasamstarfið og þetta væntanlega Evrópusamstarf með tilliti til þess að líklegt yrði að fjögur Norðurlandanna yrðu með í Evrópusambandinu og Ísland eitt stæði utan við, þá var mjög ánægjulegt að allfestir þingmenn sem ræddu um þetta töluðu um að þau yrðu að gæta hagsmuna Íslands þegar svo væri komið. Þau yrðu að sjá til þess að Norðurlandasamstarfið sæi um þann þátt m.a. og að á sama hátt og þegar fjögur löndin voru utan Evrópusambandsins og Danmörk ein innan, að samstarf Norðurlandanna var samt öflugt og gott og hefur verið að eflast enn meir, þá getur þetta eins orðið þegar fjögur verða orðin í Evrópusambandinu og eitt utan við. Ég er fullviss þess að Norðurlandasamstarf verður okkur mjög mikilvægt ef þetta verður staðan og ekkert í ræðum þingmannanna á þinginu gaf tilefni til þess að þessi orð prófessorsins reynist rétt.