Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 17:46:32 (5270)


[17:46]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Þessi afstaða hv. þm. Kvennalistans kemur mér ekki á óvart því á síðasta þingi þegar til umræðu var fríverslunarsamningur milli Íslands og Ísraels, þá snerist Kvennalistinn gegn því að sá samningur væri gerður og hv. 10. þm. Reykv. lýsti því yfir að hann sæi enga ástæðu til þess að gera yfirleitt samninga við Ísraelsríki. Þannig að svo virðist að hér komi aftur fram sú afstaða Kvennalistans að hann vilji í raun og veru ekki viðurkenna Ísraelsríki eins og hvert annað ríki í alþjóðlegi samstarfi. Það er alveg furðulegt að heyra þennan málflutning og algerlega ástæðulaust að una því í umræðum um utanríkismál hér á Alþingi Íslendinga að slíkur málflutningur sé hafður uppi án þess að honum sé mótmælt.