Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 17:56:45 (5273)


[17:56]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Í ræðu minni áðan lagði ég áherslu á það að sú braut sem við Íslendingar ættum að fara og sú braut sem Alþingi hefur ákveðið að við skulum fara felist í því að við leitum eftir tvíhliða samningi um viðskiptahlið EES-samningsins við Evrópubandalagið.
    Menn hafa gagnrýnt þessa afstöðu með þeim rökum að það verði torsótt fyrir okkur að ná viðunandi tvíhliða samningi við Evrópusamrunann eftir að félagar okkar í EFTA eru gengnir inn. Þetta eru rök sem ég ekki skil. Búast menn virkilega við því að félagar okkar í EFTA, þ.e. Norðmenn, Svíar, Finnar og Austurríkismenn komi til með að leggja okkur illt þegar þeir eru komnir inn í Evrópusamrunann? Ég held ekki. Ég held að við þurfum ekki að búast við verra af þeim heldur en meðan við höfum átt samstarf við þá í EFTA.
    Okkur er engin nauðsyn á því fullkomna fjórfrelsi sem við erum aðilar að með EES-samningnum. Okkur nægir það að viðskiptahlið samningsins verði tvíhliða og stofnanahliðin breytist og það er ekkert afskaplega flókið mál fyrir okkur að breyta þessari stofnanahlið. Björn Friðfinnsson hefur varpað fram athyglisverðri hugmynd um umboðsmannsembætti í Brussel sem gæti tekið við ýmsum þeim verkefnum sem stofnanahliðin starfar að núna. Ég tel að þá hugmynd eigi menn að þróa og velta því fyrir sér hvort það væri ekki fullnægjandi lausn.
    Hagsmunir Íslendinga voru út af fyrir sig aldrei tryggðir með þessu mikla stofnanabákni sem komið var upp í kringum EES-samninginn. Við áttum það náttúrlega þá upp á náð annarra EFTA-þjóða, fyrir utan náð Evrópubandalagsins, hvort við næðum rétti okkar. Við áttum þá náð ekkert vísa. EES-samningurinn hefur ekki gefið okkur neitt góða raun. Þó hann sé búinn að vera í gildi í tvo og hálfan mánuð þá hafa ekki þær vonir ræst sem fylgismenn samningsins bundu við hann. Það var gyllt mjög fyrir okkur á síðasta vetri hvers lags sæluríki við værum að gerast aðilar að með EES-samningnum. Gróðinn hefur látið standa á sér. Við höfum t.d. ekki fengið þessa 7 milljarða sem hæstv. utanrrh. taldi að við ættum vísa eða hélt fram úr þessum ræðustól í beinni útsendingu í sjónvarpi landsmanna að við mundum fá. Tollalækkuninni á fiskinum var bara svarað með verðlækkun. Það kemur í ljós að EES-samningurinn er okkur ónýtur eða mjög lítils virði til að reka réttar okkar gagnvart Frökkum sem beita okkur ólögmætum viðskiptahindrunum, enda þyrftu EFTA-ríkin að tala einum rómi til þess.
    Ég hef enga trú á því að félagar okkar í EFTA verði okkur nokkuð vitund óvinveittari eftir að þeir eru komnir inn í Evrópusamrunann. Með því að losna undan EES-samningnum og gera tvíhliða samning er möguleiki á því að okkur takist að endurheimta eitthvað af því fullveldi sem við afsöluðum með EES-samningnum. Ég vil brýna hæstv. ríkisstjórn að standa vel að því máli.
    Ég tel sem sagt að tvíhliða viðskiptasamningur sé hin rétta lausn og fagna því mjög að hæstv. forsrh. skuli vera á förum til Brussel eins og hann upplýsti mjög óvænt á Alþingi í gær. Ég tel að það sé skynsamlegt hjá honum að vera ekkert að ræða það við hæstv. utanrrh. þó hann ætli að bregða sér bæjarleið og ég tel að það sé hárrétt hjá hæstv. forsrh. að skilja hæstv. utanrrh. eftir heima, enda eru þeir ekki sömu skoðunar á þessu máli eða það virðist ekki vera eftir því sem þeir láta eftir sér fara opinberlega. Hæstv. forsrh. hefði svo sem getað sagt hæstv. utanrrh. að hann ætlaði til Brussel. Það hefði kannski verið kurteisi af honum en ég er ekkert að harma það þó hann gleymdi að segja honum frá því eða nennti ekki að segja honum frá því, eins og ég býst heldur við að hafi verið tilfellið. Ég held að sjaldan hafi nokkur ráðherra verið auðmýktur annað eins á Alþingi í viðurvist okkar þingmanna af forsætisráðherra sínum og hæstv. utanrrh. sem var að viðurkenna það í sjónvarpinu í gærkvöldi að hann hefði ekki haft hugmynd um að hæstv. forsrh. var með það á prjónunum að fara til Brussel.
    Þetta ber náttúrlega vott um samstarfið í ríkisstjórninni og hvað menn tala þar orðið mikið saman. Hæstv. forsrh. fór fræga ferð með hundinn sinn til Þingvalla fremur en að ræða við hæstv. utanrrh. um landbúnaðarmál þegar sú krísa stóð sem hæst eða einn þáttur þeirrar krísu því hún er endalaus. Og ég held að það hafi verið skynsamlegt hjá honum líka.
    Ég hef fjölyrt um samskiptin við Evrópusamrunann en það er ýmislegt fleira í þessari ræðu sem væri fullkomin ástæða til að ræða um. Það er t.d. sagt frá samningunum við herinn og ég get ekki stillt mig um að láta í ljósi þá skoðun mína að það hafi verið mjög auðmýkjandi fyrir utanrrh. á Íslandi að þrábiðja, eins og hann gerði, Bandaríkjamenn að halda áfram að hafa hér her. Það tel ég ekki vera virðulega framkomu hjá utanrrh.
    Það er líka fjallað óbeint um þyrlukaupin í þessari skýrslu. Sú saga, þyrlukaupamálið allt, er orðin ríkisstjórninni til háborinnar skammar, ekki síst forsrh. sem hefur verið með dagsetningar þar um. Það er að sjálfsögðu lýðum ljóst að hæstv. ríkisstjórn ætlar ekki að beita sér fyrir neinum þyrlukaupum. Það er leitað að hverri undanfærslunni eftir aðra til þess að slá því máli á frest.
    Það er lítillega fjallað um GATT-samningana í þessum pistli hæstv. utanrrh. Það væri freistandi að eyða nokkrum orðum að því en ég ætla aðeins að stikla á stóru. Auðvitað viljum við Íslendingar og komumst ekki hjá því að vera aðilar að GATT-samningnum en í þessari Úrúgvæ-lotu gætti hæstv. utanrrh. ekki hagsmuna íslensks landbúnaðar. Hann stóð ekki á rétti Íslands eins og honum bar að gera og þess vegna er þessi útkoma í GATT-samningum óþægileg fyrir Íslendinga.
    Það er lítillega drepið á Dounreay-málið í skýrslunni en með allt of vægu orðalagi. Ég vil finna að því við hæstv. ríkisstjórn að hún skuli ekki beita sér meira í því máli. Það er grafalvarlegt mál fyrir okkur að svona skuli vera komið með þessa endurvinnslustöð. Ég tel að ríkisstjórninni beri skylda til og þá ekki hvað síst hæstv. umhvrh. að taka það mál miklu fastari tökum en gert hefur verið.
    Það er fjallað í skýrslunni um ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna um veiðar á úthafinu. Ég verð að játa það að ég er nokkuð tortrygginn á þann málatilbúnað sem hæstv. utanrrh. hefur haft í því máli, þ.e. að því leyti að skáka Guðmundi Eiríkssyni þjóðréttarfræðingi, reka hann úr málinu og setja annan mann í það. Ég tel að það hefði verið heppilegra fyrir okkur og líklegra til árangurs á alþjóðavettvangi, jafnvel þó að ágætur maður hafi verið settur í staðinn, að Guðmundur Eiríksson hefði haldið áfram að fylgja málinu fyrir okkar hönd.
    Það er út af fyrir sig fullkomin ástæða til þess fyrir okkur að vanda okkur varðandi fiskveiðar á úthafinu. Ríkisstjórn Íslands hefur dregið lappirnar með mjög aumlegum hætti í Smugumálinu, í Svalbarðamálinu, og ekki gætt okkar ýtrasta réttar og það er ámælisvert hjá hæstv. ríkisstjórn. Útgerðarmenn tóku málið í sínar hendur þrátt fyrir andstöðu ríkisstjórnarinnar. Það getur vel verið að þessar Smuguveiðar stöðvist í kjölfar þess bandamanns sem Norðmenn fengu í Evrópubandalaginu í þeirri deilu en ég tel að við Íslendingar eigum að gæta réttar okkar á úthafinu. Það er ekkert fjarlægur möguleiki fyrir okkur að stunda þar arðbærar veiðar.
    Það er annað í því sambandi sem við þurfum að laga hjá okkur, þ.e. við verðum að heimila að skrá skip, sem þeir kaupa eða láta byggja til þessara veiða, undir íslenskum fána. Það er alveg fáránlegt að neyða íslenska útgerðarmenn til þess að skrá skip sín undir hentifánum. Ég er ekki að mæla með því að hleypa félögum sem eru í erlendri eigu að hluta eða öllu leyti með skip sín undir íslenskum fána, en það er jafnfráleitt að neyða íslenska útgerðarmenn til þess að skrá skip í hentifánaríkjum og það er sjálfsagt að heimila þeim að skrá þau undir íslenskum fána. Það þarf ekkert að hleypa þessum skipum í veiðar í fiskveiðilögsögunni þar fyrir. Þessum lögum verðum við að breyta og það fyrr en seinna því þetta er mjög óheppilegt og skaðlegt fyrir okkur og við eigum að nýta okkur veiðireynslu þessara skipa á fjarlægum miðum.
    Lítillega er minnst á þróunaraðstoð í þessari ræðu hæstv. utanrrh. og einkum þó aðstoðina við Malaví. Nú veit ég ekki hvað hún hefur verið heppileg. En kannski er ljósi punkturinn í henni sá að hæstv. utanrrh. lagði land undir fót og fór til Malaví í fyrra og hitti þar, að hans eigin sögn, ákaflega hygginn mann, dr. Hastings Banda, og hefur það vafalaust verið lærdómsríkur fundur.
    Frú forseti. Ég ætla að láta máli mínu lokið. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að ég tel að það sé ófært fyrirkomulag um jafnveigamikið mál og skýrslu utanrrh. að hafa einungis tvisvar sinnum kortér til að ræða hana. Ég gæti vel notað eitt kortér enn, ég er búinn að tala það sem ég hef rétt til en ég gæti vel notað eitt kortér enn.