Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 18:17:24 (5277)


[18:17]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Það er síður en svo að Framsfl. sé þríklofinn í þessu máli. Það er enginn ágreiningur á milli okkar hv. 7. þm. Reykn. um þetta mál. Ég taldi hins vegar að þetta orðalag, sem þarna var haft eftir honum, orkaði tvímælis. Við viljum báðir, og ég hef hvað eftir annað haldið því fram á þessum tveimur kortérum sem ég hef fengið til umráða, að við ættum að stefna að því að gera viðskiptahlið EES-samningsins að tvíhliða samningi við Evrópubandalagið. Nákvæmlega það sama leggur hv. 7. þm. Reykn. til.
    Ég vil taka það fram að þó innan raða okkar framsóknarmanna hafi í fyrravetur verið ágreiningur um afstöðu til samningsins um Evrópskt efnahagssvæði þá stendur þingflokkur framsóknarmanna algjörlega heill að því að vilja gera tvíhliða viðskiptasamning við Evrópubandalagið. Við erum búnir að ræða á tveimur fundum nýlega um Evrópumálin og það er engin breyting á afstöðu Framsfl. að við viljum ekki innlimast í Evrópusamrunann.