Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 18:40:42 (5283)


[18:40]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég ætla á þeim skamma tíma sem okkur er skammtaður að minnast á nokkur fleiri atriði en ég gerði í minni ræðu sem fram koma í ræðu hæstv. utanrrh. Ég minntist m.a. á að alls kyns yfirlýsingar sem standa á einni síðu yrðu að engu á þeirri næstu og skal ég taka dæmi, með leyfi hæstv. forseta, og er þá komin á síðu 19:
    ,,Úrúgvæ-samningurinn hefur grundvallarþýðingu bæði fyrir Ísland og heimsbúskapinn`` segir hér. En neðst á næstu síðu segir: ,,Ekki er unnt að svo stöddu að reikna út þann ávinning sem Ísland hefur af Úrúgvæ-samningnum og beinum tollalækkunum á sjávarafurðum eða öðrum útflutningsafurðum Íslands eins og gert var með EES-samninginn þar sem tilboð aðildarríkjanna hafa ekki enn verið gerð opinber. Þetta mun skýrast á allra næstu dögum.``
    Það hefði mátt bíða í þá fáu daga með það að fullyrða hvort samningurinn hefði grundvallarþýðingu fyrir Ísland.
    Enn vandræðalegri er grein á bls. 21 varðandi áhrif Úrúgvæ-samningsins á landbúnaðarmál og skal nú engin lá hæstv. ríkisstjórn þó að það vefjist fyrir henni að ræða um þau mál eins og þau standa nú hér á hinu háa Alþingi, enda er þessi grein með öllu óskiljanleg og skal ekki farið út í það frekar. En ég ætla að víkja aðeins að því hve ábyrgðarlausir stjórnmálamenn geta verið. Við höfum margsinnis fylgst með því hvernig afstaða manna er höfð að engu. Þeir sem höfðu rétt fyrir sér fá sjaldan mikið hrós fyrir það. Þeir sem höfðu rangt fyrir sér koma blygðunarlaust nokkrum árum seinna, hafa þá skipt um skoðuð ef nauðsyn þvingaði þá til og eru nokkur dæmi um það hér og ég ætla að víkja aðeins að því, frú forseti.
    Hér er minnst á að íslensk stjórnvöld hafi haft miklar áhyggjur af vaxandi endurvinnslu á geislavirkum úrgangi á Bretlandi, bæði í Sellafield og Dounreay. Við þingmenn Alþb. höfum árum saman, bæði á þingum Norðurlandaráðs, t.d. sú sem hér stendur, og hér á hinu háa Alþingi barist fyrir því að eitthvað væri að gert til að stöðva þann ósóma sem þar á sér stað. Við höfum lagt fram skýrslur um óeðlilega háa dánartíðni barna á svæðinu í kringum þessar endurvinnslustöðvar en við höfum ekki orðið vör við mikil viðbrögð. Þó hafa vissulega sumir ráðherrar reynt að mótmæla við bresku stjórnina en það er gott að það er loksins að renna upp fyrir mönnum að hér er alvarlegt mál á ferð og ég treysti hæstv. núv. umhvrh. til þess að taka á því máli af mikilli festu því að losun geislavirkra efna í sjó á þessu svæði gæti skipt Íslendinga miklu máli og verið mikil hætta fyrir fiskstofnana hér við land.
    Síðan er sagt frá samþykkt sem gerð var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á árinu 1992 um að halda ráðstefnu um fiskveiðar á deilistofnum, þ.e. stofnum sem veiddir eru bæði innan sérefnahagslögsögu og á úthafinu og þar stendur þessi setning: ,,Og niðurstöður ráðstefnunnar skyldu vera í fullu samræmi við hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna.`` Það er gott að heyra það því að sú var tíðin að menn fóru létt með hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og vil ég þá aðeins víkja að margumræddu hvalveiðimáli því að það er með það mál eins og önnur að enginn er ábyrgur fyrir þeim skelfilegu mistökum sem þar voru gerð.
    Þá skal ég víkja aðeins að hlut Alþfl í því máli. Það var nefnilega þáv. annars ágætur hv. þm. Eiður Guðnason sem bar fram þáltill. hér á hinu háa Alþing um að hafnar skyldu hvalveiðar þvert ofan í bann Alþjóðahvalveiðiráðsins sem einungis átti að standa í fjögur ár. Hið háa Alþingi bar gæfu til að fella þessa tillögu hv. þm. sem var að vísu að gæta hagsmuna, eins og því miður er stundum of mikið gert af, síns kjördæmis sem var Vesturland. Hann gerðist síðan umhvrh. eins og við öll vitum og menn skyldu nú halda að nú yrði farið að veiða hval. En auðvitað hafði þá hæstv. ráðherra þáv. opnað augun fyrir þeim mistökum sem þarna höfðu verið gerð. Og mér þætti gaman að einhvern tíma yrði sett nefnd í það að rannsaka hversu miklum fjármunum Íslendingar töpuðu á heimskulegri framkomu sinni í því máli og þeir ágætu ráðherrar hæstvirtir sem ábyrgð báru á því yrðu kallaðir til ábyrgðar því það var ekki lítið sem við töpuðum, og þá er ég aðeins að tala um peninga, í töpuðum mörkuðum vegna þessa máls og við erum enn tortryggð vegna þess, að ég nú ekki tali um þá virðingu sem við misstum meðal annarra þjóða fyrir kjánalega framgöngu í þessu máli.
    Sú sem hér stendur beitti sér í þessu máli við lítinn fögnuð jafnt andstæðinga sem samherja og það er kannski til dæmis um hversu viðkvæmt þetta er enn að minn ágæti þingflokkur setti að sjálfsögðu í nefnd til að fjalla um hvalveiðar þann félaga minna sem ákafast vildi berjast fyrir því að hvalveiðar yrðu hafnar en auðvitað ekki þann þingmann sem hafði rétt fyrir sér í þessu máli. Nú hefur henni sem betur fer bæst góður liðsmaður meðal skynugs fólks og á ég þá við hv. 3. þm. Reykv. Björn Bjarnason sem er fyrir löngu búinn að sjá hvers konar herferð gegn Íslandi var farin í þessu kjánalega máli. Það verður hins vegar mitt eilíft rannsóknarefni hvers vegna enginn hefur sérstakar áhyggjur af pólitískri framtíð hv. 3. þm. Reykv. né nokkurri manneskju detti í hug að leggja hatur á hann fyrir en svo sannarlega varð þess vart hér á árum áður. Við skulum vona að ríkisstjórnir framtíðarinnar geti bætt fyrir þessa hegðun sína í þessu leiðindamáli sem aldrei skipti Íslendinga neinu fjárhagslegu máli, gerði ekkert nema skaða bæði æru Íslendinga meðal annarra þjóða og stórlega varðandi tekjur svo að ég ætla að vona að nefndin sem ég fékk ekki að fara í þó ég sæktist eftir því vegna afstöðu minnar í þessu máli beri gæfu til þess að fara að hafréttarsamningnum, greinum 65 og 66 og 122 og vona ég að einhver leiðrétti mig ef ég man ekki lengur númerin. Það er nefnilega þannig í öllum viðskiptum manna á meðal og meðal þjóða að það er ekki stundum hægt að fara eftir þeim samningum sem samþykktir hafa verið heldur þarf alltaf að gera það. Aðeins á þann hátt getum við staðið saman um að vernda jafnt fiskstofna sem stofna annarra jarðarinnar skepna og almennt það umhverfi sem við öll eigum allt undir og skiptir þá ekki máli hvort gróður og dýr eru í okkar landi eða einhverjum öðrum. Þau nýtast okkur öllum sameiginlega eins og menn ættu að vita. En það er það sem er svo niðurdrepandi við að vera í stjórnmálum að hafi menn ákveðna afstöðu í einhverju máli er gjarnan allt gert til að afskræma hana og afflytja til þess að gera þann sem þorir að standa við þá sannfæringu sem hann hefur hlægilegan og kjánalegan og það gleður mig að hv. 3. þm. Reykv. getur óáreittur haft þá afstöðu sem ég hafði í hvalveiðimálinu.
    Hér er minnst á, frú forseti, mikilvægar ályktanir um réttindi barna og allt sem mannréttindum barna viðkemur. Það tókst með herkjum að fá ríkisstjórnina til að staðfesta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og átti ég margar fyrirspurnir um hvað því máli liði og það er gott að það tókst og má þakka það hæstv. fyrrv. ráðherra Jóni Sigurðssyni. En ég sakna þess að sjá ekki áherslur ríkisstjórnarinnar á eitt mikilvægasta málið varðandi barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að hæstv. utanrrh. ítreki að það sé alvara í því að samþykkja frv. til laga um embætti umboðsmanns barna því að nú er það hæstv. félmrh. sem flytur frv. sem ég hef flutt fjórum sinnum á hinu háa Alþingi og það hlýtur að vera óhætt að samþykkja það nú.
    Hér er lítillega vikið að framkvæmdaáætlun frá leiðtogafundi Evrópuráðsins um víðtæka upplýsingaherferð gegn kynþáttahatri, útlendingahatri, gyðingahatri og skorti á umburðarlyndi. Ég hlýt að benda þeim sem þessa ræðu sömdu á að á bls. 4 í hinni fyrri skýrslu ráðherrans frá í vetur sem fjallar um málefni Suður-Afríku er orð sem væri bannað með lögum í Bandaríkjunum. Þar er talað um að tekist hafi samningar ríkisstjórnar Suður-Afríku og blökkumanna. Það er bannað að segja svona orð í Bandaríkjunum og má reka mál gegn mönnum fyrir það. Og í bandarískum háskólum er mikil áhersla lögð á að slík orð fari ekki yfir varir nokkurs manns.
    Það vill nú svo til að þessir blökkumenn ef ég man rétt, ætli það séu ekki 3 / 4 af íbúum Suður-Afríku og það er fólkið sem átti þar alltaf heima. Það átti þar alltaf heima þangað til hvíti minni hlutinn kom til að kúga það og arðræna þannig að ég vænti þess að við sjáum ekki svona orð í opinberum plöggum frá utanrrn.
    Tími minn er sennilega á þrotum en að einu vil ég þó víkja sem er kannski meira fyndið en alvarlegt mál. En svo vill nú til að á sínum tíma fór vaskur og nýskipaður hæstv. utanrrh. mjög niðrandi orðum um allt sem vék að utanríkisþjónustunni. En nú hefur hann breytt um hugarfar og er það gott vegna þess að utanríkisþjónustan gegnir að sjálfsögðu mikilvægu hlutverki. Hann talar um að nú þurfi að efla hana á allan hátt en samdráttur gerir það vitanlega erfiðara en oft áður. En á 50 ára afmæli lýðveldisins, og ég geri ekki ráð fyrir að neinn hv. þm. viti þetta, þá sá utanrrn. ástæðu til að segja upp störfum ræðismanni Íslendinga í Chicagoborg eftir nær 50 ára störf svo smekklegt sem það nú var þar sem hann óskaði eindregið eftir að enda starfsdag sinn þegar lýðveldishátíð hefði farið fram, maðurinn er enda af íslenskum ættum og hefur sterk tengsl við Ísland. Hann var hins vegar hrakinn frá vegna þrýstings góðvina núverandi stjórnvalda. En það sem tók við er allskondið. Við erum að fagna því að vera laus við Dani eftir margra árhundraða áþján. Íslenska konsúlatið í Chicago hefur verið lagt niður með öllu og öll viðskipti Íslendinga falin danska konsúlatinu og vekur þetta mikla kátínu meðal íslenskra íbúa Chicagoborgar. Ekki skal ég amast við því að Danir annist málefni Íslendinga í einni borg í Bandaríkjunum en lágmark væri nú að upplýsa þá sem þar eru um þetta vegna þess að ég held að þó að fólk hafi hið frjóasta hugmyndaflug dytti því satt að segja ekki í hug að leita með sín mál til danska konsúlatsins eða dönsku ræðismannsskrifstofunnar. Ég veit svo sem ósköp vel að þetta er sparnaður sem kannski á fullan rétt á sér en skondið verður það að teljast.
    Að lokum, frú forseti. Þessi umræða hefur um margt verið ágæt, málefnaleg og fróðleg á margan hátt. Sannleikurinn er sá að í viðskiptum milli þjóða dugar enginn stráksskapur, engin lítilsigld flokkapólitík. Við erum ein þjóð í þessu landi. Og við erum engar beiningakerlingar. Við erum menntuð þjóð, við erum þjóð með ákaflega sterka þjóðernisvitund, við þekkjum okkar stað í tilverunni, við erum rík þjóð, við búum hér á gullkistu, við þurfum engra beininga að biðja. Við eigum að eiga góð samskipti við allar þjóðir. Við eigum að gera það án alls hroka. Við höfum ekki efni á að kenna neinum neitt, við getum þó ýmislegt til málanna lagt sem vel fer í okkar samfélagi, en aðalatriðið er að við önnumst okkar utanríkisviðskipti og öll samskipti við aðrar þjóðir af ábyrgð.