Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 19:13:45 (5286)


[19:13]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að fara með vísubrot úr Hávamálum. Það er sisvona:
          hraðmælt tunga
          nema haldendur eigi,
          oft sér ógott um gelur.
    Það hefur komið í ljós í þessum umræðum að hæstv. utanrrh. á sér haldendur fáa í afstöðu sinni til Evrópusamrunans og merkustu tíðindi þessarar umræðu eru náttúrlega þau hvernig hv. 3. þm. Reykv., formaður utanrmn., tók hæstv. utanrrh. í nefið. Hann benti réttilega á að Alþingi hefði þegar markað stefnuna og engin ríkisstjórn hefði heimild til þess að bregða frá því öðruvísi en með samþykkt Alþingis og lokaði þar með rækilega munninum á hæstv. utanrrh. og hann er einangraður í málinu. Formaður utanrmn. lokar á honum munninum. Hæstv. forsrh. nennir ekki að tala við hæstv. utanrrh. Sjútvrh. vill ekki koma heim með samning eitthvað líkan þeim sem Jan Henry T. Olsen kom með til Noregs og hann stendur einn uppi, hæstv. utanrrh., í þessu máli með sinn litla flokk en þar er hann að vísu eins og Gúlliver í Putalandi.
    Samningsniðurstaða Noregs styður mjög þá skoðun okkar að innlimun Íslands komi ekki til greina og það er spaugilegt að hlusta á hæstv. utanrrh. þegar hann hefur ekki annað að segja í lok þessarar umræðu en að lesa upp áróðursræðu sem Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, flutti í morgun.
    Varðandi norræna samvinnu þá er hæstv. utanrrh. búinn að segja margt um norræna samvinnu í gegnum tíðina og ég man ýmislegt af því og get flett því upp. Ég minnist þess að við áttum orðastað 1985 í sjónvarpsþætti og það getur vel verið að ég fletti upp á þeim sjónvarpsþætti og fái útskrift af honum. Væntanlega tekst mér það og get þá borið til baka betur það sem hæstv. utanrrh. var að reyna að sverja af sér, þ.e. um norræna samvinnu.