Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 19:18:13 (5288)


[19:18]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér þykir hæstv. utanrrh. ganga allt of langt í einhvers konar málsvörn fyrir samningsniðurstöðu Norðmanna í sjávarútvegsmálum við Evrópubandalagið. Undarlega langt. Það getur ekki verið hlutskipti hins íslenska utanrrh., mér liggur við að segja að fara að blanda sér inn í hönd farandi kosningabaráttu í Noregi um þennan samning þeirra. Það á ekkert að kjósa um hann hér uppi á Íslandi --- eða hvað, hæstv. utanrrh.? Hefur hæstv. utanrrh. e.t.v. einhver áform uppi um það að koma þessu máli með einum eða öðrum hætti inn í íslenskar kosningar og er það þess vegna sem hann æfir sig hér í ræðustólnum næstum að segja eins og málsvari samningsniðurstöðu Norðmanna á sviði sjávarútvegs?
    Ég er hér með í höndunum t.d. ,,Pressemelding fra det kongelige fiskeridepartement``. Þar er þetta auðvitað fegrað allt saman mjög í þeim anda sem hæstv. utanrrh. gerði hér en það er til heimanota í Noregi og Norðmenn hafa ekki snarað þessu á íslensku. En það var engu líkara en hæstv. utanrrh. væri að lesa upp úr einhverjum slíkum áróðursskjölum sem væru e.t.v. brúkleg sem innlegg í kosningabaráttuna um EB-aðild í Noregi en ekki í rökræður um þetta uppi á Íslandi. Það er alveg á hreinu í mínum huga.
    Síðan klifar hæstv. utanrrh. á því að það sé nauðsynlegt að skoða þetta og hitt og láta háskólann rannsaka og svo framvegis, í ljósi breyttra forsendna. Breyttra forsendna hvað? Hæstv. utanrrh. er aleinn um þá skoðun að það séu breyttar forsendur. Það er niðurstaða umræðunnar í dag. Fulltrúar allra annarra flokka hafa í raun og veru talað út frá þeim grundvelli að það séu einmitt óbreyttar forsendur og niðurstaða Norðmanna í samningunum sé akkúrat sönnun þess ef eitthvað er, heldur á hinn veginn að hún hafi enn styrkt þá stefnumörkun Íslendinga að við eigum ekkert erindi inn í Evrópubandalagið. Ég tel að með því að klifa hér á breyttum forsendum sé utanrrh. í raun og veru að skjóta sjálfan sig í lappirnar og viðurkenna skipbrot sinnar eigin stefnu um hina hátimbruðu höll EES og tveggja stoða lausnin er auðvitað hrunin ofan í hausinn á honum.