Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 19:20:44 (5289)


[19:20]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég taldi rétt að hér kæmi fram í þessum umræðum greinargerð norska forsætisráðherrans, norskra stjórnvalda um þeirra samningsárangur var aðeins ein. Hún var sú að allnokkrir hv. þm. sem hér hafa talað hafa verið með fullyrðingar sem ganga í þveröfuga átt, fullyrðingar um að samningsniðurstaðan sé svona og svona, en af opinberri hálfu hafa verið birtar í Noregi upplýsingar sem afsanna það. Með öðrum orðum, menn hafa verið að rangtúlka samningsniðurstöðuna. Þetta er einfaldlega mál sem varðar tvær sjávarútvegsþjóðir miklu og það er nauðsynlegt að við áttum okkur á því hvað er hið sanna í málinu. Hv. þm. kallaði þetta áróður. Ég leyfi mér að fullyrða það að norski forsætisráðherrann leyfir sér ekki að fara með einhverja staðlausa stafi þegar hún gerir norska Stórþinginu grein fyrir samningsniðurstöðum enda yrði það þá fljótlega rekið til baka. Ég er einfaldlega með þessu að biðja menn um að kynna sér norsku samningsniðurstöðuna betur og láta vera að fara með áróður og fleipur og staðlausa stafi og ég fullyrði að það er ástæða til þess fyrir okkur ef samningsniðurstaðan er þrátt fyrir allt betri en ráð mátti gera fyrir fram, þá mundum við skoða það rækilega og draga okkar eigin ályktanir af því.