Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 19:25:53 (5292)


[19:25]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Má ég í upphafi ræðu minnar minna hæstv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, á það að hann er utanríkisráðherra Íslands. Umræður um það hvort Gro Harlem Brundtland fari með áróður eða sannleikann í ræðu í Stórþinginu í dag eru út af fyrir sig fróðlegar umræður en þær koma kjarna þess máls sem við erum hér að fást við, hæstv. utanrrh., ósköp lítið við. Það sem hins vegar er alveg ljóst eftir þennan dag er að niðurstaðan er með þeim hætti að utanrrh. Íslands verður að taka mið af henni. Utanrrh. Íslands, Jón Baldvin Hannibalsson, --- nú vil ég biðja hæstv. umhvrh. að vera ekki að trufla ráðherrann meðan ég er að tala við hann, klukkan gengur hér og ég ætla ekki að nota minn tíma til að tala við ráðherrann meðan þeir eru að tala saman. --- Hæstv. utanrrh. hefur flutt þá kenningu hér síðustu sólarhringa, og hún var meginuppistaðan í ræðu hans hér í dag, að niðurstöður, svo að ég vitni orðrétt í ræðu hæstv. ráðherra, að niðurstöður þessarar lotu aðildarviðræðna gefi nýjar forsendur til þess að meta kosti og galla aðildar, og á þá við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Kjarninn í málflutningi hæstv. utanrrh. eins og hann flutti líka í ræðu sinni hér áðan, var sá að það væru veigamikil rök fyrir því að forsendur hefðu breyst og það væru komnar nýjar forsendur, hæstv. utanrrh.
    Í þessari umræðu í dag hefur það komið í ljós að hæstv. utanrrh. er einn um þessa skoðun. Fulltrúar fjögurra flokka á Alþingi, Sjálfstfl., Framsfl., Alþb. og Kvennalista, hafa í umræðunni hafnað þessari skoðun, hæstv. utanrrh., alveg skýrt og afdráttarlaust. Það er hin veigamikla og pólitíska niðurstaða þessara umræðna, hæstv. utanrrh. Lærdómur utanrrh. nýtur ekki stuðnings á Alþingi, langt frá því. Og þá er auðvitað kjarni málsins --- og ég ber fram þá spurningu hér hvort hæstv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, sé reiðubúinn að draga þann lærdóm af þessum umræðum sem blasir öllum við að hann hefur ekki meiri hluta sem utanrrh. Íslands fyrir þessari afstöðu. Hann getur haft hana persónulega. En hún getur ekki verið afstaða utanrrh. Íslands þegar hann fer á erlendan vettvang eða innlendan vettvang vegna þess að Alþingi hefur hér í umræðunum í dag hafnað þessari skoðun. Utan þings hafa síðan hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. alveg skýrt gert það ljóst að þeir hafna henni einnig þannig að það er ljóst að formaður Sjálfstfl., formaður Framsfl., formaður Alþb., fulltrúi Kvennalistans, formaður utanrmn. og sjútvrh. Íslands hafa allir hafnað þessari skoðun. Og í veigamiklu máli af þessu tagi er auðvitað mjög mikilvægt að utanrrh. lúti afdráttarlausum og skýrum vilja meiri hluta Alþingis í grundvallarhagsmunamáli Íslands hvað þetta snertir. Ég spyr hæstv. utanrrh.: Er hann reiðubúinn að draga réttar ályktanir af þessari staðreynd því að þetta er staðreynd, hæstv. utanrrh., veigamikil pólitísk staðreynd sem hér hefur birst í dag og hún er satt að segja svo afgerandi að allt skak um það hvað Gro Harlem Brundtland og hvaða afstöðu menn hafa í Noregi er bara hjóm. Hér erum við að ræða afstöðu Íslands, hæstv. utanrrh., og embætti utanrrh. snýst um það að halda fram þeirri afstöðu og vinna þeirri afstöðu brautargengi. Svo getur hæstv. utanrrh. komið hér með vangaveltur eins og hann gerði í fyrstu ræðu sinni í dag og einnig í ræðu sinni hér áðan þar sem hann hefur margar setningar á orðum eins og þessum: Ef Norðurlöndin gera þetta. Ef Evrópubandalagið gerir þetta og ef þetta og ef hitt. Jú, jú, það er hægt að velta því fyrir sér. En ekkert af þessum efum hefur gerst, hæstv. ráðherra. Ekki eitt einasta. Ef þau koma einhvern tíma til með að gerast, þá skulum við ræða þann veruleika þegar og þá en það hefur bara ekkert af þessum efum gerst. Og það er ekki hægt að reka utanríkisstefnu þjóðar á efum, hæstv. utanrrh.
    Ég bendi hæstv. utanrrh. á það að hann hefur hér í þingsal t.d. haldið því fram að samningaviðræður EFTA-ríkjanna mundu taka svo langan tíma vegna eðlis Evrópubandalagsins að EES mundi standa óbreytt í mörg ár. Þetta var kenning sem hæstv. utanrrh. flutti af miklu öryggi og vissu í þessum sal. Þessi kenning hefur nú verið afsönnuð, hæstv. utanrrh. ( Utanrrh.: Hefur þá eitthvað breyst?) Hefur þá eitthvað breyst? Nei, það hefur ekkert breyst fyrir okkur sem vorum vissir um það að staðfestur pólitískur vilji Evrópusambandsins sem Kohl lýsti á fundi Norðurlandaráðs og hæstv. formaður utanrrn. rifjaði mjög réttilega og ágætlega upp hér í dag og það ber að þakka þá upprifjun vegna þess að hún sýndi fram á það að þetta er

allt búið að vera í lógísku ferli. Þetta er engin uppákoma sem var að gerast hérna síðustu daga. Þetta er búið að vera í samfelldu lógísku ferli Evrópusambandsins annars vegar og forusturíkja þess og hins vegar EFTA-ríkjanna og utanrrh. --- sem kallar hér fram í núna: Hefur þá ekkert gerst? --- er bara að afhjúpa það að hann hafi ekki áttað sig á því lógíska ferli sem hér hefur verið í gangi um nokkur missiri þannig að spásögn hans sjálfs um efið gagnvart EES hvað snertir tíma aðildarviðræðna hefur ekki ræst.
    Ég benti einnig á það hér í dag að spásögn hans um einangrun Sviss hefur heldur ekki ræst. Það er nefnilega þannig um utanríkismál, hæstv. utanrrh., og er dálítið leitt að þurfa að minna ráðherrann á það eftir svona langan tíma í embætti að það er ekki hægt að reka utanríkisstefnu á efum. Það er hægt að ræða hana fram og aftur, ef þetta og ef hitt, en það er ekki hægt að reka hana á efum. Það er einmitt þess vegna sem samþykkt Alþingis frá í maí í fyrra er raunsæ vegna þess að hún var líka hluti af þessu lógíska ferli sem búið er að vera í gangi í Evrópu í nokkur missiri þar sem bandalagsþjóðir okkar í EFTA tóku ákveðna afstöðu. Við drógum ákveðinn lærdóm af því. Evrópusambandið fylgdi fram ákveðinni afstöðu. Frans Andriessen lýsti yfir ákveðnum vilja Leons Brittans núna fyrir nokkrum dögum síðan og allt er þetta búið að vera í mjög skynsamlegri samfellu út frá hagsmunum og vilja hvers og eins. Hæstv. utanrrh., sem er eins og Lísa í Undralandi í þessum veruleika, virðist vera eini maðurinn sem ekki vill fylgja þessum veruleika og lifir í einhverjum svipuðum draumheimi og sendiherra Íslands hjá EFTA um að nú sé allt í einu kominn upp einhver krísa þannig að við höfum bara, Íslendingar, nokkra klukkutíma eða fáeina daga til að móta nýja stefnu. Þess vegna segi ég það sama við hæstv. ráðherra og hæstv. forsrh. sagði í sjónvarpinu: Það hefur ekkert breyst. Það sem hefur gerst er það að yfirlýst stefna EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins, sem er búin að vera yfirlýst stefna þessara ríkja í rúmt ár, hefur verið staðfest.
    Það er líka mjög athyglisvert, hæstv. utanrrh., að sá eini af þingmönnum Sjálfstfl. sem hefur utan þings reynt að styðja þennan málstað um Evrópusambandsaðild sem hæstv. utanrrh. hefur verið að tala utan í hér í dag, er hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem hefur ekki tekið til máls í þessum umræðum. Það er mjög athyglisvert, ég tel það vera mjög athyglisvert. Það sýnir mér a.m.k. að það er svo afgerandi pólitískur stuðningur innan Sjálfstfl. fyrir þeim málstað sem hv. þm. Björn Bjarnason hefur talað fyrir hér í dag og utanrmn. sameinaðist um í fyrra að þessi eini þingmaður Sjálfstfl. kemur ekki í umræðuna og gerir þannig auðvitað allan málflutning sinn utan þings mjög marklítinn. Síðan segir hæstv. utanrrh.: Er ekki vandi sem er rétt að láta Háskóla Íslands kanna? Ef hæstv. utanrrh. hefði haft áhuga á því að biðja um faglega úttekt háskólans á kostum fyrir Ísland þá hefði mátt biðja um athugun á því hvernig væri skynsamlegast að laga samninginn um Evrópskt efnahagssvæði að þessum nýja veruleika um tvíhliða samþykki, hvernig ætti að breyta stofnanahlutanum, hvernig ætti að tryggja eftirlitið o.s.frv. og biðja þá sérfræðinga í háskólanum sem kunnáttu hafa í þeim greinum að koma með hugmyndir um það svo að hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. gætu lagt þær hugmyndir fram í viðræðunum í Brussel. En það er ekki gert. Hæstv. utanrrh. hefur ekki beðið einn einasta mann um faglega vinnu til að útfæra þá stefnu sem Alþingi hefur mótað og staðfest hefur verið í dag að fjórir flokkar á Alþingi styðja, ekki einn einasta mann. En í staðinn hefur hann beðið batterí uppi í háskóla að fara í ef-spekúlasjónir um pólitískan valkost sem enginn vilji er fyrir, hæstv. utanrrh. Það er niðurstaða þessara umræðna. Það er enginn vilji fyrir því.
    Ég benti á það fyrr í dag að í þeirri stefnumótun sem Alþb. sendi frá sér í júní 1992 voru settar fram ákveðnar hugmyndir um það hvernig væri hægt að breyta EES-samningnum í tvíhliða samning. Menn kannski veittu þeim atriðum í ályktuninni ekki svo mikla athygli þá af því að menn voru í umræðunni að horfa á aðra þætti. En það var að mjög vandlega athuguðu máli og eftir ítarlega könnun sem við settum þá þætti fram og mig langar í lok þessara umræðna að lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta, lýsingu okkar á því hvers eðlis þessi tvíhliða samningur ætti að vera. Ég held að það væri mjög fróðlegt og gagnlegt fyrir hæstv. utanrrh. að fara nú að skoða veruleikann á grundvelli þess. Niðurlag samþykktar Alþb. í júnímánuði 1992 var á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Alþb. leggur til að sú niðurstaða verði endurskoðuð þegar í haust með það að markmiði að gera sjálfstæðan tvíhliða viðskiptasamning milli Íslands og EB. Höfuðatriði hans verði:
    1. Sjálfstæður tvíhliða viðskiptasamningur milli Íslands og EB verði m.a. byggður á viðskiptaþáttum EES-samningsins, sérstökum sjávarútvegssamningi og bókun 6 í samningum við EB sem verið hefur í gildi síðan 1976.
    2. Framkvæmd tvíhliða samnings milli Íslands og Evrópubandalagsins verði einfaldari í sniðum heldur en samkvæmt EES-samningnum. Eingöngu verði sett á fót samstarfsnefnd um eftirlit og gerðardómi beitt verði deilumál um framkvæmd samningsins ekki útkljáð. Pólitísk vandamál verði leyst í ráðherraumviðræðum.
    3. Í tvíhliða samningi Íslands og EB verði m.a. byggt á hugmyndum um frjálsa vöruflutninga, fólksflutninga, þjónustustarfsemi, fjármagnsflutninga og almenna samkeppni auk þess sem hafðar verði til hliðsjónar reglur Norðurlandanna um vinnumarkað og búseturétt og afdráttarlaus réttur Íslendinga til að skipa forræði og eignarhaldi á auðlindum til lands og sjávar verði tryggður með sérstökum lögum.
    4. Í samningum um viðskipti verði einnig fjallað um samvinnu Íslands og EB á öðrum sviðum, svo sem varðandi rannsóknir og þróun, umhverfismál, menntun og menningu.``
    Alþb. setti þegar árið 1992 fram þessa lýsingu á því hvernig ætti að skipa þessum málum og það væri óskandi að hæstv. utanrrh. hefði varið tíma sínum hér í dag til þess að lýsa viðhorfum sínum til þessa vanda sem þingið vill að farið sé í að leysa á grundvelli ályktunar frá í fyrra, sem fjórir þingflokkar telja enn

afdráttarlaust að eigi að gera, í stað þess að verja dýrmætum tíma sínum hér til að lesa gamla ræðu eftir Gro Harlem Brundtland.