Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 19:42:53 (5294)


[19:42]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Virðulegum þingmanni Birni Bjarnasyni er alveg velkomið að nota mig til að ræða við utanrrh. Þetta andsvar var fyrst og fremst innlegg í ,,díalóg`` hv. þm. við hæstv. utanrrh., samanber lokaorðin um það að hæstv. utanrrh. hefði verið að tala hér frá norskum sjónarhóli en við ættum fyrst og fremst að tala frá íslenskum sjónarhóli. Ég sagði það aldrei í mínum málflutningi áðan að það væri ágreiningur um þessa ályktun Alþingis. Það var ekki það sem ég sagði, hv. þm. Það veit þingmaðurinn sjálfsagt því hann hlustar grannt á það sem menn segja. Það sem ég sagði að hefði skilið á milli manna hér í dag var að hæstv. utanrrh. --- ég man ekki hvort hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir gerði það einnig --- flutti bæði í sinni upphafsræðu og sinni seinni ræðu það mál að forsendur fyrir stefnumótun Íslands hefðu breyst. Hér hefur það komið skýrt fram, m.a. hjá hv. þm. í ágætri ræðu hér í dag, að forsendurnar hefðu ekki breyst. Steingrímur Hermannsson er á sömu skoðun, forsrh. hefur lýst sömu skoðun, ég lýsti sömu skoðun. Ég var að segja það hér að forustumenn fjögurra flokka hefðu greinilega þá afstöðu að forsendurnar hefðu ekki breyst. Ég veit að hv. þm. kann vel að gera greinarmun á þessu en skilur líka mikilvægi þess hvort menn eru sammála því að forsendur hafi breyst eða ekki.
    Ég þarf í raun ekki að segja neitt annað út af þessu andsvari. Það var út af fyrir sig ágætt innlegg til þess að skerpa þessa hluti. Vandi okkar er hins vegar sá að hæstv. utanrrh. talar bara ekki sama takt og aðrir sem hafa talað í þessum umræðum.