Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 19:51:20 (5299)


[19:51]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Tilraun hv. þm. til að mynda í andránni nýjan meiri hluta á Alþingi Íslendinga er nú fyrir bí. En þá er næsta kenning að þetta sé í annað sinn sem utanrrh. freisti þess að fá meirihlutasamþykki fyrir því að láta fara fram könnun á kostum og göllum ES-aðildar.
    Nú vill svo til að ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt það með stuðningi tveggja þingflokka, meiri hluta á Alþingi Íslendinga, að slík könnun fari fram. Sú könnun mun fara fram. Í framhald af þeirri könnun á vegum Háskóla Íslands munu aðilar atvinnulífs og vinnumarkaðar vera kvaddir að því máli. Umræðan um málið er þegar hafin og verður ekki stöðvuð. Það er enginn meiri hluti um það. Til þess að klykkja nú út með þetta þá er búið að gera tvær skoðanakannanir sem sýna viðhorfsbreytingar af því tagi að meiri hluti þjóðarinnar sé þeirrar skoðunar að hann telji rétt að slík könnun fari fram a.m.k.