Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 19:52:28 (5300)


[19:52]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Af því að við erum nú svo mildir hér við lok umræðunnar að við erum ekkert að draga það mjög skarpt upp fyrir hæstv. ráðherra hvernig þetta hefur allt saman farið þá ætla ég ekki að eyða miklum orðum að því. Ég veit hins vegar að hæstv. ráðherra man það að tillagan sem hann flutti í skýrslunni fyrir tveimur árum hún var um að Stjórnarráð Íslands gerði þessa úttekt. Öll ráðuneyti og allar ríkisstofnanir, ríkiskerfið allt átti að leggjast í það að meta aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það átti því að vera pólitísk vinna undir stjórn þeirra stofnana sem ráðherrarnir stýra að fara í þetta verk. Því var hafnað, hæstv. ráðherra. Það hefur ekki verið samþykkt enn. Í staðinn hafa nokkrir ágætir vinir mínir upp í háskóla fengið það verkefni í aukavinnu að skrifa svona smáskýrslur um kosti og galla dittins og dattins varðandi EB-aðild. Það verða Gunnar Helgi og Gunnar G. Schram og einhverjir svona snillingar og munu senda einhverja texta. Það verður ekki mikið hlustað á þá texta, hæstv. ráðherra, vegna þess að flestir þeirra hafa skrifað það sem þeir hafa að segja um það mál nú þegar. Ef hæstv. ráðherra telur einhverja huggun í því að búa til aukavinnu handa þeim uppi í háskóla sem einhver meiri háttar pólitísk tíðindi þá má hann það alveg fyrir mér.