Rannsóknarráð Íslands

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 10:58:23 (5306)


[10:58]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er þetta sama atriði um vinnubrögð í þinginu og það sem snýr að menntmn. Ég get tekið undir það með hv. þm. Tómasi Inga Olrich að það er of mikið um flaustur í vinnubrögðum og við fáum allt of mörg mál allt of seint og það gildir um þetta mál. Því miður höfum við örskamman tíma til stefnu. Þetta er stórt og mikilvægt mál og ég tek undir það að ég er tilbúin til að leggja mitt af mörkum til að við getum afgreitt það fyrir vorið. Mér finnst það mjög mikilvægt, ég tek undir það, en mig langar að benda á að mér vitanlega hefur lítið verið boðið upp á það að við kæmum að þessu máli í menntmn. Ég kannast ekki við það. Ég man eftir þessu málþingi sem þingmaðurinn minntist á en ég hafði ekki tækifæri til að sinna því. Það er mikið að gera í þinginu og mörgu að sinna.
    En mig langar að hugga hv. 6. þm. Norðurl. e. þar sem hann hafði áhyggjur af því að menntmn. hefði mikið að gera. Það er ekki svo. Staðreyndin er sú að af þeim 16 málum sem boðuð voru á lista sem lagður var fram með stefnuræðu forsrh. hafa einungis þrjú skilað sér frá ráðherrunum til nefndarinnar og þau koma öll á einu bretti þegar skilafrestur er að verða útrunninn. Ég óttast það að okkur takist ekki að afgreiða þessi mál, enda eru svo sem þingmannamál líka, mörg hver býsna merkileg og mikilvæg sem við þurfum að sinna. Það er auðvitað ekki viðunandi að mál komi svona seint fram ef áætlunin er að afgreiða þau. Það er ekki viðunandi.
    En ég ítreka það að ég er tilbúin til að leggja mikið á mig til þess að reyna að ljúka þessu merkilega og góða máli.