Rannsóknarráð Íslands

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 11:17:45 (5310)


[11:17]
     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Því miður af sérstökum ástæðum gafst mér ekki tækifæri til að taka þátt í þessari umræðu um þetta mikilvæga mál og vildi því hér í andsvörum, þó ég hafi í raun og veru engu að mótmæla hjá hæstv. ráðherra, segja örfá orð. Ég vil í fyrsta lagi fagna því að með þessu frv. er, eins og ég skil það, gerð tilraun til að styrkja okkar rannsókna- og vísindastarfsemi. Það hafa lengi verið efasemdir um réttmæti þess að sameina yfirstjórn þess sem við köllum grundvallar- eða undirstöðurannsóknir og hins sem við köllum hagnýtar rannsóknir. Það hefur verið vegna þess að menn hafa óttast að mikið meiri áhersla á svonefndar hagnýtar rannsóknir --- ég vil taka fram að ég hef aldrei verið ánægður með þá nafngift --- kynni að draga úr fjármagni til undirstöðurannsókna. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að eftir að háskólinn hefur aukið mjög sína rannsóknastarfsemi og komið á fót sannarlega rannsóknum sem eru ekkert síður hagnýtar en aðrar þá sé þetta réttmætt og get því stutt það.
    Ég vil hins vegar taka alveg sérstaklega undir það sem mun hafa komið fram í umræðunum í dag að allt er þetta til lítils nema aukið fjármagn fáist til rannsókna og vísinda. Þar stendur í raun og veru hnífurinn í kúnni, ef ég má orðað það svo. Ég vil vekja athygli á því að það hafa verið í skattalögum, og mér er ekki kunnugt um að það hafi verið fellt út, heimildir til að draga frá skattskyldum tekjum framlög til menntamála. Ég man ekki betur en að þar væru meðtalin framlög til rannsókna. Og ég tek undir það sem kom fram í gær að þetta þarf að tryggja. Það er áreiðanlega eins réttmætt eða réttmætara að draga frá framlög til rannsókna og vísindastarfsemi heldur en t.d. framlög til stjórnmálaflokkanna, sem nú er komið í lög.
    Ég hefði að vísu einnig viljað segja nokkur orð um það stjórnunarfyrirkomulag sem hér er gert ráð fyrir. Ég geri mér ekki nógu glögga grein fyrir því hvernig þeir endar nást saman eins og þar er gert ráð fyrir að skipa í Rannsóknaráðið. En til þess vinnst því miður ekki tími.