Landsbókasafn Íslands Háskólabókasafn

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 12:03:47 (5322)


[12:03]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að segja það að hér er um merkismál að ræða, sem hæstv. menntmrh. hefur mælt fyrir, frv. til laga um Þjóðarbókhlöðu og í sjálfu sér, þegar maður hugsar um alla söguna sem hæstv. ráðherra fór yfir, þá er það svolítið broslegt að frv. skuli þurfa að fara með síkum hraða í gegnum þingið sem raun ber vitni. En ég tek undir það að mikilvægt er að það geti orðið að lögum á þessu vorþingi og mun leggja mig fram um það, eins og ég get sjálf í hv. menntmn., að svo geti orðið.
    Ég vil enn fremur segja það að ég held að það fari vel á því núna á 50 ára afmæli lýðveldisins að Þjóðarbókhlaða verði tekin í notkun og er það þjóðinni eflaust mikið fagnaðarefni.
    Eins og fram hefur komið þá er verið að sameina Landsbókasafn Íslands sem stofnað var 1818 og tók til starfa 1825 og Háskólabókasafnið sem stofnað var 1940. En eins og hér hefur komið fram og kom fram hjá hæstv. ráðherra, þá er umdeilt að frv. eða lögin beri þetta nafn þannig að safnið sjálft heiti Þjóðarbókhlaða. Í minni málvitund finnst mér eins og hlaðan sé umgjörðin samanber hey og hlaða en ekki safnið sjálft. En þetta er mál sem við munum eflaust ræða í hv. menntmn. og ég get svo sem tekið undir það að þetta heiti, Þjóðarbókhlaða, er orðið nokkuð fast með þjóðinni og þess vegna er kannski rétt að taka þessa stefnu. En mér finnst eins og það sé verra hvað varðar háskólann að með þessu hefur nafnið ekki bein tengsl við háskólann sem slíkan þar sem það er náttúrlega undirstaða háskóla að hafa háskólabókasafn.
    Mig langar, með leyfi hæstv. forseta, til gamans að vitna aðeins í ræðu sem haldin var þegar Hannes Hafstein ráðherra lagði hornstein að Safnahúsinu, sem vígt var 1909. En það er svo, með leyfi forseta. --- Þetta er hluti úr ræðu hans sem ber yfirskriftina ,,Mennt er máttur``:
    ,,Bókasöfn hafa tvenns konar ætlunarverk. Í fyrsta lagi geyma þau bókmenntir og sögu þjóðarinnar og eru þannig varðkastali og forðabúr þjóðernistilfinningarinnar sem aftur er skilyrðið fyrir samheldni, vilja og krafti til þess að efla og hefja þjóðina sem þjóð. Ég vona að þessi bygging sem hér á að rísa verði trúr og tryggur geymslustaður fyrir allt gott í íslenskum bókmenntum að fornu og nýju. Öruggt vígi fyrir minningu þeirra manna sem auka og efla menntir og þar með mátt þessa lands.`` Og svo síðar: ,,En bókasöfnin hafa einnig annað ætlunarverk og það er að vopna hinn lifandi lýð í framsóknarbaráttunni á hverjum tíma með því að fá inn í landið jafnóðum hinar bestu bækur og rit í öllum vísindagreinum svo að þeir sem menntir stunda geti fylgst með í þeim framförum þekkingarinnar sem fleygja menningu áfram. Hvarvetna og í öllu er það nútímans reynsla að þekkingin er það sem sigrinum ræður.``
    Það hefur komið fram í umræðu hér að þetta ágæta hús sé kannski þegar orðið of lítið og víst er að það hefur lengi verið í byggingu og margt hefur breyst á þeim árum. Það er t.d. staðreynd að lestrarborðum hefur verið fjölgað mikið frá því sem áætlað var, úr því að vera 600 í 800 og auðvitað hefur það sín áhrif. Enn fremur kom það fram í ræðu hæstv. menntmrh. að þessu nýja húsi er ætlað miklu meira og merkilegra hlutverk og meiri þjónusta við fólkið í landinu heldur en þau tvö söfn sem nú eru til staðar. En þegar maður heyrir þessar staðreyndir um stærð þeirra safna sem nú eru í notkun og svo aftur stærð Þjóðarbókhlöðunnar, þá finnst manni nú reyndar að það sé með ólíkindum ef sú starfsemi rúmast ekki á þeim gólffleti sem mun vera 13.000 fermetrar. En ég efast ekki um að við munum leita upplýsinga um það í hv. nefnd hvernig þessi mál snúa að safninu.
    Svo er annað sem mig langar til að nefna og það er hvort það er ástæða til og hvort það er rétt að --- það er kannski óvirðulegt að segja að hrúga öllum bókum, en ég held að ég noti þó það orðalag --- inn í eitt hús. Það eru margar mjög verðmætar bækur til á Íslandi og ég hef lagt fram fsp. á hv. Alþingi

um Safnahúsið, hver sé fyrirhuguð nýting á því eftir að Landsbóksafnið hefur verið flutt út úr því en ég ætla ekkert frekar að koma inn á það að þessu sinni. Mér er kunnugt um það að t.d. hjá okkar nágrannaþjóðum eru varðveislusöfn annars staðar en sjálf þjóðbókasöfnin. Það kom ekkert fram í ræðu hæstv. ráðherra um það og þess vegna langar mig til að forvitnast um það hvort það er meiningin að varðveislueintök verði líka í Þjóðarbókhlöðu. Þannig háttar til t.d. í Danmörku að Danir eru með sitt varðveislusafn í Árósum en þjóðbókasafnið er í Kaupmannahöfn. Norðmenn hafa varðveislusafn í Mo i Rana en það eru um 2.000 km norðan við það sem þeir hafa sitt þjóðbókasafn sem er í Ósló. Þetta finnst mér mál sem virkilega þarf að huga að og það gæti hugsast að það væri ekki úr vegi að einhver hluti Safnahússins, t.d. kjallari gæti áfram verið nýttur sem varðveislubókasafn.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að fara ofan í einstakar greinar frv. þar sem ég veit að það er unnið af sérfróðum mönnum á þessu sviði og hef ekki þekkingu til þess að gagnrýna það á þessu stigi málsins en tel að þetta sé fyrst og fremst rammalöggjöf og textinn svona alla vega vel ígrundaður og góður.
    Mig langar að síðustu að koma inn í aftur það sem ég ræddi áðan um rekstrarkostnað Þjóðarbókhlöðu. Það kom frétt í einu dagblaðanna hér fyrr í þessum mánuði þar sem það var gert að umræðuefni að rekstrarkostnaður Þjóðarbókhlöðu yrði tvöfalt hærri en Landsbókasafns og Háskólabókasafns og fannst mér í þeirri frétt verið að gagnrýna það. En ég held að alla vega hvað varðar Landsbókasafnið þá hafi öllu verið haldið þar mjög í lágmarki og það sé í sjálfu sér óraunhæft, eða það sé eiginlega óskiljanlegt hversu ódýr rekstur hefur verið á því safni að undanförnu. Bara það hvað þarna er verið að flytja í miklu miklu stærra húsnæði og meiningin er að veita miklu meiri þjónustu, það kemur náttúrlega til með að kosta meira og ekkert um það að segja. En hæstv. menntmrh. orðaði það svo í sinni ræðu að að sjálfsögðu yrði það háð fjárveitingum hv. Alþingis hversu mikið fjármagn færi til Þjóðarbókhlöðu og er það í sjálfu sér rétt en þó finnst okkur sem höfum einhverja reynslu af þingstörfum að ráðuneytin hafi dálítið mikið um það að segja í sínum tillögugjörðum.
    En ekki frekar um það, hæstv. forseti. Ég tek undir það að þetta frv. þarf endilega að verða samþykkt sem lög á þessu vorþingi.