Landsbókasafn Íslands Háskólabókasafn

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 12:35:08 (5324)


[12:35]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er enn eitt merkismálið á dagskrá og hér erum við að ræða mál sem nauðsynlegt er að afgreiða á næstu vikum því ef þessi stofnun á að taka til starfa 1. des. nk. þá verður að fara að skýrast eftir hvaða lögum hún á að starfa. En hér er líka um nokkuð flókið mál að ræða, flókið fræðilegt mál og mér segir svo hugur um að þeir sem best þekkja til bókasafna séu kannski ekki alveg samstiga í því hvort hér er verið að fara rétta leið og ég ætla að koma að því síðar. En mér datt í hug þegar hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir var að vitna til Hannesar Hafsteins, fyrst menn voru svona hátíðlegir 1908 eða 1909 þegar verið var að vígja Landsbókasafnið þá megi sá menntmrh., sem lendir í því verki að vígja hina nýju Þjóðarbókhlöðu, aldeilis vanda sig. En það er svolítið svipað á komið með hæstv. menntmrh. sem nú situr og var með Hannes Hafstein á þessum tíma að það geysuðu nokkrir eldar í kringum ráðherrann á þeim tíma og eins og við höfum orðið vitni að þá er líftími þessarar ríkisstjórnar sem nú situr greinilega að styttast og verður fróðlegt að vita hvort hæstv. menntmrh. lendir í því verki að vígja Þjóðarbókhlöðuna.
    Það sem mig langaði einkum að gera að umtalsefni er spurning um hvers konar stofnun er hér verið að byggja upp. Það er ljóst að við erum að tala hér um nokkuð stóra ríkisstofnun sem verður með fjölda starfsmanna og mun kosta fleiri hundruð milljónir í rekstri. Samkvæmt því sem fram kemur í umsögn fjmrn. þá er gert ráð fyrir að reksturinn kosti u.þ.b. 242 millj. kr. á þessu ári, þá er verið að tala um framlögin og launakostnað. Það er ljóst að þessi stofnun mun draga til sín verulegt fjármagn. Þetta er stór stofnun. En hvers konar stofnun? Hér segir í 1. gr. að Þjóðarbókhlaðan eigi að verða sjálfstæð háskólastofnun en samkvæmt þessum lögum þá er staða hennar nokkuð sérstök, háskólastofnun en með sérstaka stjórn og síðan á að skipa forstöðumanninn eða þjóðbókavörðinn með nokkuð sérstökum hætti þannig að form þessarar stofnunar er ólíkt því sem tíðkast um aðrar stofnanir háskólans. Ég held að við þurfum að skoða þessi mál í samhengi. Á þetta að vera algjörlega sjálfstæð stofnun eða hvað? Þetta ræðst af því að fyrir allmörgum árum var tekin ákvörðun um það að sameina þessar um margt ólíku stofnanir, Landsbókasafnið og Háskólabókasafnið. Ef maður horfir á þessi tvö söfn frá sjónarhóli bókasafna þá eru þetta gjörólík bókasöfn. Háskólabókasöfn hafa það eðli að þar er veitt gríðarlega mikil þjónusta. Þar þarf að eiga sér stað mjög mikil endurnýjun á bókakosti. Þetta er stofnun þar sem ríkir nokkur hraði og mjög margvísleg þjónusta en í safni eins og Landsbókasafninu ríkir meiri kyrrstaða. Þar er verið að varðveita, þar er verið að safna saman öllum bókaarfinum frá nánast upphafi vega hér á landi og umfang þess er fyrst og fremst takmarkað við íslenskar bækur þó að þar sé allnokkur erlendur bókakostur, þá er hann samt takmarkaður og það er miklu frekar Háskólabókasafnið sem sinnir þeirri þjónustu að útvega erlendar bækur og þá fyrst og fremst fræðibækur.
    Samkvæmt frv. er hlutverk safnsins skilgreint á mjög víðfeðman hátt. Þetta er mjög víðtækt hlutverk sem safnið á að þjóna. Ég fæ ekki betur séð en því sé ætlað það hlutverk í fyrsta lagi að vera Háskólabókasafn með alla þessa miklu þjónustu sem því fylgir. Það á líka að vera rannsóknarbókasafn sem m.a. þýðir að það þarf að vera reiðubúið til að útvega gögn frá erlendum bókasöfnum og annast þjónustu við vísindamenn og þá sem stunda rannsóknir. Því er líka ætlað að vera upplýsingasafn af ýmsu tagi og þá tengist það tölvukosti og tölvunetum og öllum þeim samböndum. Jafnframt er safninu ætlað að vera varðveislusafn eins og Landsbóksafnið er núna. Það á líka að vera handritasafn, þar á að varðveita það sem við skilgreinum sem handrit og er þá í rauninni verið að tala um önnur handrit en gömlu skinnhandritin eða uppskriftir af okkar fornbókmenntum. Jafnframt á safnið að vera útlánasafn eða ég skil það þannig, það hlýtur að eiga að vera útlánasafn rétt eins og Háskólabókasafnið er núna.
    Síðan vaknar spurning um þjónustu sem tengist myndböndum og tengist þá líka upplýsingahlutverkinu og líka aðrar heimildir sem þarf að varðveita. Þá dettur mér í hug sú tillaga sem liggur fyrir þinginu um varðveislu tónlistararfsins og hvað eigi að gera við öll þau skjöl og reyndar hljómplötur, upptökur og allt slíkt. Við erum því að tala um alveg gríðarlega víðtækt hlutverk. Þar við bætist að inn í þessa stofnun fara mörg sérsöfn. Það eru bæði á Háskólabókasafninu og Landsbókasafninu sérmerktar deildir þar sem er að finna gjafir sem söfnunum hafa borist og hefur verið reynt að halda þessum gjöfum saman. En út frá bókasafnsfræði þá eru slík sérsöfn ákveðið vandamál. Þar við bætist líka Kvennasögusafnið sem væntanlega mun fara inn í þessa stofnun. Spurningin sem ég er að velta fyrir mér er í raun og veru: Fer þetta saman? Er hægt að reka bókasafn með svo gríðarlega víðtækt hlutverk? Þróunin á undanförnum áratugum hefur verið frekar í hina áttina að sérhæfing hefur aukist, menn hafa frekar farið út í það að koma upp sérsöfnum og greina í sundur heldur en að reka söfn með svona víðtækum hætti. En þó eru til söfn mér nokkuð kunnug, t.d. Konunglega bókhlaðan í Kaupmannahöfn, sem í rauninni sameinar það að vera svona víðtækt safn. Þar er að finna mikið af gömlum handritum og bréfum og slíku og jafnframt hafa þeir verið að tengjast myndlist og tónlist og fleira slíku þannig að það er svo sem ýmislegt til í þessum efnum. En samt sem áður vaknar sú spurning hvort þessi mikla þjónusta sem þarf að veita skóla- og rannsóknastofnunum og er býsna sértæk og svo þetta að þjónusta allan almenning og að vera með alla þessa varðveislu og að geyma allan bókakost, hvort þetta fer saman. Ég vil benda á gagnmerka grein sem Einar Bragi rithöfundur birti í

Morgunblaðinu fyrir nokkrum vikum, ég tók hana því miður ekki með mér í pontuna, en þar er hann einmitt að rökstyðja það að þetta tvennt fari ekki saman. Þetta eru ákveðnar fræðilegar spurningar sem menn er að velta þarna fyrir sér og við þurfum að rannsaka. En það breytir því ekki að það er búið að taka ákvörðun og byggja þetta hús loksins og inn í það þarf að fara þessi stofnun eða stofnun að einhverju tagi.
    Þegar verið var að nefna tölur um stærðir bæði Landsbókasafnsins og Háskólabókasafnsins þá tók ég það þannig að verið væri að tala um Landsbókasafnshúsið eða Safnahúsið og svo það rými sem Háskólabókasafnið hefur í aðalbyggingu Háskólans. En vegna þess sem fram kom hér í máli hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur þá er, eftir því sem ég best veit, Háskólasafnið dreift í nánast allar byggingar Háskólans með sérdeildum og hvað varðar Landsbókasafnið þá er það með töluvert geymslurými á leigu úti í bæ þannig að það er náttúrlega svo langt í frá að það húsnæði sem þau söfn hafa í þessum húsakynnum nægi undir bókakostinn. Ég hygg því að þegar allt verður fært á einn stað þá verði byggingin ekki lengi að fyllast. En samkvæmt því sem ég hef heyrt frá bókasafnsfræðingum á þessum söfnum sem eru að huga að flutningunum þá snúa þeirra áhyggjur ekki síst að þjónusturýminu og þá ekki síst lestrarrými fyrir nemendur Háskólans og menn telja að Þjóðarbókhlaðan muni ekki að nokkru leyti uppfylla þær þarfir þó hún hljóti náttúrlega að bæta úr.
    Ég ætla aðeins að koma inn á örlög Safnahússins. Ég hef sjálf sett fram tillögu þess efnis að Safnahúsið verði gert að setri íslenskra fræða sem þýðir þá það að Stofnun Árna Magnússonar yrði flutt í húsið jafnframt því sem þar yrði önnur þjónusta í kringum rannsóknir á íslenskum fræðum og þar yrði að finna þann bókakost sem tengist því rannsóknasviði. Þarna erum við að tala um okkar merkasta arf á sviði bókmennta sem við þurfum að sýna eins mikinn sóma og við hugsanlega getum. Ég held að staðreyndin sé einfaldlega sú að menn verði að nýta Safnahúsið sem safn einfaldlega vegna þess að húsið er alfriðað og þar af leiðandi eru hugmyndir sem hefur verið varpað fram um að koma þar fyrir Hæstarétti algjörlega út í bláinn. Það er einfaldlega ekki hægt og menn hafa nefnt það í mín eyru, sérfræðingar í varðveislu húsa, að allar innréttingar í Safnahúsinu séu orðnar það sem á erlendum málum heitir ,,raritet``. Það eru orðin vandfundin bókasöfn með svona gömlum og virðulegum innréttingum og því er það þess vegna virkilega þess virði að varðveita innréttingarnar og auðvitað á sínum stað.
    Ég hef í sjálfu sér ekki margar athugasemdir við greinar frv., ég hef því miður ekki getað gefið mér almennilegan tíma til að fara í gegnum einstakar greinar en ég vil taka undir athugasemd varðandi skipan þjóðbókavarðar og þetta sem við þurfum að taka sérstaklega fyrir í menntmn. með skilgreiningu á stofnuninni og hvernig tengslum við háskólann skuli háttað.
    Það er spurning í mínum huga að mér finnst vera ansi mikið ósamræmi í þeim reglum sem gilda um skipan yfirmanna stofnana. Það er ýmist verið að skipa til fjögurra ára, fimm ára eða sex ára og það er spurning hvort eigi að gilda ein regla í því eða á þetta að vera breytilegt. Ég hef svo sem ekki neina skoðun á því, mér finnst t.d. þegar við erum að tala um leikhúsin eða t.d. Þjóðleikhúsið þá sé það þannig stofnun sem eðlilegt er að skipta nokkuð hratt um, vegna þess að þangað þurfa að koma nýir straumar. En þegar um er að ræða stofnun eins og Þjóðarbókhlöðuna þá er það mín tilfinning að það kannski skipti ekki eins miklu máli en maður þarf auðvitað líka að hugsa þetta út frá því fólki sem verið er að ráða í stöður af þessu tagi. Þetta er eitt af þessu sem við verðum að huga að í ríkisrekstrinum hvernig eigi að vera háttað.
    Eins varðandi þau ákvæði í frv. um fjármögnun og það að hægt sé að taka gjöld fyrir ákveðna þjónustu, þá er það þannig í dag. Það eru tekin gjöld á bókasafninu fyrir t.d. ljósritun og annað slíkt. Þar er um óskaplega mikla pappírseyðslu að ræða og mér finnst eðlilegt þegar maður gengur inn á bókasafnið og biður um ljósrit af einhverju að maður borgi fyrir það. Ég sé í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það þegar um sérstaka þjónustu er að ræða, en ég vil helst sjá þeirri stefnu viðhaldið að bókasöfn séu öllum opin og það þurfi ekki að greiða sérstaklega fyrir það að fá að nota þau þegar um ríkisbókasöfn er að ræða.
    Virðulegi forseti. Ég ætti kannski aðeins að koma inn á heiti safnsins. Ég hef í sjálfu sér ekki neina sérstaka skoðun á því. Þjóðarbókhlaða er gríðarlega hátíðlegt orð, en eins og hér hefur verið bent á felur það ekki í sér neina tengingu við háskólann. Þetta er mál sem maður þarf að velta svolítið fyrir sér og ef tillaga kemur um eitthvað betra er ég svo sem reiðubúin til að fallast á eða skoða það.
    Ég vil gjarnan ítreka þá spurningu sem kom fram hjá síðasta ræðumanni varðandi Kvennasögusafnið, hvort ekki sé út frá því gengið að það safn verði í Þjóðarbókhlöðunni. Þar er um mjög merkilegt og sérstakt safn að ræða sem nauðsynlegt er að varðveita og þar er að finna alveg einstök gögn sem þurfa að vera aðgengileg þeim sem vilja rannsaka kvennasögu eða eru að stunda kvennafræði. Ef til vill kann að vera um fleiri slík söfn að ræða sem eiga erindi þarna inn. Eins vildi ég biðja hæstv. menntmrh., ef hann svarar hér á eftir, að koma inn á það sem snýr að tónlistararfinum því að þar er um geysilega stórt mál að ræða. Þar eru mikil gögn á ferð og mér er sagt að Landsbókasafnið eigi í sínum fórum mjög merkilegt nótnasafn, meira að segja mjög gamlar útgáfur af nótum, sem ég veit reyndar ekki hvernig hafa komist í eigu safnsins. Auðvitað er jafnmikilvægt að varðveita slíkan nótnakost og svo margt annað.